Frá aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi 30. jan s.l.

Eftir venjuleg aðalfundarstörf og veittar viðurkenningar til fimm þátttakenda í Sunnu-verkefninu sem hafa sýnt hvað bestan árangur í rekstri og bústjórn voru flutt tvö erindi. Ráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands, Runólfur Sigursveinsson, flutti afar íhugandi erindi um framtíð mjólkurframleiðslunnar á Íslandi og Sigurður Loftsson formaður Landssamband kúabænda fjallaði um nokkur mál sem Landsambandið vinnur að. Umræður voru ágætar um erindin og önnur mál. Sjá má fundargerð í heild sinni hér á vefnum, sjá neðar.
Eftirfarandi tillaga var samþykkt á aðalfundi FKS 30. janúar 2012:
„Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn 30. janúar 2012 í Árhúsum á Hellu leggur áherslu á að ráðherra landbúnaðarmála beiti sér fyrir því að tekið verði til þinglegrar meðferðar að nýju, frumvarp um breytingar á ákvæðum laga sem varðar markaðssetningu mjólkur utan greiðslumarks. Til að styrkja ákvæði um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað þannig verði óvissu um framleiðslu og afsetningu mjólkur utan greiðslumarks eytt og að allir framleiðendur sem og afurða-stöðvar verði jafnir fyrir þeim lögum og reglum sem í gildi eru.

Greinargerð:
Öll framleiðsla á lögbýli, bæði sem seld er í afurðastöð og heimaunnin mjólk telst með í uppgjöri greiðslumarks fyrir viðkomandi lögbýli samkvæmt útgefinni reglugerð.
Heimavinnsla mjólkur og sala fer nú vaxandi og það er eðlilegt að tölulegar upplýsingar liggi fyrir um þá vinnslu. Þeim framleiðendum sem ætla að fara út í heimavinnslu eða eru komnir af stað er enginn greiði gerður með því að óvissa ríki um mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks. Hér er ekki verið að leggja stein í götu heimavinnslu en sú framleiðsla sem og önnur þarf að fara að þeim leikreglum og lögum sem eru í gildi.
Vöntun á úrræðum til að tryggja ákvæði búvörulaga um forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkaði getur valdið miklu uppnámi ef miklu magni mjólkur utan greiðslumarks verður beint inn á innanlandsmarkað.
Sunnlenskir kúabændur leggja áherslu á að frumvarp sem styrkir forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað verði lagt fyrir Alþingi sem fyrst.“

Sjá nánar:
Fundargerð aðalfundar FKS 30. janúar 2012


back to top