Sáðmaðurinn: Ný námskeiðsröð við Endurmenntun LbhÍ

Við minnum á að opið er fyrir skráningar en styttast fer í umsóknarfrestinn þar sem áætlað er að byrja dagana 14.-15. janúar!
Sáðmaðurinn er yfirskrift öflugs jarðræktarnáms sem ætlað er fróðleiksfúsu jarðræktarfólki, bændum, verktökum og þjónustuaðilum, sem vilja ná enn betri árangri í jarðrækt og fóðuröflun.

Námskeiðaröðin dreifist yfir einn og hálfan vetur. Byrjar í janúar og endar með útskriftarhátíð á vormánuðum 2012. Að jafnaði eru tvö námskeið fyrir áramót og þrjú eftir áramót, auk verkefnavinnu. Hvert námskeið er metið til 1 Fein. Samskipti nemenda og kennara á milli námskeiða fara fram um fjarnámsvef skólans, skoli.is. Fyrsta námskeiðaröðin hefst vorið 2011. Hámarksfjöldi þátttakenda á námskeiðaröðinni er 22.

Árið 2010 var hægviðrasamt, þurrt og snjólétt

Veðurfar var óvenjulegt árið 2010, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Í þeim landshlutum var það eitt hið hlýjasta sem vitað er um, jafnframt eitt hið þurrasta og snjóléttasta. Ársmeðalloftþrýstingur hefur aldrei mælst jafnhár og nú auk þess sem árið var einnig óvenju hægviðrasamt. Þetta kemur fram í yfirliti frá Veðurstofu Íslands um tíðarfar nýliðins árs.

Lungnapest í sauðfé í Mýrdal

Staðfest hefur verið að lungnapest hefur komið upp í sauðfé í Mýrdalnum í fyrsta sinn. Einar Þorsteinsson á Sólheimahjáleigu er reiður Matvælastofnun vegna breytinga á sauðfjárveikivarnarlínum. Þetta kemur fram á vef Sunnlenska, www.sunnlenska.is. Þetta er í fyrsta skipti sem veikin kemur upp í V-Skaftafellssýslu. Dýralæknir staðfesti á gamlársdag að ær sem drapst á bænum Sólheimahjáleigu í Mýrdal hafi verið með lungnapest. Einar Þorsteinsson, bóndi á Sólheimahjáleigu og fv. ráðunautur, segir að fimm aðrar kindur hafi drepist í haust með svipuð einkenni og ærin sem var krufin.

Efnainnihald áburðar nánast alltaf í samræmi við uppgefin gildi

Matvælastofnun hefur birt á heimasíðu sinni skýrslu um niðurstöður áburðareftirlits ársins 2010. Í skýrslunni má finna niðurstöður efnagreininga áburðarsýna sem tekin voru á árinu, einnig athugasemdir vegna merkinga áburðarins. Þá eru í skýrslunni upplýsingar um áburðartegundir sem voru fluttar inn eða framleiddar á landinu á árinu.
Yfirleitt virðist sá áburður sem fluttur er til landsins standast þær kröfur sem gerðar eru og efnainnihald vera í samræmi við uppgefin gildi. Frá þessu eru örfáar undantekningar og flestar athugsemdir sem gerðar voru lúta að ófullnægjandi merkingum áburðarins.

SS í fjárhagslega endurskipulagningu

Sláturfélag Suðurlands sendi frá sér tilkynningu milli jóla og nýárs þess efnis að vinna við fjárhagslega endurskipulagningu hæfist nú í janúar og áætlað væri að henni lyki eigi síðar en 30. júní 2011.
Endurskipulagningin er unnin í samstarfi við Arion banka hf., sem er aðallánveitandi félagsins, og stefnt er að því að lán við Arion banka verði endurfjármögnuð og aðlagaðar betur að greiðslugetu félagsins til lengri tíma. Fram kemur í tilkynningunni að öll lán og skuldir við lánadrottna eru í skilum. Endurskipulagningin á ekki að hafa nein áhrif á skuldir við lánadrottna og snýr eingöngu að endurfjármögnun lána við Arion banka.

