Stjórnarfundur HS 1/2012

Fundargerð
Stjórnarfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands

Stjórnarfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands var haldinn í fundarsal Búnaðarsambands Suðurlands, þann 30. janúar 2012, kl. 18:00. Fundinn sátu: Sveinn Steinarsson, María Þórarinsdóttir, Ólafur Einarsson, Sigríkur Jónsson, Katrín Ólína Sigurðardóttir, Ólafur Þórisson, Þórdís Erla Gunnarsdóttir og Halla Eygló Sveinsdóttir.

Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Sýningarfyrirkomulag kynbótahrossa á landsmóti 2012
3. Galsi frá Sauðárkróki
4. Önnur mál

1. Fundarsetning
Sveinn Steinarsson setti fundinn og bauð menn velkomna. Höllu Eygló falið að rita fundargerð.

2. Sýningarfyrirkomulag kynbótahrossa á landsmóti 2012
Fagráð samþykkti eftirfarandi á fundi sínum 16. desember 2012:
-„Í forsýningu verði riðnar að hámarki 8 ferðir á beinni braut í stað 10.
– Á yfirlitssýningu verði riðnir þrír hringir á hringvelli og ein ferð á beinni braut og verði dómur opinn líkt og tíðkast á yfirlitssýningum. Í hverju holli verði að jafnaði þrjú hross.“

Sveinn sagðist bara heyra óánægjuraddir meðal ræktanda og kynbótaknapa varðandi þessa breytingu og aðdraganda hennar, einkum það að færa yfirlitssýningu inn á hringvöll. Hann hefði því talið rétt að heyra hvað stjórnarmönnum fyndist um þetta og hvort HS ætti að blanda sér inn í þessa umræðu. Allir stjórnarmenn lýstu því yfir að þeir væru ekki sáttir við þessa breytingu. Ólafur Einarsson vildi þó ekki fordæma þetta strax, taldi að nauðsynlegt væri að fá nánari útskýringu á því hvernig hringvallarreiðin yrði útfærð. Ákveðið að stefna að opnum fundi um þetta mál í kringum 15. febrúar og fá Kristinn Guðnason formann fagráðs og Guðlaug Antonsson landsráðunaut  á fundinn.

Fagráð samþykkti einnig eftirfarandi varðandi áverka: „Einnig var ákveðið að framvegis verði það regla á öllum kynbótasýningum að hross sem metið hefur verið með áverkastig 2 í dómi hljóti hvorki dómsniðurstöður né verðlaunun. Ef áverki á stigi 2 verður á yfirlitssýningu hlýtur það hross ekki mögulega hækkun einkunnar né heldur verðlaunun jafnvel þó það hafi komið ósárt úr dómi.“

Stjórnarmenn ræddu þetta lítillega og það eina sem menn veltu fyrir sér var hvort að knapinn færi kannski full létt frá þessu. Spurning hvort það er ekki löngu tímabært að birta lista yfir þá knapa sem eru með flestar áverkaskráningar.

Sýningaráætlun kynbótasýninga hefur verið ákveðin og var fullt tillit tekið til óska HS og er það vel. Sýningar verða sem hér segir á Suðurlandi:
Hafnarfjörður 30. apríl til 11. maí
Selfoss 14. maí til 25. maí
Gaddstaðaflatir 29. maí til 8. júní

3. Galsi frá Sauðárkróki
Sveinn las upp bréf frá Ingimari Baldvinssyni þar sem hann óskar eftir því að Galsi verði á Suðurlandi í húsnotkun og á fyrra gangmáli. Hann segist tilbúin til að taka klárinn að sér og trimma hann til í hringekju og á víbragólfi, gegn því að mega nota hestinn. Fundarmenn töldu að þetta væri vel þess virði að skoða þetta. Klárinn hefur ekki verið hér á fyrra gangmáli sl. 4 ár. Sveini falið að ganga til samninga við Ingimar og aðra eigendur Galsa. María lagði á það áherslu að það þyrfti að tryggja að greiðsla fyrir folatolla bærist í HS en Ingimar fengi í sinn vasa þjónustugjöld.

4. Önnur mál
María lagði fram rekstrarreikning fyrir árið 2011. Mikið hefur dregið úr vaxtatekjum sambandsins. HS var rekið með tapi um 300.000 kr, spurning hvort ekki þarf að bregðast við því. Á að hækka félagsgjöldin? Engin ákvörðun tekin þar að lútandi.

Katrín sagð frá því að FEIF yrði með námskeið á Skeiðvöllum í apríl fyrir unga erlenda knapa sem þjálfa og sýna kynbótahross. Slíkt námskeið var haldið í fyrsta sinn í fyrravor og tókst mjög vel. Spurning hvor HS gæti komið að því með einhverjum hætti að þessir nemendur fengju frítt inn á stóðhestadaginn í Ingólfshöllinni. Sveinn sagði að sú sýning væri ekki á vegum HS en benti Katrínu á að hafa samband við Magnús Benediktsson. Hugsanlega gætu þessir nemendur fengið að vera með atriði á sýningunni?

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið um kl. 20:00.

/Halla Eygló Sveinsdóttir


back to top