Síðsumarsýning á Gaddstaðaflötum
Nú liggja fyrir skráningar til síðsumarsýningar á Gaddstaðaflötum. Dæmt verður dagana 20.-23. ágúst (mán.-fim./tvær dómnefndir að störfum) og yfirlitssýning 24.-25. (fös.-lau.).
Skil á vorupplýsingum fyrir 20. ágúst 2012
Bændur sem eru í skýrsluhaldi og þeir sem eru að byrja í skýrsluhaldi eru hvattir til að skila vorupplýsingum til Bændasamtaka Íslands fyrir 20. ágúst n.k. Það er mikið vinnuhagræði af því bæði fyrir bóndann og einnig búnaðarsambönd.
• Bóndinn fær til baka LAMBABÓK þar sem lömbin eru í númeraröð. Í lambabókina er hægt að skrá allar haustupplýsingar og jafnframt eru upplýsingar um ætterni lambanna, lit og fæðingardag. Einnig fá öll lömb ætterniseinkunn, bæði hvað varðar frjósemi og afurðasemi.
Norðlenska greiðir bændum 3,6% hærra verð fyrir lambakjöt en SS
Landssamtök sauðfjárbænda hafa eins og undanfarin reiknað vegið meðalverð á kindakjöti hjá einstökum afurðastöðvum eftir því sem verðskrár hafa birtst. Núna hafa einungis SS og Norðlenska birt verðskrár. Meðalverðið miðast við kjötmat og sláturmagn í vikum 34-45 eins og það var á landinu öllu árið 2011 og innifelur þær álagsgreiðslur sem fyrirtækin bjóða á þessu tímabili.
Í fyrra var meðalverð á lambakjöti til bænda 502 kr/kg og meðalverð fyrir annað kindakjöt var 249 kr. Vegið meðalverð á öllu kjöti var skv. því 476 kr/kg. Þetta verð innifelur uppbætur sem greiddar voru fyrr á þessu ári.
Styrkir vegna gras-, grænfóður- og kornræktar
Líkt og undanfarin ár verða greiddir styrkir vegna gras- grænfóður- og kornræktar og koma þeir fjármunir úr mjólkur – sauðfjár- og búnaðarlagasamningum. Þeir sem vilja sækja um styrki þurfa að gera það fyrir 10. september n.k. Reglur og umsóknareyðublað er að finna hérna á vefnum en einnig er hægt að sækja um með rafrænum hætti á Bændatorginu.
Norðlenska og SS hafa birt verðskrár sauðfjárafurða
Norðlenska og SS hafa gefið út ákvörðun um verðlagningu sauðfjárafurða fyrir komandi sláturtíð. Hjá Norðlenska hækkar verð um 6,3% á lömbum en verð fyrir fullorðið breytist ekkert frá fyrra ári. Álagsgreiðslur verða með sama hætti og áður. Í tilkynningu frá Norðlenska segir að félagið áskilji sér rétt til að endurskoða verðskrána ef tilefni verður til.
Sláturfélag Suðurlands hækkar grunnverðskrá sína um 3% frá fyrra ári og bæta sláturviku við í nóvember með 10% álagi. SS hækkar ekki greiðslur fyrir kjöt af fullorðnu fé. Í útskýringum SS á verðskránni segir að nú gæti sölutregðu á erlendum mörkuðum og aðstæður á innanlandsmarkaði leyfi ekki mikla verðhækkun. Hjá SS segir þó að til lengri tíma litið sé vaxandi eftirspurn eftir kjöti erlendis og sérstaða og gæði íslenska lambakjötsins gefi ástæðu til bjartsýni í framtíðinni.
Síðsumarsýning kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum
Síðsumarsýning kynbótahrossa verður á Gaddstaðaflötum við Hellu dagana 13. til 24. ágúst. Ef ekki mætir sá fjöldi sem reiknað er með verður dögum fækkað. Tekið verður við skráningum 7. og 8. ágúst í síma 480-1800. Einnig er hægt að skrá hross til sýningar á heimasíðu Búnaðarsambandsins, www.bssl.is, þegar hefur verið opnað á skráningu þar.
Sumarlokun
Skrifstofur Búnaðarsambands Suðurlands verða lokaðar vegna sumarleyfa frá og með 9. júlí n.k. til og með 27. júlí n.k.
