Orsakir kálfadauða hjá fyrsta kálfs kvígum

Út er komið Rit LbhÍ nr. 19. Ritið ber heitið Orsakir kálfadauða hjá fyrsta kálfs kvígum. Skýrsla um rannsóknir 2006-2008. Ritstjóri er Magnús B. Jónsson. “Kálfadauði hefur á undanförnum árum verið stöðugt vaxandi vandamál í íslenskri mjólkurframleiðslu. Má ætla að tjón af völdum hans nemi milljónum króna á ári hverju í afurðatjóni, töpuðum erfðaframförum stofnsins og fleiri þáttum,” segir Magnús B. Jónsson í yfirlitsgrein.

„Afkoman er hörmuleg í augnablikinu“

Verð til svínakjötsframleiðenda þarf að hækka um 38,5% til að þeir nái endum saman, að sögn Guðbrands Brynjúlfssonar á Brúarlandi í Borgarfirði. Offramleiðsla hefur gert það að verkum að afurðirnar hafa lækkað mikið í verði á árinu og segir Guðbrandur að verði engin breyting á gefist margir framleiðendur upp innan tveggja til þriggja mánaða.

Bústjórahúsið á Stóra-Ármóti

Framkvæmdum við bústjórahúsið á Stóra-Ármóti er nú lokið en það hefur fengið verulega andlitslyftingu. Húsið sem byggt var árið 1950 þarfnaðist orðið verulegs viðhalds að utan og hafa framkvæmdir staðið yfir frá síðastliðnu hausti. Mest var unnið í framkvæmdinni á liðnum vetri en endanlega var lokið við alla vinnu utanhúss nú í sumar.

Hjalti Gestsson látinn

Hjalti Gestsson fyrrverandi ráðuanutur og framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands lést í gær á 94. aldursári. Hjalti var fæddur 10. júní 1916 að Hæli í Gnúpverjahreppi. Hjalti var mikilvirkur brautryðjandi innan íslenskrar búfjárræktar, þ.e. nautgripa- sauðfjár- og hrossaræktar.
Hjalti lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1938. Hann varð búfræðikandídat frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1941 og lauk þaðan framhaldsnámi tveimur árum síðar.

Algjör metuppskera

„Það er algjör metuppskera á þessu svæði. Við erum að fá 3-4 tonn af korni á hektarann. Kornuppskera hér undir Eyjafjöllum er ekki undir þúsund tonnum,“ sagði Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri og formaður Landssambands kornbænda.
Kornskurður hefur gengið mjög vel í haust og hafa kornbændur undir Eyjafjöllum ekki orðið fyrir neinum skakkaföllum hvað veðurfar snertir. Ólafur taldi að kornskurður hafi yfirleitt gengið vel á Suðurlandi.

Uppsagnir á Hvanneyri

Allur búrekstur Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri verður færður undan skólanum og yfir í sérstakt rekstrarfélag um næstu áramót. Við þessa breytingu var ellefu starfsmönnum skólans sagt upp störfum, þar af fimm sem tengjast búrekstrinum.
Landbúnaðarháskólinn hefur rekið 70 kúa fjós á Hvanneyri og um 700 kinda fjárbú á Hesti í Borgarfirði. Ný útihús er á báðum stöðum og nýr mjaltaþjónn sér um mjaltir í Hvanneyrarfjósinu.

Framlög til ráðgjafarþjónustu bænda dragast mikið saman

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í gær er niðurskurðarhnífnum beitt oft og víða. Meðal þess sem fyrir honum verður eru framlög ríkisins til bænda og samtaka þeirra. Framlög til þess að standa undir beingreiðslum til sauðfjár-, kúa- og garðyrkjubænda eru þó í samræmi við þá samninga sem gerðir voru um búvöruframleiðsluna í vor og sumar. Hins vegar eru framlög til ráðgjafarþjónustu dregin verulega saman. Alls nemur sá niðurskurður ríflega 100 milljónum króna sé borið saman við útgjöld til sama málaflokks á þessu ári. 87,2 milljónir eru teknar af liðnum Ráðgjafarþjónusta og búfjárrækt og 30 milljónir af liðnum þróunarverkefni og markaðsverkefni.

Burður og burðarhjálp

Námskeið í burðarhjálp verður haldið á Stóra Ármóti næstkomandi þriðjudag, þann 6. október. Námskeiðið er haldið á vegum endurmenntunardeildar Landbúnaðarháskólans og kennari er Grétar Hrafn Harðarson, dýralæknir og tilraunastjóri á Stóra-Ármóti.

Mjaltaþjónar á Íslandi í 10 ár

Á laugardaginn var, 26. september sl., voru liðin 10 ár frá því fyrsti mjaltaþjónninn var tekinn í notkun hér á landi. Þá tóku Sæmundur, Svanborg og fjölskylda á bænum Bjólu í Rangárþingi ytra (þá Djúpárhreppi) í gagnið Lely Astronaut A2 mjaltaþjón.

Veðurfréttir

Hinn 28. september urðu þær breytingar á útsendingartíma veðurfregna á RÚV, Rás eitt, að veðurspá, sem flutt hefur verið frá Veðurstofu Íslands að loknum fréttum kl. 16 verður framvegis klukkan 18:50. Með spánni verður einnig skýrt frá hæsta hita dagsins og mestu úrkomu. Í morgunfréttatíma, sem er kl. 10:03, er skýrt frá lægsta hita næturinnar.
Veðurfregnir frá Veðurstofu eru nú lesnar í útvarpi kl. 00:50, 4:30, 6:40, 10:03, 12:45, 18:50 og 22:07. Auk þess eru lesnar stuttar veðurfréttir með öðrum fréttum RÚV og annarra útvarpsstöðva.

