1. fundur 2006

Stjórnarfundur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, haldinn 13. janúar 2006 á skrifstofu Búnaðarsambandsins á Selfossi og hófst hann kl. 11 f.h. Mættir voru stjórnarmennirnir Þorfinnur Þórarinsson, Eggert Pálsson, Guðni Einarsson, Guðmundur Stefánsson, Egill Sigurðsson og Bjarni Hákonarson og Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.


1. Málverkagjöf.
Kynning á málverkagjöf frá Lánasjóði landbúnaðarins. Stjórn Búnaðarsambandsins þakkar fráfarandi stjórn og starfsmönnum Lánasjóðsins þessa höfðinglegu gjöf og gott samstarf á umliðnum árum.

2. Rekstur Búnaðarsambandsins.
Sveinn fór yfir tekjulækkun til búnaðarsambandanna, sem fyrirsjáanleg er bæði vegna lækkunar á framlögum vegna búnaðarlagasamnings og lækkandi sjóðagjalda og einnig útgjaldaauka sem stafar af nýgerðum kjarasamningum. Talsverðar umræður urðu um vinnumagn við einstaka verkþætti í tengslum við uppruna tekjustofna.

3. Leiðbeiningar í nautgriparækt.
Til fundarins voru mættir forsvarsmenn kúabænda á Suðurlandi, þau Sigurður Loftsson, Jóhann Nikulásson og Katrín Birna Viðarsdóttir. Farið var yfir leiðbeiningar og önnur störf í þágu nautgriparæktarinnar með hliðsjón af sjóðagjöldum og öðrum búgreinatengdum tekjum vegna nautgriparæktarinnar. Ljóst er að nautgriparæktin er langstærsta búgreinin og leggur mest til hvað  búnaðargjaldið varðar. Rætt var um að taka út þá verkþætti sem eru grundvallaðir á mörkuðum tekjustofnum og greina þá verkþætti sem réttlæta gjaldtöku sem einstaklingsmiðuð ráðgjöf. Þá var rætt um framþróun verkefna á borð við Sunnu-verkefnið og einnig um yfirstandandi átaksverkefni í mjólkurframleiðslu og mismunin á eðli þessara leiðbeiningaaðferða.

4. Nautauppeldisstöðin.
Sigurður ræddi um þá ákvörðun BÍ um leggja af Nautauppeldisstöðin í Þorleifskoti og byggja nýja annars staðar og hvort um það hafi verið rætt við Búnaðarsambandið. Fram kom að ekkert samráð hefur verið haft af hálfu BÍ. Engar forsendur eða rök fyrir ákvörðunni hafa verið kynntar og stjórnarmenn lýstu andstöðu sinni á þessari málsmeðferð.

5. Kynbóta- og þróunarfé.
Farið var yfir það hvernig framlög af kynbóta- og þróunarfé til sæðingastarfseminnar hafi skilað sér.

6. Félagsleg uppbygging Búnaðarsambands Suðurlands. 
Sigurður lagði áherslu á að hugað sé félagsgrunni Búnaðarsambandsins og reynt sé að virkja aðildarfélögin til starfa og fulltrúar þeirra komi virkari inn á aðalfund Búnaðarsambandsins. Fram kom að nefnd er starfandi á vegum Bændasamtakanna til að fara yfir félagsaðild og uppbyggingu grunnfélaga að samtökum bænda.

7. Stóra-Ármót.
Sveinn skýrði frá fyrirhuguðum vélaprófunum á Stóra-Ármóti til öflunar votheys.

8. Átaksverkefni í mjólkurframleiðslu.
Þetta verkefni er á landsvísu. Farið hefur verið á allmarga bæi á Suðurlandi, einkum á austurhluta svæðisins og farið yfir stöðuna með bændum.

Forsvarsmenn kúabænda yfirgáfu nú fundinn.

9. Umsókn um staðfestingu gjaldskrár.
Ákveðið að óska eftir heimild til að verðleggja útseldan vinnutíma á allt að 5000 kr. Einnig var metin hlutdeild dóttirfyrirtækja í stjórnunar- og bókhaldskostnaði.

10. Samningurinn við BASK. 
Farið var yfir útkomuna á samningnum við BASK og er ánægja með hann af beggja hálfu.

11. Kynning á BSSL. 
Ákveðið að bjóða frumbýlingum í kynningu til Búnaðarsambandsins.

12. Varsla sjóða. 
Sveini falið að breyta um ávöxtunarleið hjá LÍ.

13. Sauðfjársæðingastöðin.
Sveinn skýrði frá því að útlit væri fyrir góðan árangur af sæðingunum í vetur. Ákveðið að huga að því að taka aukið húsrými til nota undir hrútana.

14. Aðalfundur 2006.
Ákveðið að halda aðalfund Búnaðarsambandsins 21.apríl. Sveini falið að athuga með fundarstað og auglýsa fundinn.


Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt.


Guðmundur Stefánsson, fundarritari


back to top