Hraungos líklega hafið
Hraungos er líklega hafið í gígnum á Eyjafjallajökli, að sögn Veðurstofu Íslands. Miklar sprengingar eru í honum. Í morgun náði mökkurinn í um 4 km hæð og bendir lægri gosmökkur til þess að vatn komist ekki lengur í gíginn og hraunflæði sé hafið. Veðurstofan segir að óróinn sem jókst kl. 4 í nótt geti gefið til kynna að hraun sé byrjað að renna úr gígnum.
Mökkinn leggur beint í suður enda stíf norðanátt. Laus aska fýkur af Mýrdalsjökli.
Veðurstofan spáir því að öskufall verði einkum undir Eyjafjöllum næstu daga.
Áríðandi tilkynning til eigenda útigangshrossa
Eigendur útigangshrossa um allt land þurfa að búa sig undir verja hross sín fyrir öskufalli. Of seint er að bregðast við eftir að umtalsvert öskufall er skollið á.
Miðað við veðurspá fyrir næstu daga er mest hætta á öskufalli í Rangárvallasýslu en hrossaeigendur á öllu Suður- og Suðausturlandi þurfa að vera í viðbragðsstöðu.
Þar sem mikið öskufall verður er hrossum bráð hætta búin af því að anda að sér öskunni, drekka mengað vatn og éta hana í sig með menguðu fóðri. Því þarf að hýsa öll hross á þeim svæðum. Sé það ekki hægt þarf að flytja þau á öruggari svæði.
Mikið öskufall undir Eyjafjöllum nú
Talsvert öskufall var á svæðinu frá Ásólfsskála að Sólheimajökli í nótt. Skyggni hefur verið á bilinu fjögur til fimm hundruð metrar en á köflum hefur það farið niður í um eitt hundrað metra. Í morgun barst tilkynning frá Þorvaldseyri um nær ekkert skyggni á svæðinu og að sögn Magnúsar Ragnarssonar, lögreglumanns á Hvolsvelli er skyggnið um einn metri. Núna er mikið öskufall undir Eyjafjöllum enda hefur verið norðanátt yfir gosstöðvunum sem samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands heldur áfram í dag og því hætt við öskufalli undir Eyjafjöllum og jafnvel yfir Vestmannaeyjar. Þá er mikið öskumistur í Mýrdal.
Íbúafundir næstu daga
Næstu daga verða haldnir íbúafundir á Suðurlandi. Þar munu yfirvöld fara yfir stöðu mála með íbúum ásamt almannavarnanefnd í héraði, dýralækni, veðurfræðingi, jarðvísindamanni og fleiri sérfræðingum og fulltrúum stofnana.
Fundirnir eru sem hér segir:
Hugleiðingar vegna eldgoss í Eyjafjallajökli
Nú þegar náttúruöflin hafa minnt okkur óþyrmilega á mátt sinn og megin og hinar þekktu ljóðlínur um silfurbláan Eyjafjallatind fá alveg nýja merkingu er eðlilegt að staldra við og hugleiða með hvaða hætti bændur og búfjáreigendur geta sem best búið sig undir það sem framundan er. Óvissuþættir eru fjöldamargir varðandi hegðun og úthald gossins en fyrirséð að öskufall og vatnselgur geta haft mikil og afdrifarík áhrif á heilbrigði búfjár, fóðuröflun og framleiðslu búfjárafurða á komandi sumri – svo ekki sé horft lengra fram á veginn. Það á ekki bara við um þau öflugu landbúnaðarhéruð sem liggja næst Eyjafjallajökli heldur getur áhrifanna gætt miklu víðar um landið og gætir þegar í Vestur-Skaftafellssýslu. Það er snúið að búa sig undir jafn mikla óvissu og hér um ræðir en hér eru nokkrir þættir settir á blað til hugleiðingar:
Búast má við öskufalli í Mýrdal og Skaftárhreppi í dag
Veðurstofan hefur birt öskufallsspá fyrir dagana 18., 19., 20 og 21. apríl 2010. Spáin er eftirfarandi:
Sunnudagur: Vestanátt beinir gosmekki yfir Mýrdalsjökul. Búast má við öskufalli í Skaftártungum og Meðallandi og jafnvel austur að Kirkjbæjarklaustri. Einnig má búast við öskufallli í Mýrdal og á Mýrdalssandi. Fremur lágskýjað á Eyjafjallajökli og því takmarkað eða lítið skyggni.
Mikið öskufall undir Eyjafjöllum í dag
Mikið öskufall hefur verið í nótt og dag undir Eyjafjöllum á svæði sem markast af Sauðhúsvelli í vestri og Skógum í austri. Þar hefur verið sem um niðdimma nótt þó annars staðar á landinu hafi verið bjartviðri og sunnanlands hafi gosmökkurinn sést vel og víða að.
