Útsent sæði úr Grábotna í 2.865 ær
Vel heppnaðri sæðistökuvertíð lauk 21. desember að venju en þá hafði hún staðið yfir frá mánaðamótum. Að þessu sinni voru sendir út sæðisskammtar í rúmlega 19 þúsund ær. Miðað við 70 % nýtingu á því hafa 13.400 ær verið sæddar með sæði frá stöðinni sem er 800 ám færra en í fyrra. Langmest var sent úr Grábotna frá Vogum eða sæði í 2.865 ær sem er langmesta notkun á hrút frá stöðinni í Þorleifskoti, en haustið 2006 voru 2.390 sæðisskammtar sendir úr Rafti frá Hesti. Að meðaltali fór sæði úr Grábotna í 136 ær á dag og einn daginn náðust 280 skammtar úr honum sem er mesta sæðistaka úr einum hrúti á dag hér á landi.
Gosi frá Ytri-Skógum kom næstur með útsent sæði í 1.795 ær, þá Lagður frá Hrísum með sæði í 1.665 ær, Jökull frá Bjarnastöðum með sæði í 1.330 ær og Raftur frá Hesti með sæði í 1.120 ær. Sæðistakan gekk afar vel og flesta daga var hægt að sinna óskum nema úr Gosa um miðbik tímabilsins en þá er álagið mest.
Margir fjárbændur skrá sæðingarnar í fjarvis.is en aðrir eru hvattir til að skila inn bókum og láta vita um fjölda sæðinga sem allra fyrst.
Að lokum þakkar starfsfólk Sauðfjársæðingastöðvarinnar fjárbændum ánægjulegt samstarf og óskar þeim gleðilegra jóla í leiðinni.
Á myndinni er um að ræða fjölda stráa af útsendu sæði. Hvert strá inniheldur 5 sæðisskammta.