Félagsráðsfundur FKS 3. okt. 2012

Fundur haldinn í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi miðvikudaginn 3. október 2012 í Björkinni á Hvolsvelli.

1. Fundarsetning
Formaður, Þórir Jónsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna  og gengið var til dagskrár:

2. Erindi – Egill Sigurðsson formaður stjórnar Auðhumlu og MS
Egill gat um helstu verkefni sem væru í gangi í fyrirtækjunum, umfangsmikil endurnýjun er í gangi í vinnslustöðvunum og verulegar fjárfestingar. Fagnaði því að greiðslumrakið yrði væntanlega aukið upp í 116 milljónir lítra. Eins varðandi framlengingu mjólkursamningsins. Ekki er enn búið að tryggja greiðslumarksmjólk forgang á innanlandsmarkaði, staðið hefur á skarpari löggjöf um það. Salan er í góðum farvegi. Gat nánar um breytingar í afurðastöðvunum og m.a. varðandi  skipulagsbreytingar á Akureyri, ný vinnslulína í ostagerð þar. Á Selfossi er unnið eftir áætlun og reiknað að því verki  verði lokið á vordögum.  Leggja verður áherslu á að horfa á heildarhagsmuni fyrirtækjanna .


3. Erindi – Einar Sigurðsson forstjóri MS
Meginmarkmið MS er að selja sem mest  magn  mjólkurvara á innanlandsmarkaði, minnstur samdráttur er  í sölu á mjólkurvörum af öllum matvörum eftir hrun. Jafnframt er markmiðið að hámarka tekjur á unninn lítra og þróa verðmeiri vörur (t.d Hleðslan). Einnig að lágmarka söfnunar- vinnslu og dreifingarkostnað á hvern lítra. Meðal annars að vera með eitt samhæft söfnunarkerfi, eitt vinnslukerfi á landsvísu, sérhæfa stöðvar til að auka framleiðni og loks fækkun stöðva. Síðan að  hámarka verð á söluvörum til útflutnings, m.a. að auka hlutdeild skyrs í útflutningi á kostnað dufts.
Reynt að hámarka skilaverð til bænda. Lægri vinnslukostnaður eykur hlutdeild bænda í söluverði og loks að jafna aðstöðu bænda gagnvart markaði. Mikilvægt að halda þessu skipulagi, þ.e. að það sé einn öflugur heildsöluaðili á markaði gagnvart fákeppni í versluninni.
Stefnan er að skila árangri, iðnaðurinn er að skila hagnaði um 200 milljónir króna á ári, umframhagnaður fer til bænda og neytenda í gegnum verðlagningu. Salan er góð og heldur vaxandi, áhersla er á vöru- og umbúðaþróun. Útflutningur gengur ágætlega en skyrið er komið að ákveðnum þröskuldi. Kostnaði hefur verið haldið í skefjum í vinnslunni og flutningum. Búum við dýra kjarasamninga  og sveiflur í gengi sem hafa áhrif á kostnað. Verð á umbúðum og íblöndunarefnum fara mjög hækkandi.


Mikil innvigtun á fyrri hluta árs skapaði lakari afkomu en ráð var fyrir gert. Þetta jafnar sig á seinni hluta ársins. Gert  ráð fyrir hagnaði á árinu.


Sagði að tollar væru að  lækka að raungildi og skapa hættu á ostainnflutningi, enn eru gloppur í löggjöfinni um greiðslumark.
Sala vinnsluvaranna eykst en samdráttur í sölu á nýmjólk. Í heild er þó söluaukning.
Vel hefur gengið að koma á tappavæðingu og henni lýkur upp úr áramótum. Skyrið (skyr.is) hefur verið „endurmarkaðssett“ og sala aukist um 25% án þess að það hafi dregið úr sölu á KEA skyri. Nýir desertostar hafa komið á markað (Ljótur og Auður).


Verið að ljúka endurskipulagningu á flutningakerfum, leitt til fækkunar  um 8 bíla. Fjárfestingar á Selfossi og Akureyri um 1,8 milljarða en í Reykjavík og Búðardal er fjárfest fyrir um 0,5 milljarða eða alls 2,3 milljarða, reiknað með endurgreiðslutíma upp á 5-6 ár. Í lok 2014 verður iðnaðurinn að fullu endurskipulagður.


