Mikilvægt skref til þjóðarsáttar segir landbúnaðarráðherra

Skrifað var undir breytingar á gildandi búvörusamningum um starfskilyrði sauðfjárræktar og starfskilyrði mjólkurframleiðslu í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Ekki verða gerðar breytingar á aðlögunarsamningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða eins og stefnt var því ekki náðist samkomulag um þær breytingar í þessari atrennu.
Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undirritaði samningana fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands, Sigurður Loftsson formaður Landssambands kúabænda og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson formaður Landssamtaka sauðfjárbænda skrifuðu undir samningana fyrir hönd bænda.

Samningarnir lengdir um tvö ár á móti skerðingum
Í fjárlögum ársins 2009 var ákveðið að skerða samningsbundnar greiðslur samkvæmt búvörusamningum vegna fyrirséðra erfiðleika í ríkisfjármálum í kjölfar bankahrunsins. Bændasamtök Íslands og búgreinafélögin mótmæltu strax þeim gjörningi og hafa haldið því fram að þar hafi verið um samningsrof að ræða. Aðilar hafa síðan kannað nánar réttarstöðu gildandi samninga og er niðurstaðan sú að veruleg réttaróvissa ríki um ofangreindar skerðingar gagnvart rétti einstakra bænda. Af þessum sökum hafa að undanförnu farið fram samningaviðræður milli ríkisvaldsins og bænda og hefur náðst sátt um svofelldar breytingar á gildandi búvörusamningum:


• Framlög á árinu 2009 verði samkvæmt fjárlögum.
• Framlög ársins 2010 verði 2% hærri en 2009, óháð verðlagsþróun.
• Árið 2011 hækki framlög aftur um 2%, en auk þess bætist við helmingur af því sem upp á vantar til að framlag ársins uppfylli ákvæði gildandi samnings. Þó verði hækkun milli ára ekki umfram 5%.
• Árið 2012 verði greitt samkvæmt gildandi samningi, en þó með fyrirvara um 5% hámarkshækkun eins og árið 2011.
• Samningarnir verði framlengdir um tvö ár, að mestu á óbreyttum forsendum.


Haraldur Benediktsson sagði við undirritun samningsins að samningurinn sé gerður ekki síst fyrir atvinnulífið og byggðirnar í landinu. „Það eru tíu þúsund manns í landinu sem hafa atvinnu sína af landbúnaði með einum eða öðrum hætti og stærstur hluti þeirra tengist þessum búgreinum. Fyrir þetta fólk erum við að gera þennan samning og ekki síst að tryggja það að búvöruframleiðsla stöðvist ekki eða dragist verulega saman. Slíkt myndi ógna verulega matvælaöryggi þjóðarinnar. Við bændur erum líka með þessu að leggja okkar af mörkum til að byggja hér upp samfélagið á nýjan leik og takast á við þá miklu erfiðleika sem að steðja, ekki síst í ríkisfjármálum. Við teljum að við séum að slá tóninn í því og það er kannski athyglisvert að það skuli vera bændur sem ríða þar fyrstir á vaðið.“


Verðbólguþróun ræður skerðingunum
Steingrímur tekur undir með Haraldi. „Það skiptir gríðarlegu máli að við séum hér búnir að tryggja starfsskilyrði búgreinanna til nánustu framtíðar. Vissulega er bændur að taka á sig þungar byrgðar og líka mikla áhættu. Það er mitt mat að með þessu sé verið að stíga mikilvægt skref í átt til þjóðarsáttar um nauðsynlegar aðgerðir til að takast á við þá erfiðu tíma sem þjóðin gengur nú í gegnum. Með þessu sýna bændur að þeir bregðast ábyrgt við og þeir eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum eins og þeir hafa áður gert, líkt og í þjóðarsáttinni á sínum tíma, en þar skipti framlag landbúnaðarins mjög miklu máli. Bændur ríða hér á vaðið og bind ég vonir til þess að þetta geti orðið fordæmi fyrir aðra. Það er líka afar mikilvægt að tekist skuli hafa að koma samskiptum milli ríkisvaldsins og bænda í eðlilegt horf eftir þau rof sem urðu með síðustu fjárlagagerð.“


Steingrímur segir ekki ljóst hversu mikil skerðing verði á greiðslum til bænda frá fyrri samningi, þar skipti verðbólguþróun höfuðmáli. „Í fjárlögum ársins 2009 var gert ráð fyrir því að skerðingin yrði um 800 milljónir króna en vonir standa þó til að sú upphæð geti orðið nokkru minni. Sama á við um árið 2010 en allt stendur þetta og fellur með því að hér takist að ná tökum á verðbólgu og koma á jafnvægi í ríkisrekstrinum.“


Samkomulagið er undirritað með fyrirvara um nauðsynlegar lagabreytingar Alþingis og samþykki í atkvæðagreiðslu meðal bænda. Ekki er ljóst hvenær hægt verður að fara af stað með fundaherferð til þessa að kynna bændum samningana og bera þá svo undir atkvæði en það mun gerast eins fljótt og kostur er.


Á meðfylgjandi mynd má sjá þá Sigurgeir Sindra Sigurgeirsson frá LS, Harald Benediktsson frá BÍ, Steingrím J. Sigfússon landbúnaðarráðherra og Sigurð Loftsson frá LK undirrita samninginn.


Samkomulag um breytingar á sauðfjársamningi
Samkomulag um breytingar á mjólkursamningi


 


back to top