Bústjórahúsið á Stóra-Ármóti

Framkvæmdum við bústjórahúsið á Stóra-Ármóti er nú lokið en það hefur fengið verulega andlitslyftingu. Húsið sem byggt var árið 1950 þarfnaðist orðið verulegs viðhalds að utan og hafa framkvæmdir staðið yfir frá síðastliðnu hausti. Mest var unnið í framkvæmdinni á liðnum vetri en endanlega var lokið við alla vinnu utanhúss nú í sumar.

Útitöppurnar sem snéru mót norðri voru brotnar niður en þess í stað byggð forstofa með kjallara og nýr inngangur hafður mót vestri sem er mikil bragabót m.t.t. til veðurálags. Kjallarinn nýtist sem geymsla. Skipt var um allt járn á þaki og strompur hússins fjarlægður um leið. Þá var eldri utanhúsklæðning fjarlægð og allt húsið klætt að nýju. Að þessu sinni var valin standandi bárujárnsklæðningu í hvítum lit, þó brotið upp með sléttri Steni-klæðningu í gráum lit neðan til. Einangrun var endurnýjuð eftir þörfum og skipt var um fjölmarga glugga og gler. Framkvæmdin tókst í alla staði afar vel eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og átti örugglega sinn þátt í að Stóra-Ármót hlaut umhverfisverðlaun Flóahrepps nú í ár. Íbúar hússins eru bústjórar tilraunabúsins, þau Hilda Pálmadóttir og Höskuldur Gunnarsson og börn þeirra fimm.

Framkvæmdir voru í höndum Haraldar Ólafssonar byggingameistara og manna hans en útlitshönnun var í höndum Jóns Friðriks Mattíassonar á teiknistofunni M2 á Selfossi.

back to top