Aðalfundur FKS 30. janúar 2012

Fundargerð aðalfundar Félags kúabænda á Suðurlandi í Árhúsum, Hellu, mánudaginn 30. jan. 2012.

Fundur hófst kl. 12:00

Þórir Jónsson, formaður, bauð fundarmenn velkomna og bar upp tillögu um fundarstjóra Jóhann Nikulásson og fundarritara Pétur Halldórsson (BSSL). Tillaga formanns samþykkt samhljóða.
Jóhann Nikulásson tók við stjórn fundarins og kynnti dagskrá.

1. Skýrsla formanns, Þórir Jónsson.
Ágætu félagar.  Nýliðið ár heilsaði með mildu tíðarfari framan af en einstaklega köldum maí. Þá gerði  norðan hvassviðri með kulda. Það gerði verulega áföll  á kornsáningu sem kom berlega í ljós þegar leið á sumarið.  Þá hófst eitt kröftugasta eldgos  nú í seinni tíð í Grímsvötnum  21.maí. Skaftfellingar máttu enn og aftur glíma við eldgos og afleiðingar þess.
Félagar í Félagi kúabænda á Suðurlandi  voru við síðustu áramót 243 en nautgripabændur á félagssvæðinu eru 327. Félagsráð starfaði með hefðbundnum hætti á árinu og fundargerðir þess birtar á netinu.
Stjórnarfundur var einn en félagsráð hélt 5 fundi á árinu. Á fyrsta fundi  félagsráðs 14. febrúar var Samúel Unnsteinn Eyjólfsson í Bryðjuholti kjörinn sem ritari og varaformaður en fyrrverandi ritari og varaformaður Arnheiður Dögg Einarsdóttir á Guðnastöðum gaf ekki kost á endurkjöri. Þá var Elín Bjarnveig Sveinsdóttir í Egilsstaðakoti endurkjörin gjaldkeri félagsins. Á þeim fundi voru kosnir  12  fulltrúar félagsins á aðalfund Landssamband kúabænda  og 4 fulltrúar á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands.

Tvær tillögur voru samþykktar  á síðasta aðalfundi félagsins,  önnur þeirra um að styrkja ákvæði um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað var send Sjávarútvegs- og landbúnaðar-ráðuneytinu,  einnig öllum þingmönnum Suðurkjördæmis hin tillagan snéri að sæðingastarfseminni,  var hún send  Bændasamtökum Íslands

Umræðuefni á fundum  félagsráðs hafa markast af því hvað er efst á baugi á hverjum tíma ásamt  ýmsum erindum öðrum  sem kallað hefur verið eftir á fundina. Verðlagsmál, afleiðingar Gríms-vatnagoss, lánamál bænda og starfsemi Matvælastofnunar svo eitthvað sé nefnt.   Verðlagsmál  mjólkurvara voru mikið  í umræðunni  í  félagsráði. Þá er staðan í lánamálum bænda  enn þá til umfjöllunar.

Félagið  hélt fund í sal MS á Selfossi  16.mars. Fyrri hluti fundartímans fór í að vinna að tillögum á næsta aðalfund L.K.  Síðan var fundurinn  opinn öllum um  erindi  Ólafs Eggertssonar  á Þorvaldseyri  um repju og nepjurækt  til olíuvinnslu.  Þessi opni  fundur  var vel sóttur, ekki aðeins af kúabændum heldur landeigendum  og öðrum sem hafa áhuga á þessari ræktun. 

Á fundi 8. júní voru verðlagsmál mjólkur rædd en þá lá í loftinu  leiðrétting á lágmarksverði mjólkur. Fulltrúi okkar í verðlagsnefnd Sigurður Loftsson fór yfir stöðu  mála. Ítarlegt erindi hjá Runólfi Sigursveinssyni um stöðuna í gosmálum í V- Skaftafellssýslu svo og lánamál kúabænda.

Þann 4. okt. komu á fund félagsráðs stjórnarformaður  Auðhumlu,  Egill Sigurðsson og forstjóri MS, Einar Sigurðsson. Egill gat um að rekstur fyrirtækjanna væri réttu megin við núllið.  Gat um starfsemi Vesturmjólkur. Alveg klárt að þar er í gangi lögbrot varðandi innanlandsmarkaðinn, þ.e. umframmjólk er að koma inn á þann markað.
Einar fór yfir þær breytingar sem hafa orðið vinnsluþættinum gagnvart einstökum samlögum síðustu tíu ár. Búið að fækka vinnslustöðvum og einfalda vinnslu á hverjum stað. Þá mætti líka á fundinn  formaður LK, Sigurður Loftsson og  gat um þau verkefni sem stjórn LK væri að vinna að.

Þann 7. desember  hélt félagsráð fund  með forstjóra MAST,  Jóni Gíslasyni  og nokkrum dýralæknum  Matvælastofnunar. Þar voru til umræðu framkvæmd á þeim  reglugerðum   sem varða okkur nautgripabændur.  Mikil gagnrýni kom fram á störf og starfshætti stofnunarinnar. Lítil eða engin kynning á væntanlegum  reglugerðabreytingum .  
Jón Gíslason forstjóri MAST  sagði að Matvælastofnun væri í sömu stöðu og bændur, hraði breytinga er það mikill við innleiðingu Evrópulöggjafarinnar að stofnunin eigi fullt í fangi með að fylgjast með og koma nýjum reglugerðum í framkvæmd.
Ekki er að efa að stofnunin starfi eftir lögum og reglugerð en það er framkvæmdin sem er gagnrýniverð. Ég tel að bændur eigi hiklaust að láta þessi mál sig varða, og þá sérstaklega  hvaða svigrúm er til  þess að hafa áhrif á framkvæmdaþátt  þeirra.   Þessi fundur var gagnlegur að ég tel  fyrir báða aðila.

Félagið tók þátt  sl. vor í Sunnlenskum sveitadögum með stuðningi LK  í samstarfi við Sláturhúsið á Hellu  en þar var heilgrillað naut og svo síðar í  Kótelettunni á Selfossi  í samstarfi við Sláturfélag Suðurlands,  þar sem bornar voru fram  grillaðar nautakótelettur. Félaga úr FKS báru kræsingarnar fram fyrir gesti. Þessu var  vel  tekið gæðin og eiginleikar kjötsins féllu gestum vel í geð. Fyrir hönd félagsins vil ég  þakka  afurðastöðvunum Sláturhús Hellu og SS fyrir samstarfið sem lögðu til mannskap, tól og tæki.

Kúasýning sem stóð til að halda af Búnaðarsambandi Suðurlands og Félagi kúabænda á Suðurlandi í  ágústmánuði  var aflýst vegna þátttökuleysis . Það er umhugsunarefni fyrir  okkur af hverju svona fór.  Kynna greinina og vekja athygli á henni  er eitthvað sem kemur ekki  af sjálfu sér.
Sýningar af þessu tagi hafa meira gildi fyrir greinina út á við  en kynbótagildi þeirra gripa sem fram koma. Þetta er okkur til vansa sem búum í  einu af blómlegasta mjólkurframleiðslusvæði landsins að treysta okkur ekki til að koma sýningu  sem þessari  í framkvæmd.

Í stefnumörkun LK og Auðhumlu er fjallað um gildi þess að kynna  búgreinina með  ýmsum hætti.  Það eru bú hér á Suðurlandi sem leggja mikið fram við að vekja áhuga  almennings  á okkar framleiðslu. Halló Helluvað er dæmi um slíkt og mætti það vera okkur hinum til eftirbreytni,  við getum öll lagt eitthvað af mörkum í þessu efni. 

