Heiðar á Norðausturlandi smalaðar í dag

Umfangsmikil leit verður gerð af sauðfé a heiðum á Norðausturlandi í dag en Ríkislögreglustjóri lýsti í gær yfir neyðarstigi almannavarna vegna afleiðinga óveðursins á Norðausturlandi síðasta sólarhring, að ósk lögreglustjórans á Húsavík, sem stjórnar aðgerðum í héraði. Talið er að bjarga þurfi um 12.000 fjár sem eru nærri byggð eða á heiðum á Norðausturlandi.

Í tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra segir að verið sé að meta stöðuna og skipuleggja frekari aðgerðir á svæðinu. Vegagerðin vinnur að opnun vega þannig að hægt verði að smala heiðar á Norðausturlandi og verið er að útvega tæki til notkunar við björgunarstörf s.s. snjósleða, snjóbíla ásamt fylgibúnaði sem hentar til fjárflutninga. Allir tiltækir björgunarsveitarmenn úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslum unnu hörðum höndum með bændum við björgunarstörf í gær eða aðstoðuðu Landsnet og RARIK í tengslum við viðgerðir á línum.


Enn er rafmagnsskortur á svæðinu en varaaflstöðvar eru keyrðar á Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn. Þar sem keyrt er varaafl er rafmagn skammtað. Mestar skemmdir hafa orðið á Kópaskerslínu Landsnets og áhersla lögð á að lagfæra hana. Talið er að tveir til þrír sólarhringar geti liðið þar til viðgerð lýkur. Einnig eru skemmdir á öðrum línum en þær verða lagfærðar síðar.


Veðurstofan spáir Norðvestan 15 – 23 m/s næsta sólarhring, og verður hvassast á Austfjörðum. Skúrir eða slydduél NA lands.


back to top