Heimild til niðurfærslu keypts greiðslumarks fellur úr gildi um áramót

Á Alþingi voru samþykkt lög um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld þann 18. desember sl. og þar með talin breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með þeirri breytingu var felld niður heimild til að færa niður stofnkostnað við kaup á framleiðslurétti í landbúnaði. Mun breytingin gilda frá áramótum 2010/2011 þannig að greiðslumark sem keypt er eftir 1. janúar 2011 verður ekki heimilt að færa niður við kaup. Þrátt fyrir breytinguna var sett ákvæði til bráðabirgða svo þeim, sem keyptu greiðslumark fyrir þessi áramót, verði heimilt að klára niðurfærslu þegar keypts greiðslumarks svo og þess greiðslumarks sem keypt er á þessu ári.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Búnaðarsamband Suðurlands óskar bændum, fjölskyldum þeirra og öllum samstarfsaðilum sínum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs með þökkum samskiptin og samstarfið á árinu sem er að líða. Skrifstofa Búnaðarsambandsins verður opin sem hér segir yfir hátíðarnar:
– fös. 24. desember, aðfangadagur: Lokað

Jólakveðja frá Kynbótastöðinni

Starfsmenn Kynbótastöðvar Suðurlands senda öllum kúabændum og fjölskyldum þeirra sínar bestu jólakveðjur með þökk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.
Minnt er á að ekki er um að ræða sæðingar á jóladag og nýársdag en aðra daga er sætt að venju.

Nautaskráin komin í dreifingu

Nautaskrá veturinn 2010-11 er komin út og farin í dreifingu. Skránni verður að venju dreift með mjólkurbílum MS og ætti að berast bændum í dag og á morgun eftir því hvernig stendur á ferðum mjólkurbílanna.

Útsent sæði úr Grábotna í 2.865 ær

Vel heppnaðri sæðistökuvertíð lauk 21. desember að venju en þá hafði hún staðið yfir frá mánaðamótum. Að þessu sinni voru sendir út sæðisskammtar í rúmlega 19 þúsund ær. Miðað við 70 % nýtingu á því hafa 13.400 ær verið sæddar með sæði frá stöðinni sem er 800 ám færra en í fyrra. Langmest var sent úr Grábotna frá Vogum eða sæði í 2.865 ær sem er langmesta notkun á hrút frá stöðinni í Þorleifskoti, en haustið 2006 voru 2.390 sæðisskammtar sendir úr Rafti frá Hesti. Að meðaltali fór sæði úr Grábotna í 136 ær á dag og einn daginn náðust 280 skammtar úr honum sem er mesta sæðistaka úr einum hrúti á dag hér á landi.

Breytingar á skilmálum landbúnaðartryggingar VÍS

VÍS hefur um árabil boðið bændum „landbúnaðartryggingu“ sem er sérsniðin trygging fyrir búrekstur. Landbúnaðartryggingin er víðtæk og tekur til búfjár, heyja og annars fóðurs samkvæmt forðagæsluskýrslum ásamt áhöldum og tækjum sem tilheyra hefðbundinni búfjárrækt. Einnig er ábyrgðartrygging bænda innifalin í tryggingunni.
VÍS hefur nú útvíkkað skilmála landbúnaðartryggingarinnar sem felst í því að bæta við rekstrarstöðvun vegna kjötframleiðslu sem tekur á framlegðartapi sem verður vegna bruna. Bóndi sem verður fyrir því tjóni að missa bú sitt í bruna fær því greidda framlegð (greiðslur vegna kjötframleiðslu að frádregnum hefðbundnum kostnaði) af kjötsölu ef fullnaðarbætur fást ekki greiddar úr lausafjárhluta landbúnaðartryggingarinnar.

Matvælastofnun hyggst herða eftirlit með merkingum

Á heimasíðu Matvælastofnunar kemur fram að stofnunin hyggst herða eftirlit með merkingum búfjár ef komandi áramót en hingað til hefur verið látið nægja að koma á framfæri ábendingum um lagfæringar. Stofnunin hyggst banna alfarið flutning sláturhúsa á ómerktum gripum til slátrunar og komi slíkt til verður kjötið dæmt óhæft til manneldis í samræmi við ákvæði reglugerðar. Jafnframt verður í auknum mæli um bann á flutningi að ræða frá þeim aðilum er ekki fara eftir ákvæðum reglugerðar um merkingar búfjár.
Sem betur fer eru þessu mál í góðu lagi hjá miklum meiri hluta bænda en því miður eru ávallt einhverjir svartir sauðir innan um.
Tilkynnig Matvælastofnunar fer hér á eftir:

Að kaupa og selja ríkisstyrki

Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir Hauk Eggertsson, verkfræðing, um viðskipti með mjólkurkvóta á nýafstöðnum kvótamarkaði. Um efni greinarinnar og fullyrðingar Hauks verður ekki fjölyrt né heldur hvort að þær forsendur og ályktanir sem hann dregur af þeim séu réttar. Greinin er hins vegar allrar athygli verð fyrir kúabændur og sjálfsagt að kynna sér efni hennar.