Félagið tók þátt í Opnum degi að Stóra Ármóti  11. nóvember  sem  Búnaðarsamband Suðurlands stóð fyrir. Mörg fyrirtæki komu þarna að.  Félagið var með kynningu á hvað það  stendur fyrir og  starfsemi  sinni  undanfarinna ára.  Þetta var  ánægjulegt  og tókst þessi  dagur afar vel og þeim til sóma sem  að stóðu.

Aðalfundur Landssambands kúabænda fór fram  á Hótel KEA á Akureyri dagana 25. og 26. mars þar átti félagið 12 fulltrúa. Frá félaginu komu níu tillögur inn á fundinn þ.á. m. um kjaramál og markaðssetningu mjólkur utan greiðslumarks. Stefnumörkun LK og  Auðhumlu  til 2021 fékk mikla umfjöllun og var afgreidd  á fundinum til framhaldsvinnu , auk fjölda  tillagna sem voru samþykktar á fundinum s.s. um kjaramál, búnaðargjald  og verðlagsmál. Árshátíð LK  var haldin að fundi loknum í Sjallanum og var vel sótt.

Aðalfundur  Búnaðarsambands Suðurlands var  haldinn á Selfossi 15. apríl og átti Félag kúabænda á Suðurlandi  4 fulltrúa. Þar flutti erindi  formaður BÍ, Haraldur Benediktsson um afstöðu BÍ til aðildarviðræðna að ESB. Frá FKS  komu þrjár tillögur inn á fundinn  um fóðureftirlitsgjald bænda,  um tímasetningu Búnaðarþings og um skuldamál bænda.

Formaður fundaði  á haustdögum með framkvæmdastjóra  BSSL  Sveini Sigurmundssyni, um samantekt á þjónustu sambandsins við  kúabændur. Þar kom í ljós að viðvera ráðunauta í nautgriparæktinni hefur markast að öðrum verkefnum sem hafa  komið hafa upp s.s. gosmál  og skuldamál  bænda . Þannig að árið 2010 var hlutfall búgreinarinnar af heildarstarfstíma ráðunauta lægra en áður hafði verið. Það er  vilji til að bæta úr því. Þátttaka í fóðurmatskerfinu  Nor For sem fór af stað síðasta vetur  er ágæt og eru nú u.þ.b. 30 bú í verkefninu. Einnig er Sunnuverkefnið í gangi, á síðasta ári voru þátttakendur  60. Þau bú sem hafa náð góðum rekstrar-árangri og bústjórn úr Sunnu-verkefninu síðustu ára verður veitt viðurkenning hér síðar á fundinum.

Leiðréttingar  á mjólkurverði til bænda  hafa verið tvær á síðasta ári 1.febrúar 3,25 krónur á lítra og síðan aftur 1. júlí um 3,25 krónur  á lítra. Þessar hækkanir þóttu lágar miðað við aðfangahækkanir á rekstrarvörum.  Þann 1.júlí varð einnig  breyting á  heildsöluverði  mjólkur  og mjólkurvörum, sem nefndin verðlagði, hækka um 4,25%. Afurðarstöðvaverð til mjólkurframleiðanda er  77,63 krónur á lítra í dag og heildarstuðningsgreiðslur með öllu er um 50 krónur á lítra. LK hefur lagt áherslu á heildarendurskoðun verðlagsgrundvallar. Ýmsar stærðir þar eru barn síns tíma.

Á kvótamarkaði mjólkur 1. nóvember s.l.  var jafnvægisverð 290 krónur á lítra og þá fór framboð og eftirspurn  að nálgast hvort annað.  Alls voru boðnir til sölu 901.799 lítrar í 9 tilboðum en kauptilboð reyndust vera 34  samtals 1.031.748 lítrar. Þetta er breyting frá síðasta markaði. Það hefur verið ályktað um það ítrekað  af  kúabændum að markaðsdögum með mjólkurkvóta verði fjölgað og verði 3 á ári.
Innvigtun mjólkur á landsvísu var 124,4 milljónir lítra eða 1 % aukning  frá  síðasta ári þar af umframmjólk 8,4 milljónir lítra. Á Suðurlandi  voru framleiddir á síðasta ári 46.595.157 lítrar  á 235 búum en greiðslumark mjólkur 1. janúar á þessu ári 42.804.807 lítrar.
Mjólkurframleiðendur líta nú mjög til þess að útflutningur á mjólkurvörum skili því verðmæti  að  framleiðsla á þann markað sé arðvænleg. Greiðslur fyrir mjólk umfram greiðslumark á síðasta ári voru 50 krónur á  lítra fyrir fyrstu 2 % en það sem var þá fram yfir 40 krónur á lítra. 

Nautakjöt hafði 16,6% hlutdeild á kjötmarkaði á síðasta ári. Verðhækkanir urðu á nautagripa-kjöti á árinu  SS hækkaði verð  um 3 % í lok maí og  Sláturhús Hella í kjölfarið um  4-6  %. Verð á algengustu flokkum er að  UNI A er á 575 krónur /kg  en K1A á 500 krónur/kg.
Innflutningur á unnu nautakjöti nam  418 tonnum  fyrstu 11 mánuði ársins á móti 104 tonnum yfir sömu mánuði 2010.  Heildarverðmæti innflutts nautakjöts var við lok nóvember 460  milljónir króna . Samkvæmt upplýsingum úr Huppu afurðarskýrsluhaldi  er ásetningur til nautakjötsframleiðslu fyrstu 11 mánuði síðasta árs  um  3% minni en 2010. Sú tala er með fyrirvara um að allar ásetningsupplýsingar  hafi skilað sér.
Það er greinilegt svigrúm á markaðnum til að auka framleiðsluna  en lág framlegð heldur aftur af bændum að auka við sig, eða skapa sér aðstöðu til framleiðslunnar. LK  hefur ályktað um nauðsyn þess að erfðarefni holdanautsstofnanna verði endurnýjað. Starfshópur innan ráðu-neytisins hefur tekið það efni til meðferðar.

Haustfundir LK voru haldnir að venju á Þingborg  13 október, og á  Hvolsvelli og Geirlandi 17. s.m. Þeir voru vel sóttir og umræðu góðir. Formaður Landssambands kúabænda, Sigurður Loftsson  og framkvæmdarstjóri, Baldur Helgi Benjamínsson kynnti þar stefnumörkun LK og Auðhumlu til 2021 ásamt mörgum öðrum málum sem LK vinnur að.

Fagráð í nautgriparækt hélt síðasta dag nóvember mánaðar ráðstefnu um kynbætur nautgripa. Þar kom skýrt fram að notkun á heimanautum er að skila mun minni framförum í ræktuninni en ef notuð eru naut af sæðingarstöð. Með því að skapa aðstöðu til kvígusæðinga breikkum við ræktunarstofninn og stuðlum að auknum erfðarframförum í kúastofninum.

Stjórn félagsins átti fund með stjórn BÍ vegna árgjalds  Huppu -forrits  sem lagt var  á kúabændur. Gagnrýni okkar fólst í því að greiðsla nautgripabænda  til BÍ í formi búnaðargjalds er ærin og töldum við okkur eiga inni fyrir þessari álagningu og að auki var það skoðun okkar að ef gjaldið ætti að leggjast á ættu  alla skýrsluhaldarar að bera það.

