Orsakir kálfadauða hjá fyrsta kálfs kvígum

Út er komið Rit LbhÍ nr. 19. Ritið ber heitið Orsakir kálfadauða hjá fyrsta kálfs kvígum. Skýrsla um rannsóknir 2006-2008. Ritstjóri er Magnús B. Jónsson. “Kálfadauði hefur á undanförnum árum verið stöðugt vaxandi vandamál í íslenskri mjólkurframleiðslu. Má ætla að tjón af völdum hans nemi milljónum króna á ári hverju í afurðatjóni, töpuðum erfðaframförum stofnsins og fleiri þáttum,” segir Magnús B. Jónsson í yfirlitsgrein.

Rannsókn þessi leiddi ekki í ljós skýrar og óyggjandi skýringar á orsökum dauðfæddra kálfa hjá fyrsta kálfs kvígum. Rannsóknin leiddi hinsvegar í ljós að margir þættir í fóðri kvígnanna svo og fóðrun og hirðing þeirra stuðla að aukinni tíðni dauðfæddra kálfa.
Á grundvelli þeirra rannsókna sem sagt er frá í ritinu er þegar hægt að bregðast við í því skyni að draga úr tíðni dauðfæddra kálfa.

Lagt er til að það verði m.a. gert með eftirfarandi hætti:



  • Endurskoðuð verði ráðgjöf um fóðrun fyrsta kálfs kvígna á seinni hluta meðgöngunnar.

  • Fóðrun og hirðing kvígna á síðasta hluta meðgöngu verði tekin til gagngerrar endurskoðunar á þeim búum þar sem tíðni dauðfæddra kálfa er vandamál.
  • Vítamín og steinefnafóður á markaði verði sniðin að íslenskum aðstæðum og gjöf þeirra aukin og gerð markvissari í uppeldi kvígna.
  • Selenbættur áburður standi þeim bændum til boða sem vilja auka selenmagn fóðurs.
  • Áhersla verði lögð á að auka burðarvöktun og burðareftirlit og bændur hvattir til að draga úr notkun heimanauta.
  • Gefnar verði út leiðbeiningar um bætt eftirlit með burði og rétt viðbrögð við burðarerfiðleikum.
  • Tekið verði tillit til tíðni dauðfæddra kálfa og lengdar meðgöngu í vali kynbótanauta.

Ritið má nálgast á pdf-skjali á vef Landbúnaðarháskólans með því að smella hér.


back to top