Sakfelling í dómsmáli vegna aðbúnaðar og umhirðu hrossa

Nýlega féll dómur í Héraðsdómi Suðurlands í máli sem varðaði heilbrigði og velferð dýra en umráðamaður þeirra var sakfelldur í málinu. Mál þetta byrjaði með ábendingu til Matvælastofnunar en í framhaldi var umhirða og ástand tveggja hrossa staðfest af héraðsdýralækni og héraðsráðunaut. Vegna bágs ástands hrossanna reyndist nauðsynlegt að aflífa hrossin. Um var að ræða tvær hryssur. Önnur hryssan var með hófsperru á öllum fótum og gat ekki hreyft sig úr stað. Holdafar hryssunnar var samkvæmt holdstigun á bilinu 1,0 (grindhorað) til 1,5 (horað). Hin hryssan hafði líka hófsperru en auk þess slæma sinubólgu á öllum fótum. Holdafar hennar var samkvæmt holdstigun á bilinu 1,5 (horað) til 2,0 (verulega aflögð).

Beint frá býli með nýja heimasíðu

Ný heimasíða www.beintfrabyli.is hefur nú litið dagsins ljós. Þar geta viðskiptavinir nálgast íslenskar landbúnaðarafurðir á auðveldan og skilvirkan hátt. Þar er hægt að leita eftir landshlutum, eftir vörum eða eftir ákveðnum bæ.
Beint frá býli, félag heimavinnsluaðila er félag bænda sem stunda eða hyggjast stunda sölu afurða beint frá býli bóndans á Íslandi.

Ráðherra tekur við fyrstu framleiðslu af bíódísil hér á landi

Mánudaginn 21. september sl. fékk Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra afhenta flösku af bíódísil (jurtadísilolíu) sem unnin var í haust úr vetrarrepju frá Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Hér er um nýja aukabúgrein að ræða og er þetta fyrsta framleiðslu bíódísil hér á landi. Það var Ólafur Eggertsson bóndi á Þorvaldseyri sem afhenti flöskuna.

Flytja þarf út mikið af lambakjöti

Flytja þarf út allt að 2800 tonn af lambakjöti á næstu tólf mánuðum vegna mikils samdráttar í sölu á innanlandsmarkaði. Síðustu ár hafa verið flutt út á bilinu 1500 til 1600 tonn á ári.

Ný auglýsing um varnarlínur

Matvælastofnun hefur birt í Stjórnartíðindum nýja auglýsingu um skipan varnarlína vegna sauðfjársjúkdóma. Fyrri auglýsing sem birtist 21. ágúst sl. var ekki rétt og hefur nú verið birt ný og leiðrétt útgáfa.
Auglýsingin birtist einnig í Bændablaðinu sem út kom í dag og þar er einnig að finna grein Halldórs Runólfssonar yfirdýralæknis þar sem hann gerir grein fyrir því sem í auglýsingunni felst. Sauðfjárbændur eru hvattir til þess að kynna sér hvort tveggja vel.
Auglýsingin fer hér á eftir:

Franskur búnaðarljósmyndari myndar íslenskar kýr

Í fyrravor hafði franskur ljósmyndari, Bruno Compagnon, samband við skrifstofu Landssambands kúabænda og spurðist fyrir um hvort mögulegt væri að heimsækja kúabú hér á landi, til að mynda búpeninginn. Það reyndist auðsótt mál og dvaldi Bruno þessi á Íslandi í 10 daga í júnímánuði við iðju sína. Hefur hann að aðalstarfi að ljósmynda kýr, fyrir búnaðarblað í heimalandi sínu.

Margir kúabændur stefna í gjaldþrot

Margir kúabændur eru í erfiðri stöðu vegna skulda og í nokkrum tilvikum virðist gjaldþrot óumflýjanlegt. Þetta á einkum við um bændur sem fjárfest hafa mikið á síðustu árum, byggt ný fjós, keypt vélar eða aukið við sig í framleiðsluheimildum. „Staðan er erfið hjá hópi bænda og verulega farið að taka á, ekki síst andlega,“ segir Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.

Skilmálar um heimtöku

Nokkuð mismunandi skilmálar eru í boði hjá sláturleyfishöfum varðandi heimtöku í haust, en með brottfalli útflutningsskyldunnar er ekki lengur um neinn sérstakan heimtökurétt að ræða. Sláturhúsunum er því í sjálfsvald sett hvaða kjör þau bjóða upp á í því efni. Hér er samantekt um þau eins og þau koma fram á heimasíðum þeirra. Allar tölur eru án vsk.

Þresking á stærsta kornakri landsins

Meðfylgjandi kvöldmynd er frá þreskingu á risaakri á Skógasandi undir Eyjafjöllum á dögunum. Byggyrkið er Skúmur og akurinn er 60 hektarar að stærð, sá stærsti á Íslandi. Það eru bændur á Drangshlíðarbúinu sem þarna eru að störfum, en búið hefur nýlega fengið skráningu hjá Matvælastofnum sem framleiðandi á korni og hálmi til sölu – og er því eina sérhæfða kornræktarbýli landsins.

Drapst úr hestaheilabólgu

Íslenskur hestur á búgarði í Bandaríkjunum drapst nýlega af völdum hestaheilabólgu. Veikin berst með moskítóflugum og getur ógnaði lífi dýra og manna. Hesturinn var á búgarði ræktandans Johns Dur í bænum Henniker í New Hampshire-ríki í Bandaríkjunum. Bæjarblaðið Concord Monitor greinir frá þessu en þar segir að hesturinn, sem mun hafa komið í heiminn fyrir átján mánuðum, hafi veikst af hestaheilabólgu í byrjun mánaðarins og síðan drepist af völdum sjúkdómsins á fimmtudaginn fyrir viku.

back to top