Fundað um skuldamál bænda

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fundaði í nýliðinni viku með forsvarsmönnum banka og bænda um skuldamál í landbúnaði. Á fundinum var rætt um stöðu þeirra bænda sem lent hafa í skuldavandræðum eftir bankahrun, greiðsluaðlögun bankanna og þá stöðu sem er uppi í málefnum landbúnaðar. Þá voru málefni bænda á gossvæðinu við Eyjafjallajökul rædd sérstaklega og lagði ráðherra áherslu á að við úrlausn allra þessara mála væri horft til byggðasjónarmiða og þeirra markmiða að halda sveitum í byggð.

Í framhaldi af fundinum er ætlun ráðuneytisins að kalla eftir upplýsingum um fjölda bænda sem eru í skuldavanda og um frystingar lána.


Á fundinn mættu auk starfsmanna ráðuneytisins; Þorfinnur Björnsson frá Landsbanka, Una Steinsdóttir og Sigurlaugur Gíslason frá Íslandsbanka, Helgi Gíslason frá Arion banka, Runólfur Sigursveinsson frá Búnaðarsambandi Suðurlands, Jóhanna Lind Elíasdóttir frá Bændasamtökum Íslands og Halldór Gunnarsson prestur og fulltrúi bænda á gossvæðinu.


back to top