Veðurstofa Íslands spáir því að vindur snúist í vestlæga átt í kvöld og nótt og telur að þá megi búast við öskufalli austur af Eyjafjallajökli.
Veðurstofan spáir öskufalli undir Eyjafjöllum á morgun
Veðurstofan hefur birt spá um öskufall fram til mánudags. Samkvæmt spánni er líklegt að á morgun leggi öskuna til suðurs yfir Eyjafjöll og kannski að Vestmannaeyjum. Á sunnudag er líklegast öskufall verði frá A-Eyjafjöllum austur að Mýrdalssandi.
Öskufallsspá Veðurstofunnar fer hér á eftir:
Dýralæknaþjónusta á gossvæðinu verður tryggð
Halldór Runólfsson yfirdýralæknir segir að mikil samvinna sé af hálfu Matvælastofnunar við viðbragðsaðila á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli. „Héraðsdýralæknar og búfjáreftirlitsmenn eru að vinna náið með bændum vegna öskufalls og það er búið að hafa samband við alla dýraeigendur á svæðinu um að taka dýr inn og huga að þeim. Leiðbeiningar okkar hafa verið á vefsíðu stofnunarinnar, mast.is og ég hef líka bent mönnum á forsíðu Bændablaðsins frá 25. mars, þar er góð umfjöllun um þetta allt. Það sem við sögðum varðandi gosið á Fimmvörðuhálsi gildir allt ennþá. Svo hafa hins vegar komið upp auka mál vegna Eyjafjallasvæðisins og Mýrdalsins því að vegurinn við Markarfljót er jú rofinn og Mýrdalssandur á tímabili lokaður þá voru menn dýralæknislausir á svæðinu.“
Bændur skrái og myndi tjón af völdum eldgossins
Vegna eldgossins í Eyjafjallajökli er viðbúið að bændur hafi orðið, og eigi eftir að verða fyrir ýmsu tjóni. Raunar hafa þegar borist fregnir af verulegu tjóni, meðal annars á bænum Önundarhorni þar sem líklegt má telja að ríflega helmingur ræktarlands hafi orðið fyrir miklum skemmdum auk þess sem skurðir eru margir hverjir fullir af eðju. Þá er ljóst að girðingar bænda eru víða skemmdar, vatnsveitur hafa sömuleiðis orðið fyrir skemmdum og þannig mætti áfram telja. Mikilvægt er því að bændur átti sig á hvert, og með hvaða hætti, á að tilkynna tjón, hvernig meta skuli tjón og hvert hægt verður að sækja bætur.
Viðbrögð við afleiðingum gossins á matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boðaði til fundar í ráðuneytinu í dag um möguleg áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á landbúnað og sjávarútveg og viðbrögð við því.
Til fundarins voru boðaðir fulltrúar frá Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnuninni, Veiðimálastofnun, MATÍS, Bændasamtökum Íslands, Búnaðarsambandi Suðurlands, Samtökum fiskvinnslustöðva og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ennfremur komu til fundarins Ágúst Gunnar Ármannson fulltrúi frá Almannavörnum og Ármann Höskuldsson jarðfræðingur frá Háskóla Íslands og fræddu um gosið og horfurnar framundan eftir því sem vitað er.
Mjólkursöfnun hófst undir Eyjafjöllum í morgun
Röskun hefur orðið á mjólkursöfnun undir Eyjafjöllum og þar fyrir austan vegna eldgossins. Í gær voru væntingar um að tækist að koma mjólkurbílum austur yfir Markarfljót til þess að safna en því miður tókst það ekki. Í dag, að morgni föstudagsins 16. apríl, fékkst heimild yfirvalda til þess að fara yfir gömlu brúnna á Markarfljóti og hófst mjólkursöfnun á svæðinu á tíunda tímanum.
Bændur um land allt séu tilbúnir að bregðast við öskufalli
Gosmökkur úr eldgosinu í Eyjafjallajökli með tilheyrandi öskufalli er á leið austur eftir landinu og talsverðs öskufalls hefur orðið vart nú þegar á Kirkjubæjarklaustri og nærsveitum. Búist er við suðvestan-átt í dag og nótt en líkur til að vindur snúist í norðaustan-átt á morgun. Bændur um allt land verða því að vera tilbúnir að bregðast við ef öskufalls gætir á þeirra svæðum. Leiðbeiningar um viðbrögð við eldgosum má finna á síðu Bændasamtakanna, bondi.is og eru bændur allir hvattir til að kynna sér þær grannt.
