ESB hefur fallist á opnunarviðmið Íslands vegna landbúnaðarkafla

Evrópusambandið hefur fallist tillögu Íslands um með hvaða hætti opnunarviðmið landbúnaðarkafla aðildarviðræðna verða uppfyllt. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að þar með sé ekkert því til fyrirstöðu að hefja viðræður við ESB um landbúnaðarmál. Þetta sagði Össur í umræðum um aðildarviðræður að ESB, en umræðan hófst að frumkvæði Ragnheiðar Elínar Árnadóttur alþingismanns.
„Það er alveg rétt að landbúnaðarkaflanum hefur seinkað, en ég hef aldrei ásakað neinn sérstaklega um það. Ég tel reyndar eftir á að hyggja að það hafi bara verið heppilegt og að það hafi glætt skilning Evrópusambandsins á sérstöðu íslensks landbúnaðar.

 
Ég vil upplýsa háttvirtan þingmann um að á föstudaginn gerðust þau merku tíðindi að af hálfu ESB var fallist á það með hvaða hætti við viljum uppfylla opnunarviðmið í landbúnaði. Þannig að það er frá, þannig að ég geri ráð fyrir að það megi taka til við samninga í þeim málaflokki innan tíðar,“ sagði Össur.
 
Jan Tombinski, fastafulltrúi Pólverja, sendi í september á síðasta ári bréf til íslenskra stjórnvalda þar sem fram kom að Ísland sé ekki nægilega búið undir samningaviðræður um landbúnaðarmál í aðildarviðræðum við ESB. Í bréfinu kom fram að áður en viðræður Íslands og sambandsins um landbúnaðarmál geti hafist þurfi íslensk stjórnvöld að leggja fram áætlun um hvenær þau ætla að gera breytingar á lögum og stofnunum sem snerta landbúnað. ESB taldi forsendu fyrir viðræðnum að það lægi fyrir að Ísland gæti staðið við skuldbindingar sínar í landbúnaðarmálum ef Ísland gerðist aðili að sambandinu.
 
Íslensk stjórnvöld lögðu í sumar fram áætlun um hvernig þau ætli að standa að málum varðandi landbúnaðinn. Framkvæmdastjórn ESB fór í framhaldinu yfir áætlunina til að kanna hvort hún væri fullnægjandi og tæki til allra atriða sem þurfa að liggja fyrir áður en viðræður geta hafist. ESB hefur nú staðfest að það telji áætlunina fullnægjandi.


Sjá nánar:
Aðgerðaáætlun um undirbúning Íslands á sviði landbúnaðar og dreifbýlisþróunar vegna mögulegrar aðildar að ESB


back to top