Stjórnin náði fundi með Atvinnumálanefnd Alþingis  nú á haustdögum  með hjálp góðra manna. Erindið var að koma á framfæri við nefndina skoðunum okkar á því að sala á mjólk utan greiðslumarks á innanlandsmarkað færi  nú fram, sem er skýlaust lögbrot. Styrkja þarf ákvæði  í lögum um að óheimilt er að setja mjólk utan greiðslumarks á innanlandsmarkað.
Undirtektir nefndarinnar voru,  að það virtist  vera skilningur í nefndinni um þá stöðu sem mjólkurframleiðendur eru  í  og fyrirspurnir nefndarmanna hölluðust í þá átt.  Síðan voru spurningarnar frá nefndinni um það, hvað við sæjum í framtíðinni um stöðu mjólkurframleiðslunnar? Af okkar hálfu  lögðum við áherslu á  að  stjórnvöld stuðli að því að greinin búi við eðlileg rekstrarskilyrði .   

Á undanförnum árum hafa verið samþykktar tillögur  á félagsfundum kúabænda um  forgang greiðslumarksmjólkur  á innanlandsmarkað en engin niðurstaða fengist frá stjórnvöldum. Það er allt síðan 2005 sem þetta mál á upphaf sitt og nánast allir flokkar verið við völd á þeim tíma nema  Besti flokkurinn. Um heimavinnslu mjólkur er til að mynda engin lög eða reglugerðar-rammi. 
Bændur eiga sér fáa  málssvara á þingi en einstaka þingmenn hafa lagt þessu máli lið en í heild er það  algjört áhugaleysi hjá þingliði að leysa úr þessu máli sem er klárt lögbrot og molar undan greininni.  Það er engin uppgjöf í kúabændum  þótt staðan sé þessi, við eigum ekki annan kost en að vinna áfram að viðunandi lausn á þessu máli.

Þá vil ég fyrir hönd félagsins þakka formanni LK Sigurði Loftssyni fyrir samstarfið á síðasta ári einnig starfsfólki Búnaðarsambands Suðurlands og þá sérstaklega Runólfi Sigursveinssyni. Fundaraðstöðu sem MS á Selfossi hefur veitt félaginu ber einnig að þakka. Að lokum vil ég þakka meðstjórnendum mínum Samúel og Ellu Veigu, félagsráði svo og sunnlenskum kúabændum fyrir ánægjulegt samstarf  á árinu .                                                     
Takk fyrir.


Fundarstjóri þakkaði Þóri fyrir og kynnti næsta dagskrárlið.

2. Reikningar félagsins, Elín Bjarnveig Sveinsdóttir.
Kynnti og lýsti reikningum (ársreikningur/efnahagsreikningur) –  sem þegar hafði verið dreift í afhendi til allra fundarmanna. Endurskoðendur reikninga voru María Hauksdóttir og Einar Helgi Aronsson. Ógreiddir reikningar í árslok 2011 munu vera reikningur fyrir fundaraðstöðu í Björkinni á Hvolsvelli og ógreiddur reikningur frá BSSL.
Fundarstjóri þakkaði Elínu fyrir og gaf orðið laust um skýrslu formanns og reikninga félagsins. Enginn bað um orðið.
Jóhann Nikulásson bar reikninga undir atkvæði – með handauppréttingu. Reikningar samþykktir samhljóða.


3. Kosningar.
Vikið að næsta máli sem er kosningar.
a) Formaður kosinn, leynilegri kosningu en talning atkvæða í heyranda hljóði.
Þórir Jónsson: 40
Elín B. Sveinsdóttir: I
Auðir seðlar: I
Jóhann Nikulásson lýsir Þóri Jónsson, Selalæk, réttkjörinn formann félagsins.


b) Kjör 9 fulltrúa í félagsráð og 3 varamanna.
Kjörnefnd hefur undirbúið kjörseðil. Kosning fer þannig fram að allir félagsmenn eru í kjöri, 9 efstu menn að atkvæðum hljóta síðan kjör sem aðalmenn en 3 næstu varamenn.


Tilbúnu kjörblaði dreift meðal fundarmanna til kosningar. Jóhann Nikulásson ítrekar að allir félagsmenn séu réttir í kjöri þó tillaga hafi verið lögð fyrir menn um fólk sem sé tilbúið að takast starfann á hendur. Jóhann gerir fundarhlé meðan talning atkvæða fer fram. Nokkrir fundarmanna og stjórnar auk gesta (starfsfólks BSSL) aðstoða við talningu.


Niðurstöður:
Samúel U. Eyjólfsson: 34 (1)
Bóel A. Þórisdóttir: 33 (2-3)
Jóhann Nikulásson: 33 (2-3)
Björn Harðarson:  28 (4-5)
Kjartan Magnússon: 28 (4-5)
Guðbjörg Jónsdóttir: 26 (6-8)
Elín Heiða Valsdóttir: 26 (6-8)
Sævar Einarsson: 26 (6-8)
Pétur Guðmundsson: 25 (9)
Jórunn Svavarsdóttir: 24 (1. varam.)
Guðmundur Jónsson: 14 (2. varam.)
Anna B. Ólafsdóttir: 13 (3. varam.)

Varamenn í félagsráð þar með: Jórunn Svavarsdóttir, Guðmundur Jónsson og Anna B. Ólafsdóttir.


c) Kjör 13 fulltrúa á aðalfund LK og 13 varamanna.
Kosning fer þannig fram að allir félagsmenn eru í kjöri, 13 efstu menn að atkvæðum hljóta síðan kjör sem aðalmenn en 13 næstu varamenn.


Samúel U. Eyjólfsson kemur í pontu áður en kosningar hefjast og frábiður sér kosningu sökum þess að hann verði ekki á landinu um það leyti er aðalfundur fer fram. Fundarstjóri gerir fundarhlé meðan á leynilegri kosningu stendur svo og tímafrekri talningu atkvæða.


Niðurstaða:
Elín B. Sveinsdóttir: 42 (1)
Þórir Jónsson: 41 (2)
Valdimar Guðjónsson: 38 (3)
Bóel A. Þórisdóttir: 35 (4)
Guðbjörg Jónsdóttir: 34 (5)
Ásmundur Lárusson: 33 (6)
Ólafur Helgason: 30 (7)
Sævar Einarsson: 28 (8)
Jórunn Svavarsdóttir: 26 (9)
Björn Harðarson: 26 (10)
Pétur Guðmundsson : 25 (11)
Kjartan Magnússon: 25 (12)
Jóhann Nikulásson: 22 (13)
Katrín B. Viðarsdóttir: 21 (14) – 1. varam.
Ómar Helgason: 17 (15) – 2. varam.
Sigríður Jónsdóttir: 16 (16) – 3. varam.
Inga B. Baldursdóttir: 12 (18) – 4. varam. – eftir hlutkesti.
Borghildur Kristinsdóttir: 12 (17) – 5. varam. – eftir hlutkesti.
Andrés Andrésson: 11 (19) – 6. varam.
Elín H. Valsdóttir: 10 – 7. varam.
Ágúst Sæmundsson: 10 – 8. varam.
Daníel Magnússon: 7 –  9. varam.
Reynir Þór Jónsson: 6  – 10. varam.
Einar Haraldsson: 5 – 11. varam.
María Hauksdóttir: Dregin 12. varam.
Sigurður Þ. Þórhallsson: Dreginn 13. og síðasti varam.


d) Kjör 5 fulltrúa á aðalfund BSSL og 5 til vara.
Stjórn mun gera tillögu til aðalfundar um að vísa kjöri þessara fulltrúa til félagsráðs.


Þórir Jónsson, formaður, biður um orðið. Þakkaði auðsýnt traust. Ber upp tillögu stjórnar sem er eftirfarandi:
“Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi, haldinn í Árhúsum, Hellu, 30. janúar 2012, samþykkir að vísa kjöri fulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands til félagsráðs. Kosning skal vera skrifleg og leynileg”.
 Tillagan samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

e) Kjör 2 skoðunarmanna reikninga og 2 til vara.
Fundarstjóri stýrir þessara kosningu án sérstaks undirbúnings.


