Skilur að landeigendum finnist hægt ganga

Skiljanlegt er að landeigendum við neðri hluta Þjórsár, þar sem áform eru uppi um að reisa þrjár virkjanir, finnist ganga hægt í samningaviðræðum við Landsvirkjun. Þetta segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. Í Morgunblaðinu á dögunum sagði Renate Hanneman, landeigandi á Herríðarhóli í Ásahreppi, að enginn gangur væri í samningaviðræðum við landeigendur á svæðinu.

Verðlaunaveiting og fræðslufundur í nautgriparækt

Föstudaginn 7. mars nk. verða verðlaunaveiting og fræðslufundur í nautgriparækt í Þingborg í Flóa kl. 13.15. Afhent verða verðlaun fyrir hæst dæmdu kýr í kúaskoðun 2006 og 2007, þ.e. kýr fæddar 2002 og 2003.
Auk þessa verða landsráðunautar Bændasamtaka Íslands, Gunnfríður E. Hreiðarsdóttir og Magnús B. Jónsson, með fræðsluerindi, m.a. um nýtt skýrsluhaldskerfi í nautgriparækt og kynbætur nautgripa.

Nýr og endurbættur bondi.is

Vefur Bændasamtaka Íslands hefur fengið andlitslyftingu en í dag sunnudaginn 2. mars 2008 er nýi vefurinn opnaður. Með vefnum vonast Bændasamtökin til þess að geta veitt viðskiptavinum sínum enn betri þjónustu en áður á vefnum. Með tíð og tíma verða kynntar nýjungar sem eiga vafalaust eftir að gagnast bændum og öðrum notendum vel, segir á forsíðu nýja vefsins.

Flótti að bresta á í röðum bænda

Daníel Jónsson, kúabóndi á Ingunnarstöðum í Reykhólasveit, segir að flótti sé kominn í raðir bænda og nauðsynlegt sé að þeir fái 30 króna hækkun fyrir hvern mjólkurlítra nú þegar til að mæta 50 til 100% hækkunum á aðföngum til bænda á undanförnum tveimur árum.

Hringskyrfi staðfest á bæ í Skagafirði

Smitsjúkdómurinn hringskyrfi hefur verið staðfestur á bæ í Skagafirði. Fyrstu varúðarráðstafanir hafa verið fyrirskipaðar en ákvörðun um nánari aðgerðir verður tekin á næstu dögum. Síðast liðið haust greindist hringskyrfi á bæ í Eyjafirði en hafði þá ekki greinst hér á landi síðan árið 1988. Þetta gefur tilefni til að óttast að hringskyrfi sé útbreiddara en talið hefur verið. Það er því ástæða til að hvetja alla sem umgangast nautgripi að hafa augun opin fyrir einkennum sem gætu bent til sjúkdómsins og hafa samband við héraðsdýralækni ef minnsti grunur vaknar.

Hundruð milljóna til bænda?

Fjöldi fyrrverandi félagsmanna í Mjólkursamsölunni gæti átt rétt á auknum greiðslum úr séreignarsjóði samsölunnar. Fjárhæðirnar gætu hlaupið á tugum og jafnvel hundruðum milljóna.

Nýjar lánareglur leyfa hærri lán en áður

Stjórn Lífeyrissjóðs bænda samþykkti nýjar lánareglur fyrir sjóðinn þann 25. febrúar sl.  Hámarkslán voru hækkuð úr 6 mkr. í 25 mkr. pr. sjóðfélaga en takmarkast að öðru leyti við verðmat löggilts fasteignasala. Lágmarkslán sjóðsins er 500 þús. Jón Hólm Stefánsson fasteignasali á Gljúfri í Ölfusi mun taka að sér verðmat á bújörðum vegna lánveitinga sjóðsins.  Gera má ráð fyrir að í auknum mæli verið krafist greiðslumats vegna lánsumsókna og verður bændum beint til búnaðarsambanda.

Heimaunnið sérmerkt

Beint frá býli hefur látið gera sérstakt merki fyrir býli sem framleiða matvöru úr eigin hráefni á býlinu og selja beint til notenda. Merkið má til dæmis nota á vörur sem eru framleiddar og seldar á býlunum og í auglýsingum. Áhersla er lögð á matvæli sem byggja á íslenskri matarhefð.

Stefnt að stofnun hlutafélags um innflutning nýs mjólkurkúakyns

Stefnt er að því að stofna hlutafélag um innflutning á nýjum kúastofni í næsta mánuði. Jón Gíslason, formaður Nautgriparæktarfélags Íslands (NRFