Aðalfundur FKS 13. feb. 2006

Aðalfundur FKS 13. febrúar 2006 haldinn í Árhúsum Hellu kl. 12:00.


Formaður Siguður Loftsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna, hann útskýrði nýtt fyrirkomulag kosninga en stjórn skipaði kjörnefnd, sem setti upp lista með fólki sem áhuga hefur að starfa í félagsráði og um þau nöfn verður kosið, ásamt öðrum hugsanlegum uppástungum síðar á fundinum. Eins mun laganefnd leggja fram tillögu sína.
Formaður gerði tillögu um starfsmenn fundarins, Egil Sigurðsson fundastjóra og Katríni Birnu Viðarsdóttur ritara og var það samþykkt.


1.Skýrsla stjórnar.
Formaður las ársskýrslu stjórnar, (sjá skýrslu formanns 2005).


2.Reikningar.
Jóhann Nikulásson gjaldkeri sagði að árgjöldin miðist nú við 30 l. í mjólk samkvæmt ákvörðun síðasta aðalfundar félagsins. Rekstrarhagnaður félagsins var 6.190 krónur og eignir í árslok 452.050 kr.


Fundarstjóri gaf orðið laust um árskýrslu og reikninga. Enginn kvaddi sér hljóðs og var þá reikningur borinn upp, samþykktur samhljóða.


3.Kosningar.
Fundarstjóri gerði tillögu um að varamenn yrðu þeir sem næstir væru eftir aðalmennina. Samþykkt.
Formaður lagði til að kjörnefnd ásamt Runólfi Sigursveinssyni myndu sjá um talningu og var það samþykkt samhljóða.


Lista var dreift með nöfnum þeirra sem gefa kost á sér í félagsráð 2006 alls 20 nöfnum en kjósa á 9 nöfn til tveggja ára. Fundarstjóri óskaði eftri fleiri uppástungum, en þær voru engar. Þá var gengið til kosninga
Niðurstöður kosninga í félagsráð:
Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey
Katrín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála
Sigurður Loftsson Steinsholti
Birna Þorsteinsdóttir Reykjum
Grétar Einarsson Þórisholti
Ágúst Dalkvist Eystra Hrauni
Ólafur Kristjánsson Geirakoti
Guðbjörg Jónsdóttir Læk
Bóel Anna Þórisdóttir Móeiðarhvoli 2


Til vara: Sveinn Ingvarsson Reykjahlíð
Brynjar Sigurðsson Heiði
Björn Harðarson Holti.


Þá var lista dreift með nöfnum fólks á aðalfund LK 2006, á listanum voru 19 nöfn en 8 menn skulu kosnir. Fundarstjóri óskaði eftir frekari uppástungum, en engar bárust. Þá var gengið til kosninga



Niðurstöður kosninga fulltrúa á aðalfund LK:
Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey
Katrín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála
Grétar Einarsson Þórisholti
Sigurður Loftsson Steinsholti
Birna Þorsteinsdóttir Reykjum
Sveinn Ingvarsson Reykjahlíð
Einar Haraldsson Urriðafossi
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir Nýjabæ

Til vara:
Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ
Gunnar Eiriksson Túnssbergi
Sigrún Ásta Bjarnadóttir Stóru Mástungu
Arnheiður Dögg Einarsdóttir Guðnastöðum
Ágúst Dalkvist Eystra Hrauni
Ólafur Kristjánsson Geirakoti
Ólafur Helgason Hraunkoti
Kristinn Guðnason Þverlæk


Kosning 5 fulltrúa á aðalfund BSSL og 5 til vara.
Formaður lagði fram tillögu stjórnar:
,,Stjórn leggur til við aðalfund að umræddir fulltrúar verði kosnir af félagsráði samhliða stjórnarkjöri á næsta fundi þess. Fulltrúarnir verði kjönir úr hópi félagsráðsmanna og verði kosningin leynileg.”
Tillagan samþykkt samhljóða.