Úflutningur um 10 milljóna lítra miðað við framleiðslu síðustu ára og sölu innanlands. 85% próteinsins flutt út sem undanrennuduft – á heimsmarkaðsverði,  15% flutt út sem skyr en gefur a.m.k. 50% meiri tekjur en ef það væri flutt sem duft. Horfur á 420 tonna útflutningi til Finnlands en greiddur er fullur tollur af um 40 tonnum. Ekki eru horfur á viðbótarkvóta í bráð. Enginn vöxtur í skyrútflutningi til USA síðustu 6 ár. Flutningar þangað eru vandamál. Síðan hefur MS útflutningstekjur af leyfisbundinni framleiðslu í Noregi, Svíþjóð og Danmörku,  um 60 milljónir á ári núna. Verið að skoða fleiri lönd og þá með framleiðsluleyfi MS. Tilraunir eru í gangi með útflutning til Finnlands í formi kryddsmjörs.
Duftverðið mjög sveiflukennt á erlendum mörkuðum , um 45% sveifla innan árs. Verð á dufti er hækkandi núna og væntanlega áfram fram á árið 2013.


Þórir á Selalæk  velti fyrir sér verðlagningu á sérvörum t.d. á skyri og hvort ekki væru möguleikar þar á hækkunum.
Einar Sigurðsson svaraði því til að ef þar er hækkað verulega þá  kemur það fram í erfiðari stöðu við opinberu verðlagninguna.
Valdimar í Gaulverjabæ spurði um stöðu mála á Ísafjarðasvæðinu. Gott að heyra að vel gangi með vinnsluna á Egilsstöðum. Velti fyrir sé hvaða vörur eru að skila mestri framlegð. Hverjar eru útflutningshorfur til annarra landa en ESB og USA, t.d.  til Kanada ?
Björn í Holti spurði um  skyrútflutninginn og aðra aðila þar á markaði.
Egill Sigurðsson sagði að það gengi vel að þjónusta þéttbýlissvæðin á Vestfjörðunum og að þjónusta bændurnar þar. Ekkert hefur gengið að koma óskyldri starfsemi í vinnslustöðina þar. Á Egilsstöðum hefur gengið vel í vinnslu á mossarella . Hins vegar eru fáir framleiðendur og dreifðir á söfnunarsvæðinu. Ákveðnar  ostategundir eru með mjög lága framlegð, t.d. mossarellaostur. Mikill fengur að fá Sigurð Rúnar frá Akureyri inn í vöruþróunarmálin á Bitruhálsi. Auðunn Hermannsson tók við starfi bústjóra á Bitruhálsi á liðnu vori.
Einar Sigurðsson sagði að aðeins hafi verið rætt um möguleika á útflutningi til Rússlands og þá í gegnum Finnland. Síðan um vörumerkið „skyr“,  það þyrfti að skoða það sérstaklega og þá lagaramma sem þurfa að vera fyrir hendi. Skoða þarf framlegðarútreikninga yfir lengri tíma.
Ágúst í Bjólu spurði um hvort vöruþróunin ætti að vera áfram í Reykjavík en engin innvigtun mjólkur þar.
Einar Sigurðsson svaraði því til að vöruþróunin væri bæði í Reykjavík og einn maður á Selfossi. Hins vegar væri unnið í vöruþróuninni með útflutningsmarkaðinn í huga samhliða innanlandsmarkaðnum. Samhæfa þarf umbúðir t.d. milli landa í skyrinu. Vinna vöruþróunar er unnin með markaðshlutanum.
Ómar í Lambhaga spurði um söluátak í einstökum vörum, kemur það  hugsanlega niður á öðrum vörum ?
Einar Sigurðsson taldi að ákveðin tækifæri væru enn á markaðnum þó svo heildarneysla sé mjög mikil hér á landi miðað við önnur lönd. Við vinnum á þeirri forsendu að ná enn lengra hér á landi en það má ekki heldur missa neyslu niður á ákveðnum vörum. Heildarneysla hefur heldur aukist sbr. tillögu að auknu greiðslumarki fyrir næsta ár.
Björn í Holti  spurði um hvort  ætti að sækja mjólkina til bænda þriðja hvern dag ?
Einar Sigurðsson svaraði því til að þetta væri ekki gert að óathuguðu máli, helst væri möguleiki  þar sem framleiðsla væri á ostum.
Jórunn á Drumboddsstöðum  spurði um mögulegan útflutning á ótolluðum vörum, t.d. kryddsmjörið.
Einar Sigurðsson nefndi kryddsmjörið og hleðsluna  en Finnarnir hafa ekki viljað hana.
Jóhann í St-Hildisey velti fyrir sér útflutningsmálunum, sérleyfistekjurnar eru að aukast og spurning hvernig eigi að dreifa þeim fjármunum, t.d. í útflutningsverð til bænda. Eins varðandi skyr í flugvélarnar, hefur það verið athugað.
Egill Sigurðsson svaraði Jóhanni varðandi útflutninginn, ávallt væri verið að skoða málin og þá jafnvel inn á fjarlægari markaði. Bændur framleiða mjög mismikið umfram sitt greiðslumark.
Einar Sigurðsson ræddi flugvélamatinn – sá markaður er erfiður, í sumar voru skyrprufur  í öllum komuvélum Icelandair.
Samúel í Bryðjuholti spurði um möguleika á að koma einhverjum vörum inn á skemmtaferðaskipin sem koma hér við.
Einar Sigurðsson svaraði því til að þetta yrði athugað fyrir næstu vertíð.
Ásmundur í Norðurgarði velti fyrir sér möguleika stoðmjólkur inn á útflutningsmarkaði.
Samúel í Bryðjuholti velti fyrir sér leyfisgjöldum, hvað MS væri að borga fyrir leyfi eins og fyrir Benecol og LGG.
Einar Sigurðsson sagði að þetta væru ekki háar tölur.
Jóhann í St-Hildisey  spurði um sölu á skyri til Finnlands og hvort ekki væri varasamt að láta aðra framleiða fyrir sig inn á þann markað.
Einar Sigurðsson svaraði því til að þetta yrði ekki gert nema því aðeins þegar tollþaki er náð og þá eingöngu á þann veg að greint yrði tryggilega frá því á merkingum eininganna.


