Meiri útflutningur en sala innanlands í nóvember

Sölutölur á kindakjöti sýna að sala á erlenda markaði heldur áfram að aukast og verður útflutningur þess æ mikilvægari fyrir greinina. Í nóvember s.l. var flutt út 431 tonn af kindakjöti sem er ríflega 30% meira en á sama tíma í fyrra. Þannig reyndist útflutningur í nóvember vera meiri en innanlandssala sem ekki hefur gerst i einstökum mánuði a.m.k. síðustu 10 ár. Útflutningur ársins er orðinn tæp 3.300 tonn eða 36% af heildarsölunni, segir í tilkynningu frá Landssamtökum sauðfjárbænda.

Sala á dilkakjöti í nóvembermánuði 2010 var 231 tonn samanborið við 249 tonn í nóvember 2009 (-7.2%). Miðað við sama ársfjórðung og í fyrra (sep-nóv) er 11% samdráttur  Sé litið til 12 mánaða er 5.9% samdráttur.


Sé litið til alls kindakjöts þá seldust 308 tonn í nóvember. Það er 22.4% minna heldur en í nóvember 2009 en þá var salan 397 tonn. Miðað við sama ársfjórðung og 2009 er er heildarsalan 11.2% minni en 6.6% minni sé litið til 12 mánaða.


12 mánaða markaðshlutdeildin er nú þannig að alifuglakjöt er í 1. sæti sem fyrr, kindakjöt í 2. sæti, svínakjöt í þriðja, svo nautakjöt og loks hrossakjöt. Allar ofangreindar tölur miðast eingöngu við innanlandssölu.


Flutt var út 431 tonn af kindakjöti í nóvember 2010, sem er ríflega 30% meira en í nóvember 2009.  Í nóvember var því meiri útflutningur en innanlandssala sem ekki hefur gerst i einstökum mánuði a.m.k. síðustu 10 ár.  Útflutningur ársins er orðinn tæp 3.300 tonn eða 36% af heildarsölunni.


Að teknu tillit til sölu og útflutnings er 12% aukning í heildarafsetningu fyrstu 11 mánuði ársins miðað við sömu mánuði 2009.


Birgðir eru 9% minni en á sama tíma í fyrra, en útlit er fyrir rúmlega 3% framleiðsluaukningu frá árinu 2009.


Þessar tölur eru byggðar á gögnum um sölu á kjöti í heildsölu þ.e. bæði í verslanir, kjötvinnslur og veitingahús.  Heimtekið kjöt er einnig meðtalið.


back to top