Kosning 2 skoðunarmanna reikninga og 2 til vara:
Fundastjóri sagði að Páll Lýðsson gæfi ekki kost á sér og gerði grein fyrir tillögu um skoðunarmenn:


Guðmundur Lárusson Stekkum
María Hauksdóttir Geirakoti

Til vara:
Rútur Pálsson Skíðbakka
Daníel Magnússon Akbraut

Samþykkt samhljóða.


4.Framkvæmd gripagreiðslna o.fl.
Baldur Helgi Benjamínsson, nýráðinn framkvæmdastjóri LK.
Baldur Helgi kynnti sig og sagðist vel kunnur greininni enda hefði hann starfaði áður sem ráðunautur hjá BÍ og væri auk þess borinn og barnfæddur sveitamaður.
Síðan kynnti hann einstaklingsmerkingakerfið “Mark”. Sagði hann að engar breytingar hefði orðið hjá þeim sem halda mjólkurskýrslur en aðrir eigendur nautgripa þurfi að skrá í hjarðbók eða beint í “Mark”.
Síðustu áramót marka upphaf að viðmiðun á gripafjölda vegna gripagreiðslna til kúabænda.
Fjárhæðin í gripagreiðslurnar eru nú 428 millj. sem skiptist á allar bornar kýr í landinu og að einstaklingsmerkingarnar eru sönnun bænda um eign og fjölda kúa. Eiga þeir að fá greitt samkvæmt þeim kúafjölda sem “Mark” gefur upp. Baldur fór yfir reglugerðina m.t.t. hámarksfjölda fyrir fulla greiðslu og stiglækkandi fyrir fleiri kýr.
Spurt var úr sal; hvort yrði ekki svindlað á þessu, hvort skráin væri rétt, hvernig gripagreiðslan yrði greidd, hvort hægt væri að hafa gelda kú lengi inn á skránni og hvort sláturhúsin væru tilbúin og farin að skrá merkin úr gripunum?


Baldur Helgi taldi það erfitt að svindla færri kúm með það eftirlit sem væri á búunum.
Hvatti hann bændur að fara inn í “Mark” og kanna hvort skráin þar væri ekki rétt, taldi hann mánaðarlegar greiðslur líklegar, greitt verður fyrir gelda kú svo lengi sem hún lifir, en sagðist ekki vita til að sláturhúsin væru farin að skrá þetta markvisst og það væri Yfirdýralæknisembættið sem yrði að ganga úr skugga um það og loka hringnum svo allt gengi rétt fyrir sig. Kerfið virkar ekki sem skyldi ef sláturhúsin skrá ekki slátraða gripi.


Fundarmenn ræddu um að skráning hjá sláturhúsum væri ekki framkvæmd og sumir lýstu óánægju með merkin sem væru illlesanleg eftir nokkurn tíma í gripnum. Einnig var spurt hvort aðilar að Mjólku skráðu sína gripi.


Baldur Helgi sagðist ekki vita betur en merkin væru betri og sagði að allar kýr í landinu ættu að vera skráðar þannig að Mjólka hljóti að gera það einnig en sagðist ekki hafa athugað það neitt sérstaklega.
Hann sagði að mikill munur hefði verið á milli Íslands og Danmerkur hvað ættfærslu varðar, Íslendingar með 50-60% en Danir með 90% skráningu, og bændur eigi heimtingu á að þetta lagist. Þá kom hann líka inn á að greinilegt væri að ættfærslur þeirra kvígna sem komið hefðu í heiminn frá því einstaklingsmerkingar voru teknar upp, væru betri en áður. Þetta hafi verið ein af megin röksemdunum með upptöku merkinganna og hún hafi gengið eftir.


Þá fór Baldur yfir mjólkur- og nautgripakjötsmarkaðinn.
Lýsti verðþróun á nautgripakjöti undanfarna mánuði, sem hefði fari mjög hratt upp á við en telur að verð fari ekki mikið hærra, á síðastliðnum þremur árum hefur hækkunin verið um 55%. Mikil eftirspurn sé á hakki og hakkefni.
Hann lýsti áhyggjum yfir fækkun kúnna á sl. ári og segir aðeins aukningu á ásettum nautkálfum.
Mjólkurinnlegg er á uppleið en telur mikið þurfa enn og vill sjá að sumarbeitinni verði enn frekar sinnt. Þar séu helstu sóknarfærin í framleiðsluaukningunni. Einnig finnst Baldri Helga nauðsynlegt að greiðslufyrirkomulag vegna umframmjólkur verði sem fyrst ljóst og að gefið sé fyrr til kynna ef vantar mjólk.


