Ekki búið að farga fénu í Brautarholti
Ekki er byrjað að farga sauðfé á bænum Brautarholti í Hrútafirði, þar sem riðuveikismit af afbrigðinu NOR98 greindist í mánaðarbyrjun. Að sögn Ásgeirs Sverrissonar, bónda í Brautarholti, stendur hann nú í viðræðum við Matvælastofnun um samning um förgun fjárins. „Þau mál eru bara á byrjunarstigi en ganga ágætlega,“ segir Ásgeir, sem býst ekki við því að gengið verði til verksins fyrr en í síðari hluta þessa mánaðar.
Vefur BSSL varð fyrir árás frægs vefhakkara
Því miður varð vefur Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árás frægs vefhakkara fyrir helgina. Við það duttu út nokkrar fréttir sem settar voru inn dagana 4., 5. og 6. júní. Tæknimenn Aicon, sem hýsir vefinn, brugðust skjótt við og er nokkuð ljóst að vefurinn er ekki lengur árásarhæfur þar sem búið er að koma í veg fyrir að slíkar árásir geti átt sér stað, þó ekki sé til neitt sem heitir 100% öryggi.
Riða í Hrútafirði
Í síðustu viku var staðfest af Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum að riða hefði greinst í einu sýni frá kind sem drapst á bæ í Hrútafirði í Vestur-Húnavatnssýslu. Á bænum eru um 300 vetrarfóðraðar kindur og óskaði bóndinn eftir að héraðsdýralæknir kæmi og rannsakaði kindina. Riða hefur ekki greinst áður í þessu varnarhólfi. Keldur hafa ennfremur staðfest að hér var um svokallað NOR 98 afbrigði af riðu að ræða – en slík tilfelli hafa komið upp áður hér á landi.
Sláttur hafinn í Landeyjum
Sláttur er hafinn í Landeyjum, nánar tiltekið á Voðmúlastöðum í Austur-Landeyjum hjá Hlyni S. Theodórssyni og Guðlaugu B. Guðlaugsdóttur. Slegnir voru 14 hektarar sem borið var á snemma í vor. Þetta er með alfyrsta móti sem sláttur hefst á Suðurlandi en ekki met. Í því sambandi má nefna að sláttur hófst 28. maí árið 2003, 2. júní 2004, 4. júní 2005, 13. júní 2006 og 8. júní í fyrra.
Ísbjörn á Þverárfjallsvegi
Þórarinn Leifsson bóndi í Keldudal í Skagafirði var á ferð um Þverárfjallsveg, milli Sauðárkróks og Skagastrandar í morgun þegar hann sá sér til furðu ísbjörn vera að spóka sig um 100 metra frá veginum. Þórarinn telur að þetta sé fullvaxið dýr sem þar sé á ferð sem rölti í rólegheitum meðfram veginum á fjallinu.
Skortur á skyri vegna skjálftanna
Búast má við vöruskorti fram eftir vikunni vegna skemmda á búnaði í starfsstöð MS á Selfossi í jarðskjálftunum á fimmtudag. Starfsemin á Selfossi verður rekin með takmörkuðum afköstum fram eftir vikunni eða þar til viðgerðir hafa farið fram.
Mat á tjóni unnið hratt
Strax eftir jarðskjálftann hóf Viðlagatrygging Íslands að skipuleggja viðbrögð. Haft var samband við tjónadeildir vátryggingafélaganna og munu þær annast mat og uppgjör innbústjóna og munu matsmenn vátryggingafélaganna bregðast hratt við. Var þetta kynnt af viðskiptaráðherra á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Hundruðir eftirskjálfta eftir stóra skjálftann í gær
Í nótt hafa verið stöðugir eftirskjálftar eftir stóra skjálftann í Ölfusi í gær, og hundruð skjálfta mælst. Stærstu skjálftarnir eftir miðnætti eru 3 – 3,5 stig, en aðeins fáir hafa farið yfir 3 stig.
Eðlilega virðist draga úr hrinunni samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Veðurstofan telur að öllum líkindum sé ekki hætta á öðrum skjálfta í Ölfusi af svipaðri stærð og varð í gær.
Jarðskjálfti á Suðurlandi
Eins og alþjóð veit reið Suðurlandsskjálfti yfir í gær. Upptök skjálftans voru undir Ingólfsfjalli mitt á milli Selfoss og Hveragerðis. Mikið eignatjón hefur orðið í skjálftanum a.m.k. hvað næst upptökunum en sem betur fer engin teljandi slys á fólki svo vitað sé.
Bændasamtökin og Starfsgreinasambandið undirrita nýjan kjarasamning
Í dag náðist samkomulag um nýjan samning um kaup og kjör starfsmanna sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum var undirritaður í morgun. Gildir hann frá 1. maí sl. til loka nóvember 2010. Ýmis nýmæli eru í þessum samningi, svo sem að starfsmönnum eru nú tryggðar starfsldurshækkanir, auk þess sem ný ákvæði eru um aðbúnað og vinnuvernd. Þá fá landbúnaðarverkamenn aðgang að fræðslusjóðum atvinnulífsins.
Forstjóri Auðhumlu lætur af störfum
Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri Auðhumlu svf. lætur að eigin ósk af störfum hjá félaginu, þann 1. júní næstkomandi, eftir ríflega þriggja ára starf hjá því og fyrirrennurum þess. Guðbrandur mun frá sama tíma taka við framkvæmdastjórastarfi hjá Nýlandi ehf. sem er í meirihlutaeigu hans. Það félag mun taka að sér sölu og markaðsfærslu íslenskra mjólkurafurða erlendis fyrir Mjólkursamsöluna auk þess að sinna ýmsum öðrum verkefnum.
Stórauknar lánveitingar til landbúnaðar
Á ársfundi Byggðastofnunar sem fram fór s.l. föstudag kom fram að meginbreyting hefur orðið á útlánastarfsemi Byggðastofnunar og lánveitingar í landbúnaði hafa aukist mjög, enda lánar stofnunin nú til hefðbundins landbúnaðar sem ekki var gert áður fyrr. Fjöldi umsókna frá bændum hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum mánuðum og mest vegna kaupa á mjólkurkvóta og stækkunar á fjósum og öðrum búnaði þeim tengdum.
Nýr fáni Félags skógarbænda á Suðurlandi
Agnes Geirdal, formaður Félags skógarbænda á Suðurladi, afhenti fyrir stuttu Landsamtökum skógareigenda og öðrum skógarbændafélögum nýjan fána félagsins en Félag skógarbænda hafði staðið fyrir samkeppni varðandi merki félagsins.
Fótabúnaður erfist ekki
Þessa dagana mæðir mikið kynbótadómurum hrossa því nú stendur yfir nokkurra vikna þrotlaus törn við að dæma kynbótahross á þessu landsmótsári. Af því tilefni tók Þuríður Magnúsína Björnsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu ágætt viðtal við Guðlaug Antonsson, landsráðunaut í hrossarækt sem m.a. nefnir í viðtalinu að hann viljil helst ekki beinasleggju í keppnisbrautina. Viðtalið við Guðlaug fer hér á eftir:
Ísland – fyrirmyndarlandið?
Jarle Reiersen, framleiðslustjóri Reykjagarðs og fyrrverandi dýralæknir alifuglasjúkdóma skrifar áhugaverða grein í Morgunblaðið í dag sem ber titilinn; „Ísland – fyrirmyndarlandið?“. Í greininni fjallar Jarle um nýja matvælalöggjöf sem liggur fyrir Alþingi og sína sýn á hana. Greinin fer hér á eftir:
Auglýst á ný eftir´umsóknum um nýliðunarstyrki
Ákveðið hefur verið að auglýsa á ný eftir umsóknum um nýliðunarstyrki í sauðfjárrækt skv. gildandi sauðfjársamningi. Auglýst var fyrr á þessu ári og bárust þá 23 umsóknir sem er minna en búist var við. Yfirferð þeirra er nú lokið og ætti umsækjendum að berast tilkynning frá Bændasamtökunum um niðurstöðu nú á næstu dögum.
Í ljósi fjölda umsókna samþykkti stjórn Bændasamtakanna á fundi sínum 30. apríl sl. að leita eftir heimild sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins til að auglýsa á ný eftir umsóknum. Ráðuneytið hefur nú fallist á það. Sú breyting var gerð að hægt er að sækja um styrk vegna bústofnskaupa sem fóru fram frá og með 1. janúar 2007 og síðar, en í fyrri úthlutun var skilyrði að kaupin hefðu átt sér stað 1. október 2007 eða síðar. Að öðru leyti eru reglurnar óbreyttar.
Engar sérreglur um erfðabreytt matvæli á Íslandi
Engar sérreglur gilda á Íslandi um innflutning erfðabreyttra matvæla. Þau finnast nú víða um heim og telja margir að plöntuerfðatækni verði lykilatriði í að brauðfæða fjölgandi mannkyn á ört rýrnandi ræktunarlandi. Byrjað er að rækta erfðabreytt bygg hérlendis, þó eingöngu til sérvirkrar prótínframleiðslu í lyf, lyfjaþróun og til iðnaðarnota. Kynbætur hafa verið stundaðar allar aldir með blöndun skyldra tegunda. Erfðabætur byggjast hins vegar á líftækni, þar sem erfðamengi lífvera er breytt til að styrkja eftirsóknarverða eiginleika. Oft er það gert með því að blanda saman jurta- og dýraríki.
Greinargerð sem útskýrir afstöðu BÍ
Bændasamtökin sendu í vikunni frá sér svar til nefndasviðs Alþingis vegna beiðnar um umsögn vegna frumvarps um breytingar á matvælalögum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum telja Bændasamtökin að ekki sé unnt að gefa umsögn um frumvarp innan tilskilins frests, þar sem margt varðandi frumvarpið, aðdraganda þess og framkvæmd er óljóst og umsagnarfrestur afar skammur.
Er lífrænn landbúnaður valkostur á Íslandi?
Föstudaginn 16. maí verður efnt til málþings um lífrænan landbúnað í Norræna húsinu. Á fundinum verður fjallað um hvort lífrænn landbúnaður sé valkostur á Íslandi. Fundurinn hefst kl. 12:45 og stendur til kl. 17:00. Dr. Áslaug Helgadóttir, aðstoðarrektor rannsóknamála, Landbúnaðarháskóla Íslands setur fundinn og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpar fundarmenn. Fundarstjóri verður Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.
Bændur uggandi
Væntanleg matvælalöggjöf gæti leitt til þess að innlendri framleiðslu verði ýtt til hliðar á smásölumarkaðnum, að mati þeirra sem hagsmuna eiga að gæta í landbúnaði. Takmörkuð samkeppni á smásölumarkaði þar sem tveir stórir aðilar ráða ferðinni er helsta áhyggjuefni þeirra.
Með matvælalöggjöfinni, sem mun gera að verkum að Ísland verður hluti af innra markaði Evrópska efnahagssvæðisins með búfjárafurðir, kjötvörur, mjólkurvörur og egg, verður talsverð breyting á skilyrðum íslensks landbúnaðar. Til stendur að löggjöfin verði samþykkt í þessum mánuði og taki gildi 1. júlí og verði að fullu komin til framkvæmda 18 mánuðum síðar.