Afurðir aukast hægt og bítandi

Uppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir október er lokið og standa meðalafurðir á árskú nú í 5.323 kg yfir landið allt sem er 5 kg mera en í fyrra mánuði. Afurðir eru nokkru meiri hér á Suðurlandi eða 5.436 kg/árskú til jafnaðar og hafa einnig aukist um 5 kg milli mánaða. Afurðir eru nú mestar í Rangárvallasýslu eða 5.505 kg/árskú og síðan 5.500 kg/árskú í Árnessýslu.
Afurðahæsta búið á landinu er hjá Steinari Guðbrandssyni í Tröð í Borgarbyggð eða fyrrum Kolbeinsstaðahreppi. Þar hafa kýrnar mjólkað 7.850 kg/árskú til jafnaðar síðustu 12 mánuði sem er nokkur lækkun frá október.

Verið að setja upp vélar í nýrri mjólkurstöð Vesturmjólkur

Verið er að setja upp vélbúnað í nýja mjólkurstöð í Borgarnesi að því er fram kemur í Skessuhorni. Að sögn Bjarna Bærings bónda og talsmanns eigenda fyrirtækisins Vesturmjólkur er stutt í að fyrsta framleiðslan komi á markað, en það verður þó ekki á þessu ári. Bjarni segir að vonast sé til að einhver súrvara verði framleidd núna fyrir jólin; skyr, jógúrt eða súrmjólk, en hún fari þá til stóreldhúsa, mötuneyta og hóteleldhúsa.

Nýliðunarstyrkir í sauðfjárrækt í fimm ár í stað þriggja

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur staðfest breytingu á reglum um nýliðunarstyrki í sauðfjárrækt sem felst í því að nú er hægt að sækja um framlög fimm ár í röð í stað þriggja áður, þó aldrei lengur en út gildistíma núverandi sauðfjársamnings. Breytingin er gerð að tillögu Samtaka ungra bænda, en var samþykkt af stjórnum Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands og síðan staðfest af sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytinu.

Lífland hækkar fóður um 2-8% í verði

Lífland hefur tilkynnt um hækkun á kjarnfóðri sem tekur gildi fimmtudaginn 9. desember n.k. Hækkunin er á bilinu 2-8%, mismunandi eftir tegundum. Að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu er ástæða hækkunarinnar mikil hækkun á heimsmarkaði á hráefnum til fóðurgerðar.

Síðustu bændafundir BÍ í dag

Almennum haustfundum Bændasamtakanna lýkur í dag, mánudaginn 6. desember, með fundum á Smyrlabjörgum kl. 14.00 og á Geirlandi kl. 20.30.
Á fundunum verða m.a. rædd þau tækifæri sem landbúnaðurinn hefur til þess að efla þjóðarhag og hvar sóknarfæri liggja. Nýgerður búnaðarlagasamningur verður til umfjöllunar og spurt verður hvernig unnt er að verja kjör bænda í erfiðu efnahagsástandi.

Ný námskeiðsröð hjá Endurmenntun LbhÍ

Endurmenntun LbhÍ er að fara í gang með nýtt námskeið sem hlotið hefur heitið Sáðmaðurinn. Þetta er jarðræktarnám sem ætlað er fróðleiksfúsu jarðræktarfólki, bændum, verktökum og þjónustuaðilum, sem vilja ná enn betri árangri í jarðrækt og fóðuröflun. Lögð er mikil áhersla á virka þáttköku nemenda, bæði í kennslu og umræðu. Námskeiðaröðin byrjar í janúar á næsta ári og endar með útskriftarhátíð á vormánuðum 2012.

Fundað um skuldamál bænda

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fundaði í nýliðinni viku með forsvarsmönnum banka og bænda um skuldamál í landbúnaði. Á fundinum var rætt um stöðu þeirra bænda sem lent hafa í skuldavandræðum eftir bankahrun, greiðsluaðlögun bankanna og þá stöðu sem er uppi í málefnum landbúnaðar. Þá voru málefni bænda á gossvæðinu við Eyjafjallajökul rædd sérstaklega og lagði ráðherra áherslu á að við úrlausn allra þessara mála væri horft til byggðasjónarmiða og þeirra markmiða að halda sveitum í byggð.