Hlé gert á fundi, boðið uppá kaffi og meðlæti í boði FKS.


Fundastjóri opnaði umræður um fyrirlestur Baldurs Helga Benjamínssonar.

Pálmi Vilhjálmsson framkvæmdastjóri SAM þakkaði fyrir fundinn og fór yfir stöðuna í framleiðslunni og sagði á síðustu 12 mánuðum hefði sala á próteingrunni verið 113,3 milljónir lítra meðan framleiðslan var einungis 109,5 milljónir lítra. Sagði hann að sem betur fer hafi framleiðslan verið að aukast síðustu vikur og hvatti til enn meiri aukningar og þá ekki síst að vanda sumarbeitina.
Um áramót voru ostabirgðir í lagi en duftbirgðir og aðrar alveg á mörkunum, hefði viljað sjá þær betri. Grundvallaratriði að fá nóga mjólk í sumar, vonar að aukagreiðslurnar hafi áhrif og segir 116 milljónir lítra væri æskilegt því birgðir þurfa að aukast.
Telur að of fáir gripir séu í framleiðslunni og nauðsynlegt sé þegar bú hætta í framleiðslu, að gripir frá þeim búum verði flestir seldir til lífs og haldi áfram í framleiðslu. Eins verði kúabændur að spyrja sig þeirrar spurningar hvort íslenski kúastofninn hafi getu til að sinna markaðnum á komandi árum og hvort stofninn sé í raun sjálfbær.
Duftbirgðir þurfa að vera um 300-350 tonn svo hægt sé að vera viðbúinn ef eitthvað kemur upp á.
Skilaboð til bænda eru skýr, greitt er fyrir próteinþáttinn úr allri umframmjólk og spurningin jafnvel hvort ekki verður greitt eitthvað meira.
Pálmi segir mikinn þunga í þjóðfélaginu undanfarið vegna verðsamanburðar á matvörum, en segir sér virðist aðeins lesið öðru megin á samanburðarblöðin. Hin hliðin sýni svart á hvítu að kornvörur hér séu t.d. 67% dýrari hér en í Evrópusambandsríkjunum, en landbúnaðarvörur almennt 46% dýrari samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.
Sagði hann að skýra þurfi fyrir landsmönnum hvers vegna dýrara sé að framleiða vöruna hér á landi.
Pálmi segir próteinhlutfall mjólkur hafa hækkað en fita lækkað sem sé jákvætt því þörfin fyrir prótein sé meiri.

Sigurlaug í Nýjabæ þakkaði skýrslu stjórnar. Hún vill að félagsráð fundaði oftar með forsvarsmönnum Búnaðarsambandsins, en ekki einungis stjórnin.
Vildi hún fá því breytt að Rangár- og V-Skaftafellsýslur séu gefnar upp sameiginlega í niðurstöðum nautgripaskýrsluhaldsins. Eðlilegra sé að þær séu gerðar upp hvor í sínu lagi eins og Árnessýsla. Þakkaði hún Baldri Helga fyrir sitt innlegg á fundinn og óskar honum alls hins besta sem framkvæmdarstjóri LK.

Brynjólfur Kolsholtshelli veltir fyrir sér hvort hækka eigi greiðslumarkið og vill sjá umbun fyrir þá sem auka framleiðsluna. Spyr hvort að námskeið um sumarbeit séu ekki á næstunni eða hvatning til betri sumarbeitar.