Viðlagatrygging bætir tjón
Viðlagatrygging bætir tjón af völdum flóða og eldgosa. Bændur sem orðið hafa fyrir tjóni vegna eldgossins í Eyjafjallajökli og flóðanna í Markarfljóti og Svaðbælisá geta því leitað til Viðlagatryggingar.
Viðlagatrygging er lögbundin náttúruhamfaratrygging sem bætir beint tjón á tryggðum eignum af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Viðlagatrygging bætir ekki tjón af völdum annarra náttúruhamfara, t.d. af völdum ofsaveðurs.
Samkvæmt heimasíðu Viðlagatryggingu eru bótaskyldir tjónsatburðir eftirfarandi:
Stórt hlaup í Markarfljóti
Gos hefur verið jafnt og stöðugt í allan dag. Stórt vatnsflóð kom niður Gígjökul kl. 18.30 er að fara niður í byggð. Rauf það varnargarða í Fljótshlíð við Þórólfsfell á leið sinni til sjávar. Svo virðist sem að gamla brúin hafi sloppið en flóðið er farið að sjatna.
Öskufall hefur verið mikið í allan dag og aðallega bundið við svæðið á milli Hjörleifshöfða og Kirkjubæjarklausturs en þar féll aska er leið á daginn. Ekki sást handaskil þegar verst var á Mýrdalssandi og í Álftaveri. Vegurinn á milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur var opnaður þegar leið á daginn og öskufall minnkaði þegar leið á kvöldið. Aska er farin að falla á Höfn á Hornafirði en þar liggur víða þunnt lag af ösku yfir. Veðurspá gerir ráð fyrir að vindur fari í norðanátt og þá má búast við öskufalli undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum þegar líður á morgundaginn.
ESB-aðild þýðir endalok svína- og kjúklingaræktar
Gangi Ísland í Evrópusambandið mun svínarækt og kjúklingarækt leggjast af á Íslandi. Þetta kom fram í máli Jóns Baldurs Lorange, hjá Bændasamtökum Íslands, á fundi um ESB og landbúnaðinn í gærkvöldi. Búnaðarfélag Mýramanna stóð fyrir fundinum.
Bændasamtökin hafa viðað að sér ítarlegum upplýsingum um landbúnað í Evrópusambandinu og hugsanleg áhrif inngöngu Ísland í bandalagið. Jón Baldur sagði að á Ítalíu fengju stærstu búin um 2,5 milljarða í styrki frá Evrópusambandinu á meðan meðalbúið væri að fá um 540 þúsund. Stærstu búin væru fyrirtækjasamsteypur sem væru með umfangsmikinn rekstur.
Innfluttar matvörur hafa hækkað um 62,8% frá ársbyrjun 2007 – íslenskar búvörur um 22,2%
Innfluttar matvörur hafa hækkað í verði um 62,8% frá ársbyrjun 2007 þar til nú. Innlendar búvörur og grænmeti hafa hins vegar einungis hækkað um 22,2% á sama tímabili. Þetta kemur m.a. fram í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Alþingi í dag.
Bankar og kröfuhafar mega ekki ráða framvindu í kúabúskap
Vinna er talsvert á veg komin í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu við breytingar á búvörulögum. Breytingarnar fela í sér að komið verði á fót miðlægum tilboðsmarkaði þar sem öll viðskipti með greiðslumark í mjólk skulu fara fram. Einnig er rætt um að samskonar markaði verði komið upp fyrir viðskipti með greiðslumark í sauðfé. Þá er jafnframt stefnt að því að setja bráðabirgðaákvæði í búvörulög sem takmarki framsal greiðslumarks út úr tilteknum byggðalögum ef um er að ræða greiðslumark sem tilheyri þrotabúum eða búum sem komin eru í greiðslustöðvun. Samkvæmt heimildum Bændablaðsins eiga bráðabirgðaákvæðin að gilda út verðlagsárið 2013.
Mögnuð gosmynd frá Þorvaldseyri
Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri tók þessa mögnuðu mynd af gosmekkinum yfir Eyjafjallajökli í gær.
Lítilsháttar röskun á söfnun mjólkur
Vegna eldgossins í Eyjafjallajökli er viðbúið að mjólkursöfnun raskist. Í gær átti m.a. að sækja mjólk í Mýrdalinn og á Klausturssvæðið. Af því varð ekki en gerðar hafa verið ráðstafanir til að sækja mjólk á þetta svæði í dag, fimmtudaginn 15. apríl. Mjólk verður sótt til bænda undir Eyjafjöllum á morgun, föstudaginn 16. apríl, að venju.
Mjólk sem sfnað var í gær fór til innvigtunar á Egilsstöðum en eins og útlitið er núna mun innvigtun mjólkur fara fram á Selfossi í dag.