4. Fundur stjórnar FKS  með  starfsmönnum Búnaðarsambandi Suðurlands og tilraunastjóra St-Ármóts,  18. sept 2012
Þórir á Selalæk  dreifði yfirliti um þann fund.

• Fyrst var rætt um starfsemina á St-Ármóti, Grétar Hrafn hefur verið í 25% starfi sem tilraunastjóri þetta árið en reiknar með fullu starfi frá áramótum. Verkefni sem eru í gangi eru varðandi átgetu á 1.kálfskvígum í tengslum við að fá betri grunn til nota í Nor-For fóðuráætlanagerð. Eins væri spennandi að fara af stað með verkefni til að skoða próteingjafa úr íslenskum jurtum.

• Nefnt var að fyrir lægju drög að löggjöf um háskóla þar sem LbHÍ og Hólaskóli verða felldir inn í almenna löggjöf um háskóla. Einnig er samkvæmt  tillögunni gert ráð fyrir að búfræðslulögin verði felld úr gildi og einnig löggjöfina um tilraunastöðina á St-Ármóti. Rætt um framtíð tilraunastarfs á St-Ármóti í ljósi tillagna um háskólalöggjöfina. Í umræðum um þennan lið kom fram að mikilvægt væri að kúabændur beittu sér í þessum málum, fjósið á St-Ármóti er núna eina tilraunafjós landsins og því mikilvægt að LbHÍ standi vel að verki varðandi tilraunastarf þar í samstarfi við kúabændur. Ákveðið að stjórn FKS undirbúi tillögu um málefnið og hún síðan send félagsráðsmönnum til umsagnar.

• Þá var rætt um Nor-For verkefnið en það  virðist góðum farvegi, alls eru 34 kúabændur skráðir þátttakendur á Suðurlandi.

• Runólfur ræddi rekstrarráðgjöfina, ma. skuldamálin og SUNNU-verkefnið.

• Sagt frá málefnum ræktunarstarfsins, pörunarforrit í vinnslu í tengslum við Huppuna. Ákveðið að skoða  kvígur í stærstu fjósunum tvisvar á ári.

• Sæðingarstarfið var rætt en nefnd er að störfum um kosti og galla þess að sameina þetta á landsvísu með það að markmiði að ein gjaldskrá gildi yfir landið.


Rætt um sæðingastarfsemina almennt og nauðsyn góðrar vinnuaðstöðu fyrir sæðingamennina.
Spurt um nýtt erfðaefni til nota í holdanautastofnana. Ekkert hefur frést af því starfi enn.


5. Önnur mál
a. Jóhann í St-Hildisey  ræddi  nautakjötsmál og dreifði samantekt  um ásetning síðustu ára. Ljóst er að það hefur dregið úr ásetningi síðustu misseri. Eins er athyglivert að  eldistími hér á landi er mun lengri að jafnaði en erlendis.


b. Jóhann í St-Hildisey sagði frá framlengingu á búvörusamningi, en hann verður nánar kynntur af Bændasamtökunum og LK.


c. Runólfur  Sigursveinsson– sagði frá tillögu nefndar um endurskipulagningu á  ráðgjafastarfi í landbúnaði. Miðað við að nýtt fyrirtæki í eigu BÍ taki alfarið yfir ráðgjafaþáttinn en búnaðarsamböndin verði nánast eignarhaldsfélög  eftir breytinguna, í það minnsta eins og tillögurnar eru settar fram. Boðað verður til aukabúnaðarþing í lok október en reiknað með að nýtt fyrirtæki taki til starfa 1.janúar 2013.

Fleira ekki gert og fundi slitið um kl 00.30

Runólfur Sigursveinsson
ritaði fundargerð


back to top