Runólfur Sigursveinsson segir næstu skref í ráðgjöf í framleiðslumálum og beitarmálum verði ítarleg umfjöllun um sumarbeit í Bændablaðinu og einnig verði það tekið fyrir á deildarfundum MS og í framhaldi af þeim boðið upp á heimsóknir.
Segir fituinnihald mjólkur á Suðurlandi síðustu mánuða lægra en annarsstaðar en jafnframt hefur framleiðslan aukist mest á landinu síðustu vikur á Suðurlandi sem sennilega stafar af sterkari fóðrun en áður og þá meira magni kjarnfóðurs. Afleiðing þess er m.a. lægri fituprósenta í mjólk.

Guðni á Guðnastöðum þakkar skýrslu stjórnar og glæsilegt afmælisár sem saman stóð af t.d. málþinginu í Þingborg og afmælisveislunni á Selfossi í tengslum við aðalfund LK á síðastliðnu vori.
Því næst bar hann upp tvær tillögur:


Tillaga I.
“Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi 13.feb. 2006 í Árhúsum, Hellu beinir því til Landssambands kúabænda að fá kjarnfóðurskatt niðurfelldan nú þegar.
Greinargerð
Kjarnfóður á Íslandi er um 50% dýrara en í nágrannalöndum okkar og stafar það af kjarnfóðurtollum til að vernda innlenda fóðurverksmiðjur gegn innflutningi tilbúins kjarnfóðurs. Er raunin sú að aðeins eru tvær fóðurverksmiðjur eftir og virðast þær vera búnar að skipta markaðnum á milli sín. Engin virk samkeppni virðist eiga sér stað og verðmyndun kjarnfóðurs á Íslandi virðist vera úr sambandi við heimsmarkaðsverð á kornvörum og gengi krónunnar.”


Tillaga II.
“Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi 13. feb. 2006 í Árhúsum, Hellu beinir því til Landssambands kúabænda að sækja um heimild til að flytja inn fósturvísa úr erlendu kúakyni. Þeir verði nýttir í tilraun með kynbætur á íslenskum kúm.
Greinargerð
Íslenskir kúabændur eru að verða verulegir eftirbátar nágrannaþjóða okkar með kúakyn þar sem íslensku kýrnar ná ekki að mjólka nærri jafnmikið og stöllur þeirra erlendis, einnig er júgurgerð þeim langt að baki. Vegna lítils ræktunarhóps á Íslandi verður munurinn á okkar kúm og öðrum stórum ræktunarkynjum sífellt meiri. Þetta gerir það að verkum að munurinn á framleiðslukostnaði á Íslandi og nágrannalöndum okkar verður sífellt meiri.”

Grétar í Þórisholti spyr hvað gerist ef ekki er hægt að framleiða nóg af mjólk og hvað gerist ef flutt verður inn duft? Telur það geta orðið okkur dýrt og því þurfi að gera betur í hvatningargreiðslum.

Guðmundur í Stekkum þakkar stjórn mjög vel unnin störf og er ánægður að sjá mætinguna þrátt fyrir fjölmennan fund í Þingborg nýlega.
Sagði hann að afkoma greinarinnar hljóti að vera góð. Við getum endalaust fjárfest í vélum og kvóta en þurfum ekkert að hugsa um þó framleiðsluaðstaðan sé ekki nýtt sem skildi. Telur hann framleiðslustöðuna nú ekkert skemmtiefni, neyslan og eftirspurnin eykst en framleiðslan minnkar. Telur menn of rólega yfir stöðunni, kannski reddist þetta með góðu sumri eða neytendur minnki bara kaupin á mjólkurvörum. Hann telur nauðsynlegt að íhuga hvernig við ætlum að mæta framtíðinni. Á þetta að vera alvöru atvinnuvegur, eða ætlum við að hafa þetta sem einhverskonar menningarstarfsemi? Sagði hann brýna þörf á að bæta kúakynið með innflutningi á erfðaefni, svo bæta megi afkomu og hagkvæmni greinarinnar.

Birna á Reykjum þakkar stjórn velunnin störf, en þó sérstaklega formanni sem hún taldi vinna félaginu vel.
Hún vill að átak verði gert v/sumarbeitar, brýna menn að slátra ekki kvígukálfum því margir eru tilbúnir að kaupa þá. Vildi hún heyra frá fundarmönnum hvað þeim finnist um kosningarfyrirkomulagið?
Lýsir ánægju sinni yfir tillögunni um kjarnfóðurskattinn.
Loks hvatti hún fólk að fjölmenna á árshátíð LK sem verður 8. apríl nk.og panta nógu snemma gistingu.