Fundarstjóri ber upp tillögu um skoðunarmenn: María Hauksdóttir og Einar H. Haraldsson. Til vara: Rútur Pálsson og Daníel Magnússon.
Tillaga fundarstjóra samþykkt með lófaklappi.


4. Viðurkenningar
Runólfur Sigursveinsson tekur til máls og lýsir sögu og framgangi Sunnu-verkefnis kúabænda og BSSL. Verkefnið hefur fært bændum í hendur sterkt verkfæri til greiningar á sóknarfærum og veikleikum í eigin rekstri auk samanburðar við önnur bú. Tvær mikilvægar kennistærðir hér eru breytilegur kostnaður á einingu (kr/lítra) auk fram-legðarstigs. Haustið 2010 var unnin sérstök úttekt á rekstri Sunnu-búa síðastliðin 5 ár – að frumkvæði LK með megináherslu á kostnað, breytilegan kostnað. Allnokkur bú skera sig úr með gegnumgangandi hátt framlegðarstig og/eða lágan breytilegan kostnað ár eftir ár. Í því ljósi gaman að geta verðlaunað 5 sunnlensk kúabú m.t.t. frábærs rekstrarárangurs á undangengnum 5 árum.  Mætti það gjarnan vera hvatning til annarra bænda að líta til þessara bænda með leiðir að markinu. Búin hér í stafrófsröð; viðurkenningar veittar (ostakörfur frá MS og verðlaunaplatti). Runólfur lýsir lítillega rekstrarárangri hvers bús, að baki verðlaunum, þ.e. framlegðarstigi og BK/lítra:


• Gýgjarhólskot –  Eiríkur Jónsson
• Móeiðarhvoll –  Bóel A. Þórisdóttir og Birkir A. Tómasson
• Norðurgarður –  Ásmundur Lárusson
• Sel  –  Inga B. Baldursdóttir og Karel G. Sverrisson
• Stífla  –  Jóhanna E. Gunnlaugsdóttir og Sævar Einarsson
 
Runólfur segir bændur á þessum búum hafa náð frábærum árangri á undangengnum árum. Heildarmynd rekstrarins frábær –  og það þó flest búin séu að framleiða umfram greiðslumark ár eftir ár. Einfaldlega góð bústjórn við breytileg ytri skilyrði og misjöfn ræktunarskilyrði á einstökum jörðum.

4. Framtíð mjólkurframleiðslu á Íslandi; erindi Runólfs Sigursveinssonar.
Runólfur Sigursveinsson tók til máls og sagði ætlun sína að fjalla um stöðu framleiðslumála hér heima og í alþjóðlegu ljósi (studdi mál sitt með glærusýningu). Taldi gott að átta sig fyrst á stöðunni nú; um 26-27 þús. mjólkurkýr samkvæmt skýrslum, 650 virk fjós og meðalframleiðslan 190 þús. lítrar á bú. Við síðustu uppfærslu verðlagsgrundvallarbúsins, að 188 þús. lítrum,  töldu sumir langt gengið. Hlutirnir hafa þó gerst hratt í fækkun og stækkun búa síðustu 15 ár. Samhliða stækkun fjósanna virðist þó enn vera talsvert rými fyrir aukna framleiðslu í þeim framleiðslueiningum sem þegar eru til; þ.e. rými til aukinnar framleiðslu án aukningar í föstum kostnaði.
Árleg framleiðsla talin um 122-125 milljón lítrar – greiðslumark 116 milljón lítrar á liðnu ári. Á þessu ári um 114,5 milljónir lítra. Mismunur stendur fyrir útflutning (8-10%), duft, skyr og smjör. Innvegið magn per grip um 4.700 lítrar árið 2011. Afurðir samkvæmt skýrsluhaldi eðlilega nokkru hærri – hluti endar aldrei í tanknum. Fjós á landsvísu almennt ekki nýtt til fulls, áætlað 90-95% nýting. Að því gefnu að öll fjós yrðu fullnýtt má tala um framleiðslugetu uppá ca. 150 milljónir lítra.    

Skiptir mjög í tvö horn hjá bændum nú þar sem hluti er mjög skuldsettur en hluti svo að segja skuldlaus. Meginstefið í stefnumörkun er lækkun kostnaðar – allt að 35%. Hluti stefnumörkunarinnar er kvótakerfið sem við höfum búið við allengi. Fyrstu árin skilaði kvótakerfið mikilli hagræðingu fyrir greinina en virknin hefur minnkað með árunum. Mikill kostnaður er bundinn í kvótaviðskiptum undangenginna ára – þetta er í raun kerfi fyrrverandi bænda.
Hvernig hafa fjármálastofnanir litið til bænda í lánaumleitan; einkum er horft til:
1) Greiðslumarks,
2) stærðar jarða,
3) hvar staðsettar á landinu.

Kvótinn er og var verðmiði á jarðir. ESB-löndin hafa tekið sitt kvótakerfi til endurskoðunar og hann verður aflagður þar árið 2015 – menn höfðu þar 10 ára aðlögunartíma. Hér heima með mjólkursamning til 2015 – ekkert farið að ræða breytingar á kerfinu. Mun það hugsanlega gert af aðilum utan greinar – t.d. að nefna samþykktir flokka eins og Sjálfstæðisflokks á landsfundi sínum? Ef þetta er besta kerfið og ekkert annað betra þá verðum við þó að horfast í augu við fylgjurnar –  að bændum mun áfram fækka og kerfið er viðkvæmt fyrir utanaðkomandi breytingum.   Ekki verður auðvelt að verja sífellt hærri greiðslur til einstakra framleiðenda, einstakra búa. Á þá að afnema kvótakerfið? Nei – en við verðum að fara að hugleiða leiðir út úr kerfinu og betra að lausnirnar komi að innan, frá greininni sjálfri, fremur en að einhverju verði þröngvað upp á kúabændur.
 Ljóst er að kerfið lækkar ekki kostnað; það þarf að auðvelda nýliðun – gera innkomu fýsilega sem er mjög erfið nú sem fyrr. Horfa verður til þess að lækka kostnað við framleiðsluna með öllum ráðum svo sem LK hefur þegar lagt upp með. Það ekkert lítið markmið, að lækka heildarkostnað um 35% á næstkomandi 10 árum. Útfærslan er þó ekki augljós. Er t.d. útflutningur raunhæfur? Meginmarkmið hefur alltaf verið að uppfylla innanlandsþarfir og útflutningur verið afgangsstærð. Iðnaðurinn þó náð mjög eftirtektarverðum árangri t.d. við útflutning á skyri. Stefnuna mætti t.d. setja á að ná útflutningsmarkaði fyrir um 10-15% framleiðslunnar. Verð kollega í nágrannalöndum brugðið upp til skýringar í töflu, miðað við fasta gengisskráningu. Ekki um neitt fast verð að ræða í nágrannalöndum. Verð hins vegar, til lengri tíma, virðist vera að hækka á opnum markaði enda samkeppni um land og framleiðsluþætti að aukast. Samkeppni um land er raunveruleg t.d. allt að 350 þús kr/ha – til muna hærra t.d. í Hollandi (allt að 10x). Uppgangur á fjarlægari mörkuðum, t.d. í Asíulöndum, snýr allur að aukinni eftirspurn eftir búvörum. Matvælaverð hefur tvöfaldast á ekki löngu tímabili í löndunum í kringum okkur.

