Lungnapest í sauðfé í Mýrdal

Staðfest hefur verið að lungnapest hefur komið upp í sauðfé í Mýrdalnum í fyrsta sinn. Einar Þorsteinsson á Sólheimahjáleigu er reiður Matvælastofnun vegna breytinga á sauðfjárveikivarnarlínum. Þetta kemur fram á vef Sunnlenska, www.sunnlenska.is. Þetta er í fyrsta skipti sem veikin kemur upp í V-Skaftafellssýslu. Dýralæknir staðfesti á gamlársdag að ær sem drapst á bænum Sólheimahjáleigu í Mýrdal hafi verið með lungnapest. Einar Þorsteinsson, bóndi á Sólheimahjáleigu og fv. ráðunautur, segir að fimm aðrar kindur hafi drepist í haust með svipuð einkenni og ærin sem var krufin.

Einar telur fullvíst að lungnapestin sé komin í Mýrdalinn eftir að sauðfjárveikigirðingar voru lagðar niður haustið 2009. Mýrdalurinn var áður sérstakt sauðfjárveikihólf en nú er samfellt hólf frá Markarfljóti austur að sýslumörkum austan við Núpsstað.


„Við þurftum að flytja féð af illri nauðssyn í eldgosinu austur í landgræðslugirðingu í Meðallandinu. Þar gekk það saman við fé undan Eyjafjöllunum og hefur smitast. Veikin hefur verið til undir Eyjafjöllunum og nýlega var bólusett á Efstu-Grund,“ sagði Einar í samtali við sunnlenska.is.


Hann varð fyrst var við veikan veturgamlan hrút þegar fé var nýlega komið á hús fyrir tveimur mánuðum síðan. Hrúturinn drapst og síðan fimm kindur í kjölfarið með svipuð einkenni; máttleysi, hita og lystarleysi. „Ég hélt fyrst að þetta væri fóðureitrun en vanhöldin eru svo mikil umfram það. Við áttum ekki von á þessu hérna í sýslunni en ég veit ekki til að þetta hafi komið upp á öðrum bæjum,“ segir Einar og hann er reiður Matvælastofnun vegna breytinganna á sauðfjárveikivarnarlínunum.


„Það var vont að fá gosið en þetta er ekki betra. Menn þurfa að taka því sem náttúran gefur okkur en þetta er af mannavöldum. Ég er mikið reiður Matvælastofnun að taka ekkert tillit til okkar bænda. Það var starfandi nefnd sem lagði til að línunum yrði haldið og við lögðum það til en það var ekkert hlustað á okkur og hreinlega vaðið yfir okkur,“ segir Einar sem þekkir sauðfjársjúkdóma vel hafandi starfað sem ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands í 42 ár.


„Mér er ljós hættan við að leggja niður girðingar og koma af stað þessum darraðardansi. Það eru 40.000 fjár í þessu hólfi og ef það verður opið áfram þá eiga flestir aðrir sauðfjársjúkdómar eftir að koma fram. Þetta er bara byrjunin.“ segir Einar ennfremur.


Elín, dóttir Einars, er með um 400 fjár á Sólheimahjáleigu. Einar segir að þau hafi orðið sér úti um bóluefni og bólusetning muni væntanlega hefjast á morgun en tvíbólusett er við lungnapestinni. Aðspurður hvaða áhrif þetta hafi á aðra sauðfjárbændur á svæðinu segir Einar; „Það verða þessir höfðingjar hjá Matvælastofnun að ákveða. Þeir bera ábyrgð á þessu.“


back to top