Bændasamtökin undrandi á ummælum formanns samninganefndar við ESB

Að því er fram kemur á heimasíðu BÍ hafa Bændasamtökin hafa sent bréf til Stefáns Hauks Jóhannessonar, sendiherra og formanns samninganefndar Íslands við ESB, vegna ummæla hans í Fréttablaðsviðtali laugardaginn 27. nóv. sl. Samtökin lýsa í bréfinu undrun sinni á ummælunum en í viðtalinu lýsti hann m.a. yfir vonbrigðum sínum yfir því að samtökin taki ekki þátt í rýnifundum um landbúnaðarmál úti í Brussel í þessari viku. Kemur fram í máli Stefáns Hauks að það þýði að styðjast verði við þá krafta sem séu í landbúnaðarráðuneytinu og það fólk í utanríkisráðuneyti sem hafi tekið þátt í ferlinu. Segir hann að það hefði verið æskilegra að hafa Bændasamtökin með enda búi þau yfir mikilli þekkingu. Hjásetu Bændasamtakana, eins og hann orðar það, geti komið niður á undirbúningi og gert stöðu Íslendinga lakari en ella.

Jafnvægisverðið er 280 kr á lítra

Á nýliðnum fyrsta tilboðsmarkaði með greiðslumark í mjólk bárust Matvælastofnun 56 tilboð um kaup eða sölu greiðslumarks. Alls buðu 14 aðilar 927.871 lítra til sölu (gild tilboð) en 39 aðilar sendu inn gild kauptilboð í samtals 876.277 lítra. Jafnvægisverð reyndist vera 280 kr/l og munu viðskipti ná til 138.555 lítra eða rétt um 15% af því greiðslumarki sem boðið var til sölu.

Greiðslumark næsta árs verður 116 milljónir lítra

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur gefið út reglugerð um greiðslumark mjólkur fyrir árið 2011. Helstu atriði hennar eru að greiðslumark ársins 2011 er 116 milljónir lítra og verðlagsárið verður fært að almanaksári. Tilhögun á C-greiðslum verður þannig að þær greiðast á innlegg í júlí til desember. Þær verða 10% í júlí, 15% í ágúst og september og 20% í október-desember.

Fóðurblandan hækkar fóðurverð um 4-8%

Fóðurblandan hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að mánudaginn 6. desember 2010 muni allt tilbúið fóður hjá fyrirtækinu hækka um 4 – 8% misjafnt eftir tegundum.

Fyrsti rýnifundur um landbúnaðarmál

Fyrsti rýnifundur um landbúnaðarmál hefst í Brussel í dag en á rýnifundum bera sérfræðingar Íslands og Evrópusambandsins saman löggjöf á tilteknum sviðum. Umræður um landbúnaðarmál munu standa í fjóra daga í þessari lotu og aftur fjóra daga í lok janúar.
Á rýnifundunum er farið yfir löggjöf beggja aðila í þeim 33 efnisköflum sem lagasafn Evrópusambandsins skiptist í til að greina hvar íslensk löggjöf er frábrugðin og hvað semja þarf um.

Frá haustfundum sauðfjárræktarinnar

Haustfundir sauðfjárræktarinnar eru nýafstaðnir og gengur þeir vel fyrir sig. Mæting var mjög góð í Árnes- og Rangárvallasýslum, en eitthvað minni í Austur- og Vestur- Skaftafellssýslum. Þórey fór yfir niðurstöður lamba- og hrútaskoðana í haust, Sveinn fór yfir stöðu Sauðfjársæðingarstöðvarinnar og Jón Viðar kynnti sæðingahrútana sem verða á stöðinni í vetur og fræddi bændur um niðurstöður sæðinganna veturinn 2010 á landsvísu og hversu mikilvægt öflugt skýrsluhald er í þeim efnum. Eftir kaffiveitingar í boði Sauðfjársæðingarstöðvar Suðurlands voru verðlaunaveitingar fyrir bestu lambhrúta, veturgömlu hrútana og efstu hrúta fyrir BLUP kynbótamat 2010.