Er þá raunhæft að flytja út? Hvaða viðhorf hefur búgreinin sjálf – hvert verður gengi íslensku krónunnar? Ef það er möguleiki þá er hann nú á meðan krónan er svo lágt skráð. Hvert er verðið per kg útfluttrar mjólkur nú? Miðað við uppgefnar tölur allt í allt um 700 milljónir á ári. Runólfur nefndi auk þess dæmi um smjörverð og gott verð á skyri til útflutnings. Útflutningur er raunhæfur að mati R.S. ef búgreinin og iðnaðurinn er tilbúinn í ákveðið markaðsstarf. Þetta þarf að gerast sem allra fyrst, segjum á næstu 5 árum, komast inn fyrir á litlum afmörkuðum mörkuðum. Magnið ekki svo óskaplegt en gæti skipt greinina gríðarlegu máli.

Þáttur sem kom R.S. verulega á óvart var að árið 2010 var um helmingur kúabænda ekki með neina umframmjólk og stór hluti náði ekki 90% af greiðslumarki. Runólfur nefndi að öll verðlaunabúin (sjá fyrr í f.gerð) voru með umframframleiðslu.  Verulegur breytileiki er í afkomu t.a.m. innan Sunnu-hópsins – menn standa sig afar misvel í sínum rekstri. Jákvæður munur allt að 2 milljónum króna per bú á ári sem góðar rekstrareiningar náðu fram. Búgreinin hefur mikla möguleika en það þarf að vinna betur að stjórnkerfi greinarinnar til að framleiða vöruna á lægra verði – gera framleiðsluna hagkvæmari. Í framhaldinu og með stefnumörkun gætu hlutirnir gerst tiltölulega hratt.

Jóhann Nikulásson þakkaði Runólfi Sigursveinssyni fyrir og óskaði viðbragða frá fundinum, fyrirspurna eða innleggja í umræðu.

Jóhann reið á vaðið sjálfur og taldi vel raunhæft að ná árangri á erlendum mörkuðum. Markaðssetning fyrir jafn litla aðila þó ætíð dæmd til að verða mjög dýr. Staðan á heimsmarkaði gæfi hins vegar tækifæri. Taldi jafnvel að stefnumörkun LK um lækkun heildarframleiðslukostnaðar sem nemur 35% á 10 árum – væri jafnvel ekki nógu drýgindaleg.


Egill Sigurðsson bað um orðið. Taldi iðnaðinn meira en tilbúinn í frekari útflutning og nefndi sem dæmi góðan árangur í útflutningi á skyri. Ræddi fjarlægð frá markaði, verð og kostnað samkeppnisaðila. Allir nágrannar ætla að auka framleiðslu sína frá og með 2015 og stefna á fjarlæga markaði en ætla jafnframt að verja heimamarkað. Nefndi lærdómsríka ferð forsvarsmanna iðnaðarins til nágrannalanda. Ljóst er að þetta verður mjög erfiður markaður fyrir okkur að vinna. Stærstu tækifærin sérstakar vörur eins og skyr – þó dýrt að flytja afurðina flugleiðis t.d. á Bandaríkjamarkað. Nauðsynlegt að láta reyna á útflutning en það verður erfitt. Vandamál að aðeins hluti íslenskra bænda er að framleiða umframmjólk eins og staðan er í dag. Þetta hefur áhrif á hvernig nálgast má viðfangsefnið. Nefndi dæmi um mikla keyrslu tækjabúnaðar í erlendu mjólkurbúi samanborið við slakari nýtingu tækja hér heima í vinnslunni. Sagði nágranna okkar í bændastétt annarra landa ekki skilja umræðu um verndun kúakynja. Allt snúist um hreina og góða vöru en ekki kúakyn. Á þeim grunni vill Egill meina að við eigum einnig að keyra. Mistök væru að kanna ekki möguleika okkar á frekari útflutningi, en það verður alls ekki auðvelt. Fleiri hundruð milljóna þarf til að láta taka eftir sér á markaði,  komast inn. Enn fremur þarf að búa sig undir miklar sveiflur í verði, slíku eru íslenskir framleiðendur ekki vanir. Egill þakkaði R.S. að endingu fyrir gott og þarft erindi. Orðið gefið laust.

Þórir Jónsson þakkaði R.S. fyrir erindi sitt. Velti fyrir sér afdrifum innanlandsmarkaðar og ásýndar greinarinnar ef farið yrði í að framleiða 15-20% yfir greiðslumark til útflutnings? Myndi það ekki enda í erfiðri varnarbaráttu?

Sigurjón Hjaltason þakkaði góð erindi og umræður. Taldi ólíklegt að nýting véla yrði með sama hætti og erlendis. Sagðist ekki myndi fagna jafn mikilli fækkun og stækkun búa og raunin er orðin í nágrannalöndunum. Kom inn á kynjaumræðuna og taldi mörg landkyn búa yfir eiginleikum til að framleiða hollari og í raun betri mjólk en meginframleiðslukynin í dag. Taldi rannsóknir staðfesta sérstaka og góða próteineiginleika íslenskrar mjólkur. Nefndi framleiðslu á vörum eins og Hleðslu. Taldi mjög óraunhæft að lækka kostnað um 35% með því að skipta um kúakyn – á næstu 10 árum. Taldi mikla möguleika liggja í að nýta betur íslenskt rannsóknafólk og hæfileika þess. Sagði okkur vera að framleiða bestu mjólk í heimi og við þyrftum að nýta það betur. Við erum og eigum að nýta sérstöðuna – þar eru peningarnir. Við erum smá og eigum að geta nýtt okkur afburðagóða framleiðslu m.a. með frekari og öflugari rannsóknum.

Fleiri gáfu sig ekki fram með innlegg í umræðuna. 

Jóhann Nikulásson kynnir næsta dagskrárlið, erindi Sigurðar Loftssonar.


5. Staða nokkurra verkefna hjá LK – Sigurður Loftsson.
Byrjaði á að óska verðlaunuðum bændum til hamingju með árangurinn. Þessir aðilar hafi sýnt fram á að hægt sé að bæta reksturinn. Þakkaði R.S. fyrir ágætt erindi og þau umhugsunarefni sem þar komu fram. Það er kostnaðaraðhald sem fyrst og fremst skapar tækifæri fyrir greinina.