Guðmundur í Hraungerði telur stöðuna ekki nógu góða hvað varðar “Markið”. Spurði hvort kúastofnar í heiminum væru einhverstaðar fullnýttir og hvort það verði einhvern tíma. Telur þörf að hressa uppá stofninn, en ekki skipta honum út. Vill sjá undirbúning á því hvernig hægt sé að höndla það ef um innflutning yrði að ræða og hvernig vernda eigi gamla stofninn. Á kannski að fara með hann til baka í landnámskynið.
Segir kjarnfóðurskattinn verndarstefnu fyrir atvinnustarfsemi á Reykjavíkursvæðinu.

Daníel í Akbraut segir menn vera að uppskera í það mjólkurframleiðslunni, að menn hafi skorið niður fyrir tveimur árum. Honum finnst BÍ ekki hlusta á sjónarmið bænda í kynbótastarfinu. Írskir bændur segja íslenska bændur ekki frekar geta fóðrað aðrar kýr, ef þeir geti ekki fóðrað sínar eigin.
Miðjuböndin vanti á júgrin á íslensku kýrnar því þegar þær bera öðrum kálfi þá detti júgrað niður. Segist vera á móti innflutningi erfðaefnis.
Vill hafa sér árshátíð hjá FKS og fá fyrirtæki með í það, finnst Sunnlendingar of hlédrægir. Leiðist þegar bændur rakki hvern annan niður, vill að menn tali vel um hvern annan.

Guðni á Guðnastöðum Telur spennandi að skoðað verði hverjir gætu fóðrað erlendar kýr.

Guðmundur í Stekkum. Vill fá svör við því, hvers vegna MS fjárfesti í óskyldum rekstri. Telur hættu á að því muni fylgja krafa um að afnumin verði opinber verðlagning á mjólk og gerð krafa um verulega lækkun á vinnslu- og dreifingakostnaði, úr því svo mikið fé sé handbært frá rekstri.
Komið hefur í ljós að hluti sýna af áburði stenst ekki kröfur Aðfangaeftirlitsins, en er þrátt fyrir það seldur hér án þess að kaupendur viti um hvaða tegundir er að ræða. Vill sjá reglur um þetta og að þeim sé fylgt eftir.
Finnst ótrúlegt að þegar hann skrifaði inn á netið umfjöllun um þetta voru engin viðbrögð en þegar hann skrifaði um stöðu kúakynsins þá stóð ekki á umræðunni.

Sigurjón í Raftholti segir það þurfi að auka framleiðslu og bæta beitina en telur mestu hvatninguna að hækka mjólkurverðið til bænda.
Telur kjarnfóðurskattinn vera m.a. til að vernda innlenda kornframleiðendur og að niðurfelling hans muni hafa mikil áhrif samkeppnisstöðu hvíta kjötsins.
Hann er ekki samþykkur tillögu um innflutning fósturvísa. Segir íslenska mjólk hafa mikla sérstöðu hvað varðar gæði og efnainnihald, sem nauðsynlegt sé að rannsaka enn frekar.

Arnheiður á Guðnastöðum. Segist á báðum áttum hvað varðar innflutning erfðaefnis, segir mjólkina örugglega góða, en vill að örygisþættir séu tryggðir. Telur nauðsynlegt að koma þessari innflutningsumræðu úr skotgröfum og á annað plan upplýsandi umræðu.
Kjarnfóðurmálið, það gerist aldrei neitt, þess vegna skrifaði hún undir tillöguna með þá von að eitthvað gerist.
Mjög ánægð með kosningafyrirkomulagið.

