Bændur skrái og myndi tjón af völdum eldgossins

Vegna eldgossins í Eyjafjallajökli er viðbúið að bændur hafi orðið, og eigi eftir að verða fyrir ýmsu tjóni. Raunar hafa þegar borist fregnir af verulegu tjóni, meðal annars á bænum Önundarhorni þar sem líklegt má telja að ríflega helmingur ræktarlands hafi orðið fyrir miklum skemmdum auk þess sem skurðir eru margir hverjir fullir af eðju. Þá er ljóst að girðingar bænda eru víða skemmdar, vatnsveitur hafa sömuleiðis orðið fyrir skemmdum og þannig mætti áfram telja. Mikilvægt er því að bændur átti sig á hvert, og með hvaða hætti, á að tilkynna tjón, hvernig meta skuli tjón og hvert hægt verður að sækja bætur.

Ljóst er að Viðlagatrygging Íslands bætir tjón af völdum eldgosa og vatnsflóða. Það tjón sem Viðlagatrygging bætir er tjón sem verður til að mynda á húseignum og lausafé sem brunatryggt er hjá vátryggingafélögum. Viðlagatrygging bætir ekki tjón á túnum né girðingum sem eldgos og vatnsflóð valda. Þeir sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni af þessum völdum ættu tafarlaust að setja sig í samband við Viðlagatryggingu Íslands eða sitt tryggingafélag og leita eftir upplýsingum þar. Einnig er mikilvægt að skrá og mynda allt tjón sem séð verður að hafi hlotist eftir föngum. Þá er vart þörf á að brýna það fyrir bændum að draga eins og kostur er á úr frekara tjóni og halda skrá um slíkar aðgerðir einnig.


Þá er það hlutverk almennrar deildra Bjargráðasjóðs að bæta tiltekin tjón af völdum náttúruhamfara. Rétt er að taka fram að Bjargráðasjóður bætir ekki tjón sem Viðlagatrygging Íslands bætir né þau tjón sem hægt er að kaupa almenna vátryggingu gegn. Dæmi um tjón sem sjóðurinn gæti bætt eru tjón á gjaldskyldum fasteignum samkvæmt skilgreiningu laga um tekjustofna sveitarfélaga, á girðingum, túnum og rafmagnslínum er tengjast landbúnaði og á heyi sem notað er við landbúnaðarframleiðslu. Rétt eins og varðandi tjón sem tilkynnt eru til Viðlagatryggingar, er mikilvægt  að bændur skrái og myndi það eins ítarlega og kostur er á. Rétt er jafnframt að hafa samband við héraðsráðunauta til að skrá og staðfesta umfang og eðli tjóna.


Ekki er ljóst hvort tjón á búfé, vegna t.a.m. eitrunaráhrifa úti við verður bætt en nokkuð ljóst er að tjón á búfé innandyra eða vegna flóða er bótaskylt.


Bændur eru hvattir til að vera vel vakandi yfir tjóni sem þeir hafa, og gætu, orðið fyrir. Ef nánari leiðbeininga er þörf er hægt að hafa samband við lögfræðing Bændasamtaka Íslands, Elías Blöndal Guðjónsson, með tölvupósti í netfangið elias@bondi.is eða í síma 563-0300 og mun hann veitast við að aðstoða bændur eftir föngum.


back to top