Dregið hefur úr öskufalli og virkni gossins í dag

Dregið hefur úr virkni gossins í Eyjafjallajökli í dag og öskufall minnkað mikið. Á sama tíma hefur flúorinnihald öskunnar aukist vegna þess að nú bráðnar ís í minni mæli og því á sér ekki stað „forþvottur“ á öskunni. Flúormengunin er þó minni en í ösku sem fylgt hefur t.d. Heklugosum.
Veðurstofan spáir öskufalli til norðausturs eða austurs á morgun. Annars hljóðar öskufallsspá næstu daga þannig:

Spá fyrir dagana 20. til 24. apríl 2010


Þriðjudagur: Suðvestan og vestan 5-10 m/s í kvöld og gosmökkurinn liggur til norðausturs eða austurs. Rigning eða slydda með köflum og má búast við hálku á vegum þar sem aska og úrkoma koma saman. Engar líkur á öskufalli suðvestanlands.


Miðvikudagur: Norðvestlæg átt, 3-8 m/s um morguninn og léttir til, en norðaustan 5-8 síðdegis og dálítil él. Vindur í um 3 km hæð er norðvestanstæður. Búast má helst við öskufalli undir Eyjafjöllum, suður og suðaustur af eldstöðinni, en einnig suðvestur af eldstöðinni um kvöldið, jafnvel að Vestmannaeyjum. Óverulegar líkur á öskufalli suðvestanlands.


Fimmtudagur og föstudagur: Austan- og suðaustan 5-10 m/s og rigning eða slydda með köflum. Gosmökkur beinist til vesturs en gosaska berst líklega ekki langt frá eldstöðinni. Bætir í vind seint á föstudag. Mögulega lítilsháttar öskufall suðvestanlands.


Laugardagur: Allhvöss eða hvöss austanátt, rigning með köflum og aska berst til vesturs eða suðvesturs. E.t.v. öskumistur eða öskufjúk suðvestanlands.


back to top