Sigurður gerði grein fyrir störfum að verðlags- og afurðamálum greinarinnar. Nefndi og langa bið milli funda verðlagsnefndar og vettlingatök nefndarinnar. Gat um að á síðasta fundi hefðu verið teknir fyrir tveir framreikningar. Breyting á heildarkostnaði til hækkunar hjá búunum um 3,2%. Lýsti innbyrðis skiptingu þessa. Mest munar um hækkun launaliðar en á móti kemur lækkun á vöxtum. Á sama fundi einnig rædd breyting á stuðningsgreiðslum sem segja má að hafi átt að mæta þessari hækkun. Breytingar á verðlagsgrundvelli þaulræddar á síðasta fundi – forsendur til orðnar að endurskoða vaxtaþátt í verðlagsgrunni. Aðila falið að yfirfara forsendur í tíma svo nefndin geti áttað sig á málum. Það hefur verið stefna LK, mörkuð á aðalfundum, að endurskoða verðlagsgrunninn allan í heild sinni. Stemmning þó ekki verið í nefndinni fyrir slíku; þó ákveðið að leita til Daða Más Kristóferssonar að yfirfara forsendur í verðlagsgrunni m.t.t. rauntalna í rekstri.
Athyglivert er að heildar kostnaður nú er um 171 kr/lítra. Nú þegar vantar um 30 kr/lítra að meðaltali til að meðalbúin nái að halda sjó. Nefndin er að störfum. Ýmsar hækkanir hafa þegar verið tilkynntar og annað á leiðinni. Taldi líklegt að þegar áburðarverð skýrðist kæmi til hækkana með vorinu. Engin breyting þó í höfn fyrr en nefndin nær lendingu.
Velta má fyrir sér samhengi helstu aðfanga og mjólkurverðs (Sigurður sýnir graf máli sýnu til stuðnings). Mjólkurverð með hliðsjón af áburði og kjarnfóðri. Líklegar hækkanir á áburði, þegar birt hjá Yara(4-10%). Sigurður sýndi aðra glæru sem sýnir greinilega hvernig aðföng hafa hækkað umfram hækkun á mjólk. Mjólkurverð hangir í að fylgja vísitölu neysluverðs, í því felst augljós krafa um að menn standi sig í rekstrinum.
Uppi hafa verið umræður um að framlengja núverandi samning við kúabændur, m.a. í ljósi aðildarviðræðna við ESB. Framlenging mun klárlega ekki, ef af verður, verða ókeypis frá hendi ríkisins. Er þá e.t.v. æskilegt að fara að hugleiða breytingar áleiðis út úr því kerfi, í þá átt að aftengja stuðninginn framleiðslunni, verður það nauðsynlegt í framtíðinni? Spurði hvort framtíð væri í  kerfi verðlagsákvarðana og starfi þeirrar verðlagsnefndar sem nú er við líði? Þar væru nú uppi háværar efasemdaraddir.
Er eðlilegt að skoða takmarkanir á þeim stuðningi sem eitt býli getur notið? Hver er afstaða okkar þar, þ.e. til takmörkunar á bústærð? Þetta mun koma upp í komandi umræðu, hvort heldur vegna framlengingar á núverandi samningi og/eða á öðrum vettvangi.
Einn liður í núgildandi mjólkursamningi er m.a. minna markaðstruflandi greiðslur, hluti sem bætt var inn 2004-2005. Þessi liður átti að vaxa á tímabilinu en fjármagnsfærsla inn í hann hins vegar stöðvuð árið 2009; eftir það engin frekari yfirfærsla inn í þennan flokk. Talan hefur því staðið í stað, 178 milljónir. Allar skerðingar eiga að vera gengnar til baka á árinu 2013. Þá þarf að taka þetta mál upp að nýju og finna fleiri leiðir. Gott að velta vöngum yfir þessu. Er rétt og æskilegt að færa meira fjármagn yfir í svo nefndar grænar greiðslur? Mest af þessu fjármagni fer til bænda gegnum jarðræktargreiðslur, auk þess hefur verið greitt til kynbótaverkefna og hluti til þróunarverkefna. Samkvæmt samkomulagi átti að veita 25 milljónum úr þessum flokki til nýliðunar í bændastétt. Afgreiðsla þessa máls hefur tafist, einkum vegna anna í ráðuneytinu. Helst hefur verið horft til þess að greiða gegnum skýrsluhaldsskil til skilgreinds hóps. Ekki auðvelt að greina eða skilgreina hvaða hópur á í raun að njóta þessara greiðslna. Nauðsynlegt þó að átta sig á aldursskiptingu starfandi kúabænda. Aðeins 1% starfandi kúabænda undir 30 ára, stærstur hlutinn milli 40-60 ára. Yngra fólkið almennt með stærri bú samkvæmt lauslegri athugun. Hvernig á svo að fara með lögaðila eins og skólabú og einkahlutafélög, í mörgum tilfellum hafa einkahlutafélögin orðið til einmitt við aðilaskipti/kynslóðaskipti í framleiðslunni? Þetta kann að verða snúnasta atriðið, þ.e. að greina raunverulega þennan hóp og hverjum ber að fá þessar greiðslur. Aldursdreifing starfandi bænda í Danmörku sýnist ekki ólík okkar  en ending íslenskra bænda þó betri. Unnið er áfram að útfærslum í samvinnu við ráðuneytið.
Sigurður vék að framleiðslu á kjöti. Mikill innflutningur árið 2011 á nautakjöti, að líkindum svipað og metár 2006. Athyglivert er að K-flokkar hafa stigið meira í verðum en ungnautakjötsflokkar, þetta þykir sérstakt. Verð hafa þó almennt þróast jákvætt. Sigurður sýndi ýmsar glærur máli sínu til stuðnings. Heildarverðmæti áætlað 1,9 milljarðar króna árið 2011. Áætlað verðmæti innflutnings um 460 milljónir króna og mun hækka enn. Æskilegt væri að stærri hluti hefði endað hjá íslenskum bændum. Fátt bendir til þess að viðsnúningur sé að eiga sér stað í þessu efni samkvæmt ásetningstölum. Hvaða möguleikar eru þá fyrir hendi? Frekari ásetningur til eldis myndi þó ekki duga til að uppfylla kröfur/þarfir markaðar um magn bestu bita  s.s. lundir.
Nefnd er að störfum sem hefur á sínu borði að skoða leiðir til innflutnings á nýju erfðaefni til kjötframleiðslu. Önnur leið myndi vera að bæta hið íslenska kyn m.t.t. kjötsöfnunar, að líkindum er þetta síður fær leið og mun seinlegri en sú fyrri.
Í þessu samhengi öllu er áhyggjuefni að tollar hafa lækkað á innflutt nautakjöt, sökum þess að innlendir framleiðendur önnuðu ekki eftirspurn. Búið er að framlengja þessa lækkun fram í júní á þessu ári. Er þessi lækkun komin til að vera eftir þennan langa tíma? Mun hún ekki að sama skapi þvælast fyrir æskilegri verðþróun á íslensku kjöti? En…. fyrst er að auka framleiðsluna.
Mikil umræða hefur verið um MAST, málefni eftirlits og aðfanga. Umræðan verið sérstök en stórmerkilegt að ekki skuli hafa verið gerð opinber gögn um kadmíum í áburði, notkun iðnaðarsalts o.fl. Einnig hafi komið fram pínleg svör frá MAST við mönnun svæða m.t.t. dýralæknisþjónustu þar sem ýmislegt virðist í ólestri. Taldi að FK myndi fara fram á endurskoðun allra verkferla hjá stofnuninni. Sigurður þakkaði fyrir sig að kvaðst fús að svara spurningum.

Jóhann Nikulásson gefur orðið laust…… enginn kvaddi sér hljóðs svo að fundarstjóri gerir kaffihlé í 20 mín.

Fundarstjóri kallar til fundar að nýju og gefur orðið laust….

Birkir A.Tómasson biður um orðið. Þakkaði fram komin erindi, einkum fróðlegt erindi R.S. Sagði umræðu um kúakyn öðru fremur hafa kveikt í sér. Ræddi verðhækkun áburðar miðað við verðhækkun kjarnfóðurs. Getur það verið að bændur séu almennt og jafnvel óafvitandi að kaupa lakari og í raun innihaldsrýrari kjarnfóðurblöndur sem svo kemur niður á efnainnihaldi mjólkur?
Birkir lýsti vonbrigðum sínum með störf verðlagsnefndar. Taldi vandséð að skynsamlegt væri að framlengja mjólkursamning þegar verðlagsnefnd hækkar ekki verð þrátt fyrir skýrt reiknaða og fram komna þörf. Ræddi nýtt kjötmat, EUROP. Taldi ólíklegt að það gæti nýst hefðbundnum kúabændum. Ræddi nýja lyfjareglugerð sem hann taldi stórslys, einkum skráningu lyfjanna og alla þá pappírsvinnu sem henni fylgir. Sagði MAST fara með rangt mál þegar stofnunin segir skylt að taka upp alla þessa skráningu. Hvenær á að stoppa í þessu eftirlitskjaftæði? Finnst vanta meiri umræðu um alla þá eftirlitsaðila sem koma árlega á búin, spyrjandi sömu spurninga í löngum röðum. Eiga eftirlitsaðilar að verða jafn margir og starfandi bændur?
Birkir sagðist ekkert hafa á móti þeim sem vilja búa með hið íslenska kúakyn – geri þeir það sem vilja. Vitnaði til hagfræðings sem sagði engan fjárhagslegan ávinning af ræktun íslenska kúakynsins undangengin 10 ár. Sagði íslenska mjólk góða en kvað ósannað að annað kyn myndi ekki mjólka jafn góðri mjólk hér heima. Er eðlilegt að endurnýja 50% kúa á búi innan ársins? Stærsti sparnaðarliður væri að minnka fjölda kvígna í uppeldi, með nýju og hagkvæmara kyni. Við verðum að fara að finna þessar leiðir til sparnaðar, við getum ekki fylgt tilfinningunum í þessu efni!