Fréttir frá félagsráðsfundi FKS sem haldinn var 7.desember s.l.

Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi fundaði 7. desember s.l. Á fundinum var eftirfarandi ályktun samþykkt:
“Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu kúabænda ef ekki tekst að leiðrétta lágmarksverð mjólkur. Það vill eindregið hvetja verðlagsnefnd til að lita á hversu alvarleg staðan í greininni getur orðið ef ekki tekst að koma leiðréttingu á lágmarksverði mjólkur fram sem fyrst.

Kú ehf. framleiðir úr mjólk utan greiðslumarks

Nýtt fyrirtæki, Kú ehf., hefur hafið framleiðslu og sölu á mygluostum. Ólafur M. Magnússon, oft kenndur við Mjólku, er framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem er í eigu fjölskyldu hans að Eyjum 2 í Kjós. Ólafur hefur látið hafa eftir sér að framleiðsla fyrirtækisins verði unnin úr mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks á Eyjabúinu. Jafnframt hafi fyrirtækið tryggt sér kaup á viðbótar mjólk frá Mjólkursamsölunni til framleiðslunnar en stefnt sé að því að skipta við fyrirtækið Vesturmjólk í Borgarnesi í framtíðinni. Það sé eðlilegt enda hyggist það fyrirtæki einnig standa utan greiðslumarkskerfisins. Þetta kemur fram í nýju Bændablaði sem kom út í morgun.

Grábotni reynist gríðarlegur sæðisgjafi

Við sæðistöku í morgun, fimmtudaginn 16. desember, gaf Grábotni 06-833 samtals 56 strá eða 280 sæðisskammta. Þetta er mesta magn sem hrútur hefur gefið af sæði á einum degi hjá Sauðfjársæðingastöð Suðurlands og llíklega á landinu öllu.

Frá Félagi kúabænda á Suðurlandi

Skipuð hefur verið kjörnefnd til undirbúnings kosninga í félagsráð fyrir aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi sem haldinn verður um mánaðarmótin janúar/febrúar. Þeim sem vilja gefa kost á sér eða koma á framfæri uppástungum um fólk til þessara trúnaðarstarfa er bent á að setja sig í samband við nefndina, en hana skipa:

Sláturkostnaður hérlendis í sumum tilvikum margfaldur

Samtökin Beint frá býli hafa nú gefið út skýrslu um verðlagningu á heimteknum sauðfjárafurðum. Þar er m.a. að finna samanburð á sláturkostnaði sem hlutfalli af verðmæti dilks milli sláturhúsa og landa. Þar kemur fram að sláturkostnaður er langhæstur hérlendis og lægstur í Skotlandi og Danmörku af þeim löndum sem könnunin tekur til. Þar er nemur hlutfallið 10-15% meðan að sláturkostnaður hér á landi er frá um 35% upp í yfir 40% af verðmæti hvers dilks.

Um greiðslur á geymslugjöldum

Að því er fram kemur á heimasíðu Landssamtaka sauðfjárbænda hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur staðfest tillögu BÍ og LS um fyrirkomulag útborgunar á geymslugjöldum til bænda, en eins og kunnugt er þá munu þau greiðast innleggjendum beint héðan í frá í stað sláturleyfishafa.
Geymslugjald greiðist pr. kg á allt framleitt kindakjöt þ.m.t. heimtekið og greiðist beint til viðkomandi innleggjanda skv. þeim gögnum sem liggja fyrir hjá Bændasamtökunum.
Bændur sem eru fjárlausir vegna riðuniðurskurðar fá greiðsluna einnig. Hjá þeim liggur fyrir útreiknað afurðamagn sem notað er til að greiða afurðatjónsbætur og verður miðað við það.

Meiri útflutningur en sala innanlands í nóvember

Sölutölur á kindakjöti sýna að sala á erlenda markaði heldur áfram að aukast og verður útflutningur þess æ mikilvægari fyrir greinina. Í nóvember s.l. var flutt út 431 tonn af kindakjöti sem er ríflega 30% meira en á sama tíma í fyrra. Þannig reyndist útflutningur í nóvember vera meiri en innanlandssala sem ekki hefur gerst i einstökum mánuði a.m.k. síðustu 10 ár. Útflutningur ársins er orðinn tæp 3.300 tonn eða 36% af heildarsölunni, segir í tilkynningu frá Landssamtökum sauðfjárbænda.

back to top