Stjórnarfundur HS 4/2012

Fundargerð
Stjórnarfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands

Stjórnarfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands var haldinn í fundarsal Búnaðarsambands Suðurlands, þann 24. september 2012, kl. 17:30. Fundinn sátu: Sveinn Steinarsson, María Þórarinsdóttir, Sigríkur Jónsson, Katrín Ólína Sigurðardóttir, Þórdís Erla Gunnarsdóttir og Halla Eygló Sveinsdóttir.

Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Haustfundur
3. Vetrarstarfið
4. Önnur mál

1. Fundarsetning
Sveinn Steinarsson setti fundinn og bauð menn velkomna. Höllu Eygló falið að rita fundargerð.

2. Haustfundur
Haustfundurinn verður miðvikudaginn 17. október og hefst kl. 20 í félagsheimili Sleipnis á Selfossi. Sigurbjörg Þorsteinsdóttir mun mæta og kynna stöðuna í sumarexem rannsókninni. Guðlaugur Antonsson mun fjalla um sína sýn á þróun íslenska hestsins. Starfshópurinn sem skipaður var á síðasta aðalfundi HS, til að fjalla um aðkomu kynbótahrossa að landsmótum, mun gera grein fyrir niðurstöðum sínum.
Fundurinn verður kynntur í fréttabréfi HS og á netmiðlum.

3. Vetrarstarfið
Stefna á tvö fræðslukvöld, eitt í janúar og annað í febrúar. Sveinn sagðist hafa viðrað þá hugmynd við Sigrúnu, formann Félags tamningamanna, að þeir kæmu í samstarf við HS um fræðslu á þessum kvöldum. Hún tók vel í það. Nokkra tillögur komu um efnisval á kvöldunum m.a. hvernig er hestur undirbúinn fyrir sölu, hvað er góð söluvara, er ræktunarmarkmiðið í samræmi við þörf markaðarins? Hvernig má hagræða í hrossarækt?

Ákveðið að ungfolasýning og Ræktun 2013 verði með svipuðu sniði. Sveini falið að kanna hvort Magnús Benediktsson er tilbúinn til að taka þessar sýningar að sér. Ræktun 2013 verður síðasta laugardag í apríl og ungfolasýningin í tengslum við stóðhestasýninguna.

4. Önnur mál
Sveinn nefndi að það væri mikilvægt að stjórnin hefði eitthvað um það að segja hvar kynbótasýningar yrðu á næsta ári en fagráð myndi trúlega fjalla um það á fundinum í desember.

Hann minnti einnig á aðalfund Félags hrossabænda þann 16. nóvember.

Sveinn sagði frá því að Kristinn Guðnason hefði talað við sig varðandi afstöðu  HS til þess að Félag hrossabænda hefði sama háttinn á og í fyrra að kaupa bókina Hrossarækt fyrir félagsmenn sína. Félagsmenn fengu bækurnar endurgjaldslaust. Staðan er sú hjá HS að enn eru að minnsta kosti 100 bækur ósóttar en félagsmönnum var gert að sækja sínar bækur sjálfir vegna mikils sendingarkostnaðar. Er ástæða til þess að Félag hrossabænda sé að kaupa þessa ágætu bók fyrir félagsmenn? Sveinn spurði hvort mönnum fyndist það í lagi að um 40% af því sem greitt er til Félags hrossabænda færi til kaupa á þessari bók? Stjórnin var sammála að ekki væri ástæða til þess í ár  en stuðningur við útgáfuna í fyrra hafi horft öðruvísi við þar sem um frumútgáfu var að ræða á þessari ágætu bók Hrossaræktar ehf. Sveinn sagðist láta Kristinn vita um niðurstöðu stjórnar.

Þórdís Erla Gunnarsdóttir sagði frá vinnu starfshópsins. Allir væru áhugasamir og ánægðir með að fá að taka þátt í vinnu eins og þessari. Vissulega væru skiptar skoðanir innan hópsins eins og eðlilegt væri. Þessi hópur hefði brennandi áhuga á málefninu.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 19:00.

/Halla Eygló Sveinsdóttir


back to top