Jóhann Nikulásson bað Sigurð Loftsson að svara fram komnum spurningum í erindi B.A.T.

Sigurður Loftsson sagðist ekki treysta sér til að fullyrða um hvort bændur séu almennt að gefa lakara kjarnfóður nú en fyrr. Fóðurverð hefur fylgt hneigð í verðlagi á aðföngum til fóðurgerðarinnar. Taldi þetta þó ekki líklega skýringu á efnaminni mjólk almennt. Menn hafi fremur gengið of langt í að spara; sparað sér til tjóns. Sigurður sagði enga valkosti uppi nú, annað hvort núverandi verðlagsnefnd og/eða enga verðlagsnefnd. En hvað tekur þá við? Væntanlega markaðurinn sjálfur með aðkomu stjórnvalda. Ákvarðanir nefndarinnar hafi til þessa og muni áfram fyrst og fremst snúast um pólitík. Rekin er ákveðin verðpólitík og við hana eru fulltrúar nefndarinnar að slást. Eitthvað kæmi vissulega í staðinn, hugsanlega að slaka á tollum, setja mjólkuriðnað undir samkeppnislög? Hvað er rétt stefna frá okkar hendi? Þrýstingur utanaðkomandi aðila á stjórnvöld er ærinn. Þó okkur finnist oft ekki ganga vel og að  varan sé ekki verðlögð með réttum hætti, þá hljótum við að velta fyrir okkur hvort annað umhverfi sé í raun betra eða líklegt til að skila okkur því sem við viljum. Eðlilegt hins vegar að við veltum þessu fyrir okkur innbyrðis.
Sigurður  sagði að ákvarðað hefði verið að stefna að upptöku EUROP-matsins. Það myndi skapa betra mat á þessa vöru þó að fyrir stærstan hluta kjötframleiðandanna gerði þetta litla lukku. Sigurður taldi upptökuna ekki myndu notaða til að lækka verðið. Taldi kjötvöntun og innflutning gera mun meiri skaða. Upptaka kerfisins var niðurstaða aðafundar og málið er í vinnslu. Sigurður Loftsson sagðist segja pass í umræðu um kúakyn.

Fundarstjóri opnar á liðinn önnur mál.  Einar Sigurðsson, forstjóri MS og Auðhumlu, bað um orðið.

Einar Sigurðsson þakkaði fyrir boð á fundinn ár frá ári. Sagðist fá smá kvíðakast þegar menn segjast sjá fyrir sér stórfelldan og einfaldan útflutning. Hann taldi málið snúnara en svo; nú 8-10% af framleiðslunni, mest smjör og duft. Þetta er mjög sveiflukenndur markaður þó vel hafi gengið í fyrra, það er ekki á vísan að róa. Vel hefur gengið með skyrið, á þessu ári líklega um 400 tonn. Margfalda mætti skyrútflutning án meiri mjólkurframleiðslu með því að ganga á duftið. Finnland hefur komið sterkt inn en Bandaríkjamarkaður verið stöðugur um 6 ára skeið. Þessir peningar eru ekki að detta í lófann á okkur. Engu að síður eigum við að sinna þessum tækifærum. Verðlagning á umframmjólk í fyrra endurspeglar gang mála í útflutningnum. MS getur ekki tekið á sig slagsíðu á þessu sviði líkt og áður hefur gerst. Nú er verið að skoða og reikna fyrir komandi ár. Við gætum sexfaldað skyrútflutning án þess að inn komi fleiri lítrar (duftið).
Einar sagði MS stöðugt að leita leiða til hagræðingar. Taldi að fyrirtækið myndi skila hagnaði á árinu 2011, að líkindum nálægt 1% af veltu. Nokkrar fjárfestingar nú í kortunum. Haldið verður áfram að einfalda starfsemina og sérhæfa búin en þar erum við byrjendur. Markmið jafnvel að hafa aðeins eina framleiðslutegund á hverjum stað. Stefna að því að verða samkeppnisfær miðað við önnur matvæli, keyra niður kostnað í vinnslu. Besta dæmið um árangur er t.d. aksturskosnaður sem er nú (2011) sá sami og var árið 2008  – þrátt fyrir breytt og erfið ytri skilyrði og misvinsælar aðgerðir. Þessu ferli ekki lokið. Þetta er nauðsynlegt til að halda rekstrinum réttu megin og það mun takast á árinu 2011 þrátt fyrir ýmsa neikvæða parametra. Þakkaði aftur fyrir að fá að taka þátt í starfi fundarins, fá að fylgjast með.

Jóhann Nikulásson þakkaði Einari og kynnti niðurstöður kosninga (kjör fulltrúa á aðalfund LK – sjá fyrr í fundargerð).

Þórir Jónsson bað um orðið. Hrósaði ágætum umræðum en yfirveguðum. Sagði gríðarmikla breidd í framleiðsluháttum og ljóst að töluverður hluti bænda ætti sóknarfæri í magni og kostnaðarstjórnun. Sagðist hugsi yfir fram komnum erindum. Vildi nefna í tengslum við orð Birkis A. Tómassonar að fundað hefði verið með MAST. Stjórnendur MAST vildu meina að bændur gætu haft áhrif á framkvæmdina. Það mun vera vilji til þess að sameina ýmsar heimsóknir eftirlitsaðila. Þórir taldi fulla þörf á stjórnsýsluúttekt á störfum MAST. Sagði, eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, að oft væri komið að framkvæmdinni þegar menn loksins opna og lesa þann bókstaf sem til stendur að fylgja í framkvæmdinni. Þessum málum hreint ekki lokið.
Þórir sagði að fyrir lægi tillaga um gamalkunnugt efni sem þó væri jafn mikið stórmál og í upphafi, þegar málið fyrst komst í umræðu. Þórir les upp tillögu að ályktun fundar (tillögu stjórnar Félags kúabænda á Suðurlandi):

„Tillaga samþykkt á aðalfundi FKS 30.01.2012
Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn 30. janúar 2012 í Árhúsum á Hellu leggur áherslu á að ráðherra landbúnaðarmála beiti sér fyrir því að tekið verði til þinglegrar meðferðar að nýju, frumvarp um breytingar á ákvæðum laga sem varðar markaðssetningu mjólkur utan greiðslumarks. Til að styrkja ákvæði um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað þannig verði óvissu um framleiðslu og afsetningu mjólkur utan greiðslumarks eytt og að allir framleiðendur sem og afurða-stöðvar verði jafnir fyrir þeim lögum og reglum sem í gildi eru.

