Bjargráðasjóði verður tryggt fjármagn

Á ríkisstjórnarfundi í morgun var fjallað um gosið í Eyjafjallajökli og afleiðingar þess. Stjórnin ákvað að leggja áherslu á að veita íbúum svæðisins sálgæslu og annan nauðsynlegan stuðning. Einnig er tekið fram í frétt frá ríkisstjórninni að hún muni beita sér fyrir því að Bjargráðasjóði verði tryggt nægilegt fjármagn til að standa undir því að bæta það tjón sem honum er lögum samkvæmt ætlað.
Fréttin af ríkisstjórnarfundinum fer hér á eftir í heild sinni:

Ríkisstjórnin ræddi ítarlega um málefni tengd eldgosinu í Eyjafjallajökli á fundi sínum í morgun. Allur viðbúnaður Almannavarna og stjórnkerfisins hefur reynst vel og allir aðilar eru í viðbraðgsstöðu. Eru þakkir til lögreglu, björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila ítrekaðar. Ríkisstjórnin gerir sér vel grein fyrir þeirri óvissu og óöryggi sem ríkir vegna ástandsins sem gosið hefur valdið, ekki síst hjá íbúum svæðisins og vill gera allt sem í hennar valdi stendur til að sýna þeim samstöðu og stuðning.


Á fundinum gerðu dóms- og mannréttindaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og iðnaðarráðherra sérstaka grein fyrir stöðu mála sem undir þá heyra. Auk þess upplýstu heilbrigðisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, umhverfisráðherra og fjármálaráðherra um viðbúnaði í þeirra ráðuneytum og undirstofnunum.


Ríkisstjórnin leggur áherslu á að upplýsingum sé skipulega komið til íbúa svæðisins, þeim veitt sálgæsla og annar nauðsynlegur stuðningur. Í þessum tilgangi hefur verið komið á fót sérstökum þjónustumiðstöðvum á Heimalandi og í Vík. Sérstökum upplýsingum verður komið á framfæri um tjón sem bætt er af Bjargráðasjóði og Viðlagatrygginu, og þessum aðilum gert kleift að sinna sínu lögbundna hlutverki. Í því sambandi skal sérstaklega tekið fram að ríkisstjórnin mun beita sér fyrir að Bjargráðasjóði sé tryggt nægilegt fjármagn til að standa undir því tjóni, sem honum er lögum samkvæmt ætlað.


back to top