Magnús í Birtingaholti þakkar góðan fund. Segir jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar ekki nógu gott og erfiðlega gangi að finna á því æskilegt jafnvægi. Fyrir nokkrum árum hafi verið hvatt til meiri framleiðslu um þetta leyti, en þá voru fleiri kýr og endirinn varð sá að alltof mikil mjólk barst. Hann vonar að nóg mjólk berist svo ekki þurfi að koma til innflutnings á dufti. Sölustaðan er skoðuð reglulega. Trúir því að ráðunautar og bændur geri eins og hægt er á næstu mánuðum.
Sagði hann stjórn MS gert að ávaxta varasjóði félagsins með sem öruggustum og ábatasömustum hætti og sé það gert með ýmsu móti. 20-25% arður er af rekstri MS nú og telur hann gott fyrir bændur eigi þar góðan bakhjarl. Tekur undir að Aðfangaeftirlitið er ekki í nógu góðu lagi og vitnaði í mál tengd innflutningi grænmetis í því sambandi.

Valdimar í Gaulverjabæ þakkaði stjórn eftirminnilegt afmæli. Tekur undir orð Örnu varðandi umræðu um innflutning erfðaefnis. Ekkert hefur breyst og alltaf sömu ræður hinna andstæðu póla málsins. Einn vill skipta um kúakyn, annar ekki. Hann vill sjá annan vinkil í þessum málum og spurning hvort hæfileg innblöndun á öðru kyni geti verið einhver millileið í þessu. Sjálfur vill hann, komi til þess, sjá kyn af svipaða stærð og nefndi Jersey sem dæmi.
Segist ósammála kaupum MS á Fóðurblöndunni.

Sigurlaug í Nýjabæ tekur undir orð Valdmars um að líta á annað kyn en það norska.
Sagðist hafa verið hissa að skoða nautaskrána og telur þurfa að sinna fyrir alvöru kvíguskoðuninni.

Baldur Helgi segir að það sem á vantar á framleiðsluna snúist ekki um byltingarkenndar lausnir, heldur margt smærra. Betri beitarstjórnun skilar miklu, bætt brynning kúnna getur skilað fáeinum prósentum í aukningu. Hugsanlegur innflutningur færi fram með fósturvísum, þeir komið fyrir í kúm í einangrun og síðan tekið sæði úr nautkálfum, þetta eru þekkt dæmi frá holdanautakynjunum.
Við erum búin að skuldbinda okkur að vernda íslenska kúastofninn. Er hægt að ná miklum árangri við að bæta stofninn með innblöndun, menn myndu nýta erfðarefnin eftir því sem hverjum hentar. Upplifir sömu tilfinningar og þeir sem hafa talað hér um innflutning, ekkert gerst. Það sem þó hefur gerst er að ekki hefur verið flutt neitt inn, það er í sjálfu sér ákveðin niðurstaða. Hægt er að skoða kyn sem er með æskilega arfgerð með tilliti til próteinarfgerðar, Beta kasein A2A2. Ekki æskilegt að flytja inn Jerseykyn þar sem fituhlutfall er mjög hátt, rúmlega 6%. Telur það valda enn meira ójafnvægi en nú er.
Hvað gerist ef við náum ekki að framleiða nóg, mun það vera gott að flytja inn mjólkurduft? Það gæti vegið að grundvelli atvinnugreinarinnar.
Komið hefur fram eftir heimsóknir ráðunauta, að kálfum er gefin mjólk alltof lengi, allt upp í 100 daga, úr þessu má draga og setja frekar í tankinn.

Sigurður formaður í Steinsholti þakkaði góð orð til stjórnar. Sagði hann afnám fóðurtolla hafa lengi verið baráttumál þessa félags og nokkuð hafi þar þokast þó hægt fari. Ekki væri heldur raunhæft að líta á foðurtollana sem verd fyrir kornræktina, enda væri þar verið að fórna verulega miklum hagsmunum fyrir litla. Mun eðlilegra væri að styrkja kornræktina, ásamt annarri fóðurframleiðslu bænda, með t.d. styrkveitingum á opið land.
Sagði hann eðlilegt að umræða um innflutning erfðaefnis væri á sama plani og áður. Mál sem eru fryst í umfjöllun breytast ekki þó árin líði. Það tilraunaplan sem greinin kaus á sínum tíma út af borðinu, var í raun ætlað að koma umræðunni í sterkari faglegan farveg. Staðreyndin væri sú að hefði hún fengið að hafa sinn gang væri nú að hilla undir svör við mörgum þeim spurningum sem nú brenna á fólki varðandi stöðu stofnsins og gæði afurðanna. Tilraunina átti að gera á þremur lokuðum tilraunabúum og ekki átti að koma til almennrar dreifingar nema að undangenginni atkvæðagreiðslu meðal bænda.
Félagsráð hefur átt reglubundið einn fund á ári með starfsmönnum Búnaðarsambandsins og telur tæplega forsendur fyrir að þeir verði oftar en það.

Sigrún Ásta í Stóru Mástungu þakkaði stjórn fyrir afmælisárið. Hún sagði Magnús Sigurðson segja að bændur ráði hvað stjórn framkvæmi, þetta er ekki rétt því bændur voru aldrei spurðir um kaupin á Fóðurblöndunni, heyrðu þetta bara í útvarpinu.
Sagði hún innflutt kúakyn verða íslenskt þegar það verður komið í notkun hér.

Fundastjóri gaf orðið laust um kjarfóðurskattstillöguna. Enginn kvaddi sér hljóðs og því bar hann hana upp til afgreiðslu og var hún samþykkt samhljóða.

Þá gaf orðið laust um innflutningstillöguna.

Gauti á Læk sagðist glaður að sjá þessa tillögu en vildi ekki sjá þetta sem tilraun, heldur bara drífa þetta af stað.

Guðni á Guðnastöðum taldi það að hafa þetta sem tilraun þýði að allir eigi að geta samþykkt tillöguna.

Ágúst á Eystra-Hrauni sagði vitað að danskar kýr mjólka meira en þær íslensku. Einungis spurning á hvorn hestinn við ætlum veðja.

Sigríður Jónsdóttir segist ósammála tillögunni, úr því íslenskir bændur kunna ekki að gefa íslenskum kúm að éta þá getum við ekki gefið erlendum frekar.

Gauti á Læk biður LK að rannsaka hvort íslenskar kýr fái yfir höfuð að éta og telur það vera lögreglumál ef svo væri ekki.

Guðmundur á Stekkum spyr hvort íslenskir tómatar séu íslenskir, ef svo er ekki þá eru aðeins þrjár matvörur íslenskar hér á landi, mjólkin, lambakjötið og hrossakjötið. Segir tillöguna áskorun en ekki hvernig að þessu verði staðið, gerir sér grein fyrir því að hann muni ekki njóta ábatans af þessum innflutningi vegna þess hversu langur ferillin er og eigin aldurs.

Sigurjón í Raftholti sagði sína afstöðu í engu líkjast rasisma enda ætti umræða um búfjárstofna ekkert skylt við fólk. Íslenskar kýr skila betri mjólk.

Grétar í Þórisholti velti fyrir sér hversu miklu máli íslenskt fóður skipti varðandi gæði afurðanna, það hljóti að skipta máli varðandi hversu mikið við styrkjum stöðu okkar með innflutningi erfðaefnis.

Fundarstjóri bar síðan upp tillöguna og var hún samþykkt með 23 atkv. gegn 10.

5.Tillögur laganefndar.
Einar Haraldsson Urriðafossi gerði grein fyrir tillögunum laganefndar.
Fundarstjóri gaf orðið laust um lagabreytingarnar. Enginn kvaddi sér hljóðs og voru þá tillögurnar bornar upp, hver lagagrein fyrir sig. Voru þær allar samþykktar samhljóða.

Lög félags kúabænda á Suðurlandi
1. gr.
Félagið heitir Félag kúabænda á Suðurlandi, skammstafað F.K.S. Heimili þess og varnarþing er heimili formanns hverju sinni.

2. gr.
Tilgangur félagsins er að stuðla að framförum í nautgriparækt á félagssvæðinu, gæta hagsmuna kúabænda og sameina þá um málefni greinarinnar.

3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með:
a. Vera málsvari kúabænda á svæðinu.
b. Miðlun fræðslu og upplýsinga.
c. Samvinnu við önnur félög og stofnanir.
d. Með aðild að félagssamtökum bænda ef það brýtur ekki í bága við. tilgang F.K.S. og með samþykki félagsráðs.
e. Með öðrum tiltækum ráðum.

4. gr.
Félagar geta þeir einir orðið sem stunda nautgriparækt í Vestur-Skaftafellssýslu, Rangárvallasýslu og Árnessýslu.


5. gr
Innan félagsins skal starfa félagsráð. Í því skulu sitja, auk formanns, 18 fulltrúar og 6 til vara, sem kosnir eru leynilegri kosningu á aðalfundi til tveggja ára. Kosningu er hagað þannig að árlega eru kosnir 9 aðalmenn og 3 varamenn. Að lágmarki skulu vera 2 fulltrúar frá hverri sýslu í Félagsráði. Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi, leynilegri kosningu til eins árs í senn. Félagsráð kýs sér ritara og gjaldkera, sem og aðrar trúnaðarstöður sem ekki er sérstaklega kveðið á um. Það annast málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður félagsins er jafnframt formaður Félagsráðs. Félagsráði er heimilt að skipa kjörnefnd sem leitar eftir framboðum og tekur við uppástungum á fólki til starfa á vegum félagsins.

6. gr.
Aðalfundur er haldinn árlega og ekki síðar en í lok febrúar og hefur hann æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Til hans er boðað sannanlega með minnst 14 daga fyrirvara. Þar eiga sæti með fullum réttindum allir skráðir félagar samkvæmt fyrirliggjandi félagaskrá. Öðrum þeim sem rétt eiga til aðildar að félaginu er heimil fundarseta án atkvæðisréttar.
Verkefni aðalfundar eru þessi:
1. Skýrsla stjórnar félagsins.
2. Afgreiðsla endurskoðaðra reikninga félagsins fyrir næstliðið ár.
3. Kosningar:
A. Formaður skv. 5. grein
B. Félagsráð skv. 5. grein.
C. Tveir skoðunarmenn og tveir til vara.
D. Aðrar trúnaðarstöður. Aðalfundi er þó heimilt að vísa kosningum skv. þessum lið til Félagsráðs.
4. Ákvörðun um félagsgjöld.
5. Önnur mál.

7.gr.
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögum um lagabreytingar verður að skila skriflega til stjórnar.
Tillögur til lagabreytingar verður að tilkynna í fundarboði og ná þær fram að ganga með samþykki meirihluta atkvæðisbærra fundarmanna.


8. gr.
Verði félagið lagt niður tekur Landssamband kúabænda eignir þess til varðveislu á verðtryggðum reikningi uns annað hliðstætt félag hefur verið stofnað á svæðinu og gerir kröfur í eignir þess fyrra.


Þannig samþykkt 13.febrúar 2006

6.Önnur mál.
Daníel á Akbraut vill að FKS setji sér stefnumótun í ræktunarstarfinu og vill sjá hana rædda. Varðandi endurbyggingu nautastöðvarinnar, þá hafi verið leitað eftir sæði til kaupa erlends frá, en stöðin ekki staðist Evrópukröfur. Hann vill að tekin verði upp einskonar STEFgjöld til þeirra sem leggja inn naut á stöðina og telur það muni virka meira hvetjandi. Minntist á stóra kálfa sem eru að fæðast hér á landi.

Þórir á Selalæk Segir að gera þurfi stöðumat á því hversu margir gripir eru á leið í framleiðslu. Eins þurfi að koma í veg fyrir að kvígukálfum sé fargað, það gæti haft áhrif á framhaldið.

Sigurður formaður í Steinsholti þakkaði góðan fund og þá einkum Baldri Helga Benjamínssyni fyrir sitt framlag til fundarins. Sagði oft hafa verið rætt hversu mikið efni ætti að fá inn á fundinn, þannig að það truflaði umræðu um innri mál félagsins. Sér virtist þó flest hafa gengið vel fyrir sig að þessu sinni. Sleit hann því næst fundinum

Fundaritari: Katrín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála


back to top