Greinargerð:
Öll framleiðsla á lögbýli, bæði sem seld er í afurðastöð og heimaunnin mjólk telst með í uppgjöri greiðslumarks fyrir viðkomandi lögbýli samkvæmt útgefinni reglugerð.
Heimavinnsla mjólkur og sala fer nú vaxandi og það er eðlilegt að tölulegar upplýsingar liggi fyrir um þá vinnslu. Þeim framleiðendum sem ætla að fara út í heimavinnslu eða eru komnir af stað er enginn greiði gerður með því að óvissa ríki um mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks. Hér er ekki verið að leggja stein í götu heimavinnslu en sú framleiðsla sem og önnur þarf að fara að þeim leikreglum og lögum sem eru í gildi.
Vöntun á úrræðum til að tryggja ákvæði búvörulaga um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkaði getur valdið miklu uppnámi ef miklu magni mjólkur utan greiðslu-marks verður beint inn á innanlandsmarkað.
Sunnlenskir kúabændur leggja áherslu á að frumvarp sem styrkir forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað verði lagt fyrir Alþingi sem fyrst.
Stjórn Félags kúabænda á Suðurlandi“

Fundarstjóri les tillöguna og greinargerð að nýju – samkvæmt beiðni úr sal.

Tillagan borin upp af fundarstjóra og samþykkt samhljóða með handauppréttingu. Orðið laust að nýju. Ólafur Kristjánsson biður um orðið.

Ólafur Kristjánsson þakkar fróðleik og skemmtilegt efni. Finnst þó þurfa að hnykkja á því eftirlitsfargani sem verið sé að demba yfir bændur. Nefndi sérstaklega skráningu á dýralyfjum sem leggst þungt á dýralækna. Sagði starfsfólk MAST lýsa þessu sem kröfum ESB en er það að fullu satt og rétt? Væri ekki rétt að kalla saman nefnd sem gerði úttekt á eftirlitsumfanginu og  gæti aflað sér upplýsinga um það hvort sambærilegar reglur séu í gildi annarsstaðar, svo svara megi þessum kröfum fullum hálsi.

Arnheiður D. Einarsdóttir biður um orðið. Finnst ótrúlegt einmitt hvað kúabændur séu almennt yfirvegaðir þrátt fyrir allt sem yfir þá gengur. Lýsti miklum vonbrigðum sínum með salt- og kadmíumuppákomur nýverið. Sagði bændur ekki með nokkru móti geta treyst þessu eftirliti. Upplýsingarnar hefðu verið faldar um kadmíuuminnihald í áburði. Allt virðist stefna í að við þurfum eftirlit með eftirlitinu…… til að tryggja að við fáum upplýsingarnar!! Getum við treyst því að kjarnfóðrið sem við gefum sé í raun af þeim gæðum sem okkur er tjáð? Þarf BÍ og ráðgjafaþjónustan að kíkja á þetta?
Arnheiður ræddi efnainnihald í mjólk. Er í raun eitthvað sérstakt í íslenska kúakyninu eða snýst þetta um fóðrunina? Þarf ekki að svara þessu…. þarf ekki að skoða betur áhrif fóðrunar á mjólkina? Er þetta fóðrið eða íslensku kýrnar? Sagðist hafa verið spennt að hlusta á erindi Runólfs Sigursveinssonar. Sagði R.S. hafa opnað þessa umræðu fyrir alvöru, þ.e. hvort meiri útflutningur væri fýsilegur kostur. Hlakkaði til að heyra framhaldið. Sýndist, með hliðsjón af góðri fundarsókn, að bændur væru að þjappa sér saman að nýju, sem mikið hefði vantað upp´á á undangengnum árum. Já – nú getum við aftur vænst þess að fá góða fundi með kröftugum og nauðsynlegum umræðum; þetta kannski einn af fáum kostum kreppunnar. Taldi bændur verða að skiptast kröftuglega á skoðunum til að leiða greinina fram á veg. Hvatti þá sem hér hefðu tekið til máls að koma skoðunum sínum á framfæri í Bændablaðinu. Bað menn m.a. að fara fram með spurningar um efnainnihald í mjólk.

Fundarstjóri þakkaði Arnheiði fyrir. Sigurjón Hjaltason bað um orðið.

Sigurjón Hjaltason tók undir orð Ólafs Kristjánssonar með að  full ástæða væri til að setja á laggirnar nefnd til að  fara ofan í saumana á síauknum eftirlitsiðnaði og vaxandi kröfum til skráningar dýralækna. Varðandi kúakynið og sérstöðu þess bar Sigurjón fram spurningu um hvort fólk vildi borga meira fyrir okkar íslensku mjólk? Já svo er að mínu mati – ef eitthvað stendur á bak við það; efnainnihald og sérstaða. Vísaði til góðra rannsókna frá því um 2000, niðurstöður varðandi sykursýki og prótein sem vinna gegn ofnæmi. Margar próteingerðir virðast neyslujákvæðar í okkar kyni samanborið við önnur. Sagði okkur eiga góða möguleika með kaupvilja almennings á hærra verði – ekki síst ef við næðum að þróa rannsóknir og meiri þekkingu áfram. Ef við yrðum með sömu kúna og kollegar í nágrannalöndum myndu allar stíflur bresta og innflytjendur ekki hika. Sigurjón sagði fóðrunina a.m.k. hafa mikil áhrif á fituinnihald. Vert væri að skoða betur semhengi fóðrunar og efnainnihalds í mjólk. Framleiðum áfram sérstaka vöru á háu verði.

Jóhann Nikulásson þakkaði Sigurjóni fyrir. Daníel Magnússon bað um orðið.

Daníel Magnússon þakkað mjög góð erindi. Vildi vekja athygli á frétt um nýjan búfjársjúkdóm sem virðist kominn upp í Þýskalandi og leggst þannig á búfé að fóstur drepast auk þess sem afurðir falla. Taldi staðfest þekkingarleysi dýralæknis á þessum uppkomna sjúkdómi sönnun á því að eftirlitsiðnaðurinn stæði sig engan veginn. Sagði farir sínar ekki sléttar varðandi skil á forðagæsluskýrslum, löngu búinn að skila en þó kvartað um að ekkert hefði borist stofnuninni. Taldi MAST alltaf vinna á grunni reglugerða sem ekki stæðist ef mál færu fyrir dóm.  Sagðist á móti því að flytja inn nýtt kúakyn. Taldi gott kúakyn forsendu þess að Hraunkotsbóndi hefði nú bætt Íslandsmet hans í afurðum. Möguleikar kynsins væru klárlega fyrir hendi. Ræddi breytingu á reglum um einstaklingsmerkingar gripa, þ.e. að setja merki í bæði eyru. Taldi þetta ekki standast þar sem ekki sé lagaheimild fyrir, aðeins reglugerð.

Fundarstjóri þakkar Daníel fyrir og óskar eftir fleiri innleggjum til fundarins en enginn gaf sig fram.

Jóhann Nikulásson þakkaði fyrir sig og góðan fund og eftirlét formanni að slíta fundi.

Þórir Jónsson vildi nefna það í lokin að aðalfundur LK yrði haldinn á Selfossi og árshátíð LK að honum loknum. Félagið hefði tilnefnt árshátíðarnefnd sem væri þegar að störfum. Hvatti fólk til að taka þátt og sagði fundinn auglýstan þegar nær drægi (laugardagur 24. mars á Hótel Selfossi). Notaði tækifærið til að þakka þeim sem nú ganga úr félagsráði auk þess sem hann bauð nýtt fólk velkomið. Þakkaði starfsfólki fundar og fundarstjóra fyrir góðan fund. Þakkaði fólki fyrir komuna og sleit fundi.

/Pétur Halldórsson


back to top