Ráðherra skipar starfshóp um vanda svínaræktar

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað starfshóp til að leysa úr þeim vanda sem steðjar að svínarækt í landinu. Þetta var ákveðið á fundi sem ráðherra hélt með fulltrúum Svínaræktarfélags Íslands, Matvælastofnunar, Bændasamtaka Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Matvælastofnun kærir níu umráðamenn nautgripa fyrir brot á reglum um útivist

Á vef Matvælastofnunar kemur fram að stofnunin hefur nú kært níu forráðamenn/eigendur nautgripa til lögreglu. Þessi aðilar sinntu ekki tilmælum stofnunarinnar um að tryggja nautgripum sínum útivist eftir að þeim höfðu borist athugasemdir þar að lútandi. Samkvæmt reglugerð um aðbúnað nautgripa skal tryggja öllum gripum, nema graðnautum eldri en sex mánaða, átta vikna útivist hið minnsta ár hvert.

Ekki mikið um folaldadauða í kjölfar smitandi hósta

Á vef Matvælastofnunar er að finna uppfærða grein þar sem fram kemur að folaldadauði í kjölfar smitandi hósta, sem herjað hefur á íslensk hross undanfarna mánuði, hafi ekki aukist. Hins vegar er margt annað sem orðið getur folöldum að aldurtila og eru forráðamenn/eigendur folalda hvattir til að lesa greinina sem fer hér á eftir:

Velferð kúa í lausagöngufjósum

Hjá Landbúnaðarháskóla Íslands er komið út ritið Velferð kúa í lausagöngufjósum. Í ritinu er gerð grein fyrir niðurstöðum könnunar á aðbúnaði og velferð mjólkurkúa í lausagöngufjósum á Íslandi. Könnunin var gerð árið 2008 í 46 fjósum víða um landið og var hvert fjós heimsótt tvisvar. Stuðst var við aðferðir sem þróaðar voru í Evrópuverkefninu Welfare Quality®, um velferð búfjár og notuð eyðublöð og mælikvarðar sem fengnir voru þaðan.

Námskeið í sauðfjárræktarkerfinu fjarvis.is á Höfn

Við minnum á námskeið í sauðfjárræktarkerfinu Fjarvis.is sem haldið verður í Heppuskóla á Höfn næst komandi föstudag, 26. nóvember. Nú fer hver að verða síðastur að skrá sig.

Nánari upplýsingar um námskeið í sauðfjárræktarkerfinu Fjarvis.is á Höfn.

Bændafundir BÍ hefjast mánudaginn 22. nóv. n.k.

Almennir haustfundir Bændasamtakanna hefjast mánudaginn 22. nóvember með fundi á Sauðárkróki. Fyrsti fundur hér á Suðurlandi verður á Flúðum þriðjudaginn 23. nóvember n.k. Alls verða fundirnir 16 talsins, verða haldnir um allt land og verða síðustu fundir þann 6. desember n.k.
Á fundunum verða m.a. rædd þau tækifæri sem landbúnaðurinn hefur til þess að efla þjóðarhag og hvar sóknarfæri liggja. Nýgerður búnaðarlagasamningur verður til umfjöllunar og spurt verður hvernig unnt er að verja kjör bænda í erfiðu efnahagsástandi.

Landbúnaðarstjóri ESB vill gera landbúnaðarstefnu ESB „grænni“

Landbúnaðarstjóri ESB, Dacian Ciolos, kynnti í gær hugmyndir að breytingum á landbúnaðarstefnu ESB (CAP) sem gilda eiga 2013-2020. Þær hugmyndir ganga einkum út á það að stuðningi til bænda verði dreift á réttlátari og jafnari vegu en nú er gert auk þess sem aukið tillit verði tekið til umhverfissjónarmiða. Haft er eftir landbúnaðarstjóranum að það gangi ekki eftir 2013 að mismunandi reglur gildi innan ESB, „gömlu“ löndin og þau „nýju“ verði öll að sitja við sama borð. Þetta þýðir í raun að aukinn stuðningur mun renna til landanna í A-Evrópu frá því sem nú er en V-Evrópu löndin munu þá að sama skapi taka skerðingar á sig.

back to top