Landbúnaðarsýningin á Hellu 22.-24. ágúst

Í tilefni af 100 ára afmæli Búnaðarsambands Suðurlands 2008 verður haldin landbúnaðarsýning á Gaddstaðaflötum við Hellu dagana 22.-24. ágúst næstkomandi. Sýningin á Hellu verður ein sú stærsta sinnar tegundar sem haldin hefur verið hérlendis um árabil. Landbúnaðarsýningin verður þróunar- og tæknisýning jafnframt því sem hún kynnir hlutverk og stöðu íslensks landbúnaðar í þjóðfélaginu. Markmið sýningarinnar er að kynna fjölbreytni íslensks landbúnaðar, hátt tæknistig og þá miklu þekkingu sem er að finna innan greinarinnar.

Sýningin verður fjölbreytt og viðamikil; hvort tveggja í senn metnaðarfull fagsýning fyrir landbúnaðinn og tengdar greinar og neytendasýning fyrir almenning. Þar verða sýnd tæki og vélar, afurðir og búfé auk þess sem kynntar verða vörur og þjónusta sem tengjast landbúnaðinum. Fjölmörg búgreinafélög taka þátt í sýningunni, þjónustuaðilar landbúnaðarins,
seljendur rekstrarvara, skólar og stofnanir.

Vönduð og fjölbreytt skemmtidagskrá verður í boði alla sýningardagana og má þar nefna að hin árlegu Töðugjöld á Hellu verða hluti af dagskrá sýningarinnar, sem nú er óðum að taka á sig mynd. Lögð verður áhersla á skemmtilega dagskrá fyrir börnin og þeim gefinn kostur á að komast í snertingu við sveitalífið í starfi og leik. Þannig geta þau t.d. brugðið sér á hestbak, veitt silung í tjörn, klappað dýrunum, spreytt sig á gömlu góðu útileikjunum og tekið þátt í listasmiðju.
Af nógu verður einnig að taka fyrir fullorðna fólkið, sem getur bragðað á gómsætum íslenskum landbúnaðarafurðum, skoðað landnámshænur, fylgst með rúningi, ullarvinnslu, smalahundasýningu, gangtegundasýningu, kúasýningu og kynbótadómum – og kynnt sér nýjustu tækin og tólin, kornrækt, svínarækt, loðdýrarækt, sauðfjárrækt, garðyrkju, blómaskreytingar, landgræðslu, lífræna ræktun og íslenska búfjárliti, svo nokkur dæmi séu nefnd. Fyrir þá keppnisglöðu má svo benda á dráttarvélaleikni, hrútaþukl, jurtagreiningu, töltkeppni og sveitafitness.

Kvöldvökur með fjölbreyttum skemmtiatriðum verða á dagskrá eftir að sýningu lýkur á föstudags- og laugardagskvöldinu. Meðal þeirra sem koma fram eru Álftagerðisbræður, Hundur í óskilum, söngvararnir Gísli Stefánsson og Maríanna Másdóttir, Ingó og Veðurguðirnir, að ógleymdum þeim Guðna Ágústssyni alþingismanni og Gísla Einarssyni fréttamanni. Helgarbíltúr á Landbúnaðarsýninguna á Hellu ætti því að öllu samanlögðu að vera skemmtilegur valkostur fyrir alla fjölskylduna.

Sala sýningarsvæðis hefur gengið vel en þó er enn ekki orðið of seint fyrir sýnendur að skrá sig til leiks.


Samstarfsaðilar Landbúnaðarsýningarinnar á Hellu 2008 eru Mjólkursamsalan, Kaupþing, Sláturfélag Suðurlands, Bændasamtökin og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.


Nánari upplýsingar veitir:
Jóhannes Hr. Símonarson, framkvæmdastjóri Landbúnaðarsýningarinnar á Hellu 2008, í síma 480 1809 eða farsíma 898 3109.


back to top