Kú ehf. framleiðir úr mjólk utan greiðslumarks

Nýtt fyrirtæki, Kú ehf., hefur hafið framleiðslu og sölu á mygluostum. Ólafur M. Magnússon, oft kenndur við Mjólku, er framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem er í eigu fjölskyldu hans að Eyjum 2 í Kjós. Ólafur hefur látið hafa eftir sér að framleiðsla fyrirtækisins verði unnin úr mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks á Eyjabúinu. Jafnframt hafi fyrirtækið tryggt sér kaup á viðbótar mjólk frá Mjólkursamsölunni til framleiðslunnar en stefnt sé að því að skipta við fyrirtækið Vesturmjólk í Borgarnesi í framtíðinni. Það sé eðlilegt enda hyggist það fyrirtæki einnig standa utan greiðslumarkskerfisins. Þetta kemur fram í nýju Bændablaði sem kom út í morgun.

Í lok síðasta sumars urðu háværar deilur um frumvarp til breytinga á búvörulögum þar sem lagt var til að ráðherra gæti lagt stjórnvaldssektir á afurðastöðvar sem markaðssettu mjólk utan greiðslumarks á innanlandsmarkað. Samkvæmt búvörulögum er óheimilt að markaðssetja mjólkurvörur innanlands sem unnar eru úr mjólk utan greiðslumarks en brot gegn lögunum varða sektum. Landbúnaðarráðuneytið sendi í júní síðastliðnum frá sér tilkynningu um að slíkt sé hafið yfir allan vafa.


Ráðuneytið aðhefst ekki að fyrra bragði
Því er ljóst að starfsemi Kú er brot á lögum. Sigurður Loftsson formaður Landssambands kúabænda segir að það sé alveg ljóst. „Þetta eru brot á búvörulögum og ber að taka á málinu í samræmi við það. Það er væntanlega í höndum landbúnaðarráðuneytisins að fylgja því eftir að lög séu ekki brotin með þessum hætti. Ég geri ráð fyrir að óskað verði eftir framleiðsluskýrslum hjá fyrirtækinu og málið fari í eðlilegan feril.“


Upplýsingafulltrúi landbúnaðarráðuneytisins, Bjarni Harðarsson, segir að ráðherra tjái sig ekki um einstök mál af þessu tagi. Ráðuneytið muni ekki aðhafast sérstaklega í málinu að fyrra bragði. Ef málinu verði hins vegar vísað með formlegum hætti til ráðuneytisins verði það hins vegar tekið til athugunar. Engin slík erindi hafi hins vegar komið inn á borð í ráðuneytinu.


Lögvarðir hagsmunir
Mjólkuruppgjör þessa verðlagsárs mun væntanlega liggja fyrir í byrjun næsta árs. Mjólkuruppgjör er byggt upp á innvigtunarskýrslum afurðastöðva og er það á ábyrgð verðlagsnefndar búvöru og ráðuneytisins að sjá til þess að þeim sé skilað. Komi í ljós í mjólkuruppgjöri að mjólk utan greiðslumarks hafi verið markaðssett á innanlandsmarkað án þess að framkvæmdanefnd búvörusamninga hafi veitt sérstakt leyfi til þess hafa kúabændur sem eiga greiðslumark lögvarða hagsmuni af því að leggja fram kæru eða beiðni um rannsókn til lögreglu vegna brota á búvörulögum. Ætla má, miðað við yfirlýsingar forsvarsmanns fyrirtækisins Kú, að á þetta verði látið reyna.


back to top