Ef mikið liggur við, t.d. vantar skráningu á gripum sem eru að fara í sláturhús, má hafa samband í síma 692 3316.
SS selur 30% hlut sinn í Ísfugli
Sláturfélag Suðurlands svf. hefur samþykkt kauptilboð í 30% eignarhlut sinn í Ísfugli ehf. Tilboðið er með fyrirvara um fjármögnun viðskiptabanka tilboðsgjafa og samþykki forkaupsréttarhafa.
Fyrri slætti lokið á Stóra Ármóti
Sláttur hófst á Stóra Ármóti 14. júní og má segja að fyrri slætti hafi lokið 19. júní. Hey voru með ágætum þó var uppskera mjög breytileg og hafði ásókn álfta og gæsa þar mest áhrif. 48 ha voru slegnir og af þeim fengust 662 rúllur, sem skiptast í um 475 rúllur með um 35% þ.e. ætlaðar í heilfóðrun mjólkurkúa og 190 rúllur með ca. 65% þ.e. ætlaðar í geldkýr og geldneyti. Það tún sem gaf mesta uppskeru var Skálholt, nýrækt frá því í fyrra með vallarfoxgrasi og hávingli, með 22 rúllur á ha. eða tæp 6 tonn af þurrefni.
Tjón af völdum álfta og gæsa
Síðasta haust var útbúið eyðublað á bondi.is, þar sem bændur gátu skráð það tjón sem þeir urðu fyrir af völdum álfta og gæsa árið 2011. Þetta blað hefur nú verið uppfært og verður óskað eftir því að bændur sem verða fyrir tjóni á þessu ári sendi útfyllt eyðublað til Bændasamtakanna næsta haust. Þá getur verið skynsamlegt að óska eftir aðstoð ráðunautar við tjónsmatið.
Fóðurblandan hækkar verð á fóðri um 4-9%
Þriðjudaginn 26. júní 2012 hækkaði allt tilbúið fóður hjá Fóðurblöndunni hf. um 4%-9%, misjafnt eftir tegundum.
Að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu er ástæða hækkunarinnar hækkun á sojamjöli og fiskimjöli á erlendum hráefnamörkuðum.
Í dagsins önn endurútgefin
Í dagsins önn, heimildarmynd um forna búskaparhætti hefur nú verið endurútgefin með íslensku og ensku tali. Hljóðblöndun var bætt og íslensk alþýðutónlist sett undir. Þulir eru Dr. Haraldur Matthíasson á Laugarvatni og Þórður Tómasson í Skógum á íslenskum texta og Neil Marteinn McMahon á enskum texta. Ensk þýðing var í höndum Matthiasar Kristiansen. Tónlistarflutning annaðist Atli Sævar Guðmundsson og Dóra Gígja Þórhallsdóttir.
Afurðastöðvaverð mjólkur hækkar um 3,6% þann 1. júlí n.k.
Verðlagsnefnd búvara hefur ákveðið að heildsöluverð á mjólk og mjólkurvörum, sem nefndin ákveður, hækki 1. júlí n.k. um 4%. Frá sama tíma hækkar afurðastöðvaverð til bænda um 2,80 krónur á lítra mjólkur, það er úr 77,63 krónum í 80,43 krónur, eða 3,6%. Þá hækkaði vinnslu- dreifingarkostnaður mjólkur um tæp 4,4%.
Frá fundi Félagsráðs FKS 11. júní s.l.
Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi fundaði þann 11. júní s.l. Meðal mála sem voru til umræðu á fundinum var kynning á stöðunni í endurskipulagningu ráðgjafaþjónustunnar. Guðbjörg Jónsdóttir, formaður BSSL, sagði frá stöðu málsins og kom m.a. fram að verkefnisstjóri, Ágúst Þorbjörnsson, er búinn að ræða við alla starfsmenn ráðgjafaþjónustunnar og stjórnarmenn búnaðarsambandanna.
Þráinn Bjarndal Jónsson lætur af störfum sem frjótæknir
Þráinn Bjarndal Jónsson, bóndi og frjótæknir í Miklaholti, lætur af störfum sem fastráðinn frjótæknir í dag, 19. júní 2012. Hann hóf störf við kúasæðingar 20. ágúst 1974 og hefur hann því starfað í nærri 38 ár við Kynbótastöð Suðurlands. Það lætur nærri að hann hafi sætt eitthvað yfir 100 þúsund kýr ásamt fjölda fangskoðana.
Verklagsreglur vegna stuðnings við nýliðun í mjólkurframleiðslu
Verklagsreglur Bændasamtaka Íslands vegna stuðnings við nýliðun í mjólkurframleiðslu hafa nú verið staðfestar af ráðherra og birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Verklagsreglurnar fjalla um stuðning við nýliðun í mjólkurframleiðslu af lið 6.4 „Óframleiðslu-tengdar og/eða minna markaðstruflandi greiðslur“ í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 10. maí 2004. Kveðið er á um árlega heildarupphæð þessara fjármuna í „Reglugerð um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda“ eins og hún birtist hverju sinni.
Samkvæmt reglunum geta einstaklingar eða lögaðilar sótt um framlög að fjárhæð allt að 5 milljónir króna við upphaf búskapar.
Heiðursfélagar og heiðursfararstjórar
Þrátt fyrir að Þjónustuhús Byggðasafns Árnesinga á Eyrarbakka hafi einungis það hlutverk að hýsa innra starf safnsins, skrifstofu, vinnuaðstöðu og aðalgeymslur, kemur einstaka sinnum fyrir að góða gesti ber að garði. Það eru átta ár liðin síðan fimm heiðursmenn komu í heimsókn og áttu gott spjall við undirritaðan safnstjórann. Í lok heimsóknarinnar var þessi fína ljósmynd tekin. Mennirnir á ljósmyndinni eru allir látnir.
Þetta var þann 23. apríl 2004. Í gestabókinni stendur með rithönd fararstjórans Páls Lýðssonar: „Heiðursfélagar Búnaðarsambands Suðurlands með heiðursfararstjórum“. Undir þennan haus skrifa Hjalti Gestsson frá Hæli (1916-2009), Sveinn Skúlason í Bræðratungu (1927-2007), Helgi Ívarsson frá Hólum (1929-2009) og síðast en ekki síst Sigurður Hannesson á Villingavatni sem fæddur var 1926 en var jarðsunginn í dag 15. júní 2012. Páll Lýðsson (1936-2008) lét sér nægja að skrifa hausinn enda tíður gestur á skrifstofu sonar síns.
Lífland hækkar kjarnfóðurverð um 6-9%
Lífland hefur sent frá sér tilkynningu um hækkun á kjarnfóðri frá og með mánuddeginum 18. júní n.k. Hækkunin er á bilinu 6-9%, mismunandi eftir tegundum. Fram kemur í tilkynningunni að á síðustu mánuðum hafi verð á helstu aðföngum til fóðurgerðar hækkað verulega. Mest hafi hækkunin orðið á sojamjöli vegna uppskerubrests í S-Ameríku, en einnig hafi korn hækkað talsvert í verði í N-Evrópu. Lífland segir í tilkynningunni að fyrirtækið hafi í fjölmiðlum ítrekað vakið athygli á þessum hækkunum og áhrifum þeirra á verð fóðurs.
Verðlaunahross á Suðurlandi
Ekki tókst að afhenda öll verðlaun á yfirlitssýningunum á Selfossi og Gaddstaðaflötum. Efstu átta hryssur og efstu fimm stóðhestar í hverjum flokki voru verðlaunuð, hér fyrir neðan má sjá lista með þessum hrossum. Eigendur þessara hrossa eru hvattir til að sækja verðlaunin á skrifstofu Búnaðarsambands Suðurlands að Austurvegi 1 á Selfossi (erum staðsett í sama húsi og Krónan, inngangurinn er næst Ölfusárbrú, erum á 2. hæð). Innilega til hamingju með þessa gæðinga!
Sláturhúsið Hellu hækkar verð á nautgripakjöti til bænda um 2-3%
Sláturhúsið Hellu hefur hækkað verð á nautgripakjöti til bænda og fylgir þar með í kjölfar Sláturfélags Suðurlands sem hækkaði verðið frá og með 10. júní s.l. Hækkun Sláturhússins Hellu gildir frá sama tíma, þ.e. 10. júní s.l. Hækkunin er að meðaltali um 3% á ungnautakjöt, um 2% á kýrkjöt, en verð fyrir kálfakjöt er óbreytt. Sláturlaun hækka á sama tíma í kr. 100.