Landbúnaðarsýningin á Hellu

Dagskrá Landbúnaðarsýningarinnar er nú sem óðast að taka á sig mynd. Vönduð og fjölbreytt skemmtidagskrá verður í boði alla sýningardagana og verða hin árlegu Töðugjöld á Hellu hluti af dagskrá sýningarinnar.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, setur sýninguna föstudaginn 22. ágúst kl. 13 að viðstöddum boðsgestum. Kl. 14 verður sýningarsvæðið svo opnað almenningi. Laugardag og sunnudag hefst sýningin kl. 10 og stendur hún alla dagana til kl. 20.

Börnin geta brugðið sér á hestbak, veitt silung í tjörn, klappað dýrunum, tekið þátt í listasmiðju og spreytt sig á gömlu góðu útileikjunum. Af nógu verður einnig að taka fyrir fullorðna fólkið, sem getur bragðað á gómsætum íslenskum landbúnaðarafurðum, skoðað landnámshænur, fylgst með rúningi, ullarvinnslu, smalahundasýningu, gangtegundasýningu, kúasýningu og  kynbótadómum – og kynnt sér nýjustu tækin og tólin, kornrækt, svínarækt, loðdýrarækt, sauðfjárrækt, garðyrkju, blómaskreytingar, landgræðslu, lífræna ræktun og íslenska búfjárliti, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Fyrir þá keppnisglöðu má svo benda á dráttarvélaleikni, hrútaþukl, jurtagreiningu, töltkeppni og sveitafitness.


Kvöldvökur með fjölbreyttum skemmtiatriðum verða á dagskrá eftir að sýningu lýkur föstudags- og laugardagskvöld kl. 20-22. Meðal þeirra sem koma fram eru Álftagerðisbræður, hljómsveitin Hundur í óskilum, söngvararnir Gísli Stefánsson og Maríanna Másdóttir, Ingó og Veðurguðirnir, að ógleymdum þeim Guðna Ágústssyni alþingismanni og Gísla Einarssyni fréttamanni.


Nánar um dagskrána hér…


back to top