Ástandið ekki eins slæmt og óttast var

Í gær viðraði til þess að meta ástandið á öskufallssvæðinu undir Eyjafjöllum. Öskufallið er langmest á svæðinu frá Steinum austur að Hrútafelli. Að mati sérfræðinga er ástandið ekki eins slæmt og hafði verið talið fyrirfram en engu að síður grafalvarlegt. Ljóst er að á þeim bæjum sem orðið hafa fyrir mesta öskufallinu þarf að grípa til einhverra aðgerða. Ef hins vegar bætist ekki þeim mun meira við öskuna munu rigningar að öllum líkindum skola henni burt og bændur ættu geta slegið tún sín í sumar. Hins vegar þarf að meta aðstæður á hverjum stað og gefa sér tíma til þess.

Syðri gosgígurinn í Eyjafjallajökli er nú orðinn óvirkur og kraftur eldgossins er nú aðeins um tíundi hluti þess sem var á fyrstu dögum þess, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings. Engar markverðar breytingar urðu á framvindu eldgossins og óróa í Eyjafjallajökli í nótt að sögn Veðurstofunnar. Ekkert hefur sést til gosstöðvanna þar sem lágskýjað er yfir jöklinum. Vatn rann úr Gígjökli í nótt en var óverulegt og ekki varð vart við óeðlilegar breytingar í Markarfljóti.


Órói á jarðskjálftamælum jókst um miðjan dag í gær en minnkaði aftur um kl. 22 í gærkvöldi og hefur verið stöðugur síðan. Gosmökkurinn kemur ekki fram á ratsjá og er því um eða undir 3 km á hæð.


Síðustu GPS mælingar nærri Eyjafjallajökli sýndu að landbreytingar þær sem fylgdu gosinu væru að ganga til baka. Engir skjálftar mælast í Kötlu og GPS-mælingar benda ekki til þess að þar sé gos í vændum.


back to top