Samtök ungra bænda stofnuð

Stofnfundur Samtaka ungra bænda var haldinn í Dalabúð í Búðardal 23. október síðastliðinn. Samtökin eru ætluð ungu fólki á aldrinum 18 til 35 ára sem hefur áhuga á landbúnaði og málefnum landsbyggðarinnar. Á fundinum var kosin fimm manna stjórn sem er skipuð þeim Margréti Ósk Ingjaldsdóttur, Þjórsárnesi í Flóa, Oddnýju Steinu Valsdóttir, Butru í Fljótshlíð, Helga Hauki Haukssyni, Straumi í Hróarstungu, Sigurði Þóri Guðmundssyni, Holti í Þistilfirði og Gunnbirni Ketlissyni, Finnastöðum í Eyjafirði. Helgi Haukur, sem kosinn var formaður félagsins, segir að stofnfundurinn hafi í alla staði verið ákaflega vel heppnaður.

„Það mættu þarna vel á annað hundrað manns og mikil ánægja með fundinn og stofnun félagsins. Ég vil sérstaklega þakka gestum sem sáu sér fært að mæta til okkar, svo sem forseta Íslands, landbúnaðarráðherra, stjórnmálamönnum og forsvarsmönnum hagsmunasamtaka í landbúnaði. Þessi fjöldi ungs fólks sem mætti á fundinn finnst mér benda til þess að ungt fólk sé óhrætt við að takast á við þau verkefni sem bíða, hvort sem um er að ræða þá sem munu tryggja matvælaframleiðslu á komandi árum eða þá sem munu færa gjaldeyri til landsins í með ferðamönnum í Ferðaþjónustu bænda.“

Helgi Haukur segir næg verkefni framundan hjá samtökunum. „Eitt af okkar fyrstu verkum verður að stofna landshlutafélög. Við hyggjumst stofna fjögur félög til að byrja með en útfærslan verður vitanlega í samvinnu við fólkið í samtökunum. Tilgangur samtakanna er auðvitað að styrkja tengslanet ungs fólks í landbúnaði og félagsmálaþátttöku þess. Ég held líka að það sem liggur fyrir hjá samtökunum sé að reyna að vinna að aukinni nýliðun í landbúnaði, við þurfum að móta stefnu í mýmörgum málum, til að mynda í Evrópumálum og varðandi jarða- og ábúðarmál auk annarra mála. Við ætlum okkur líka að vera samtök ungs fólks í dreifbýli og allt eru þetta snertifletir við það.“


Helgi Haukur segir að samtökin stefni að því að vinna með Bændasamtökunum í ákveðnum málum en ekki sé stefnt að því að sækja um aðild þar, í það minnsta ekki að sinni. Samtökin fengu í vöggugjöf lénið ungurbondi.is frá Landssamtökum sauðfjárbænda og er stefnt að því að koma þeirri síðu í gagnið á næstunni. Helgi Haukur segist þakklátur sauðfjárbændum fyrir það tannfé enda sé afar mikilvægt fyrir félagsskap af þessu tagi að vera vel sýnilegur. Þeir sem áhuga hafa á að skrá sig í samtökin eru hvattir til að senda póst á formanninn á netfangið helgi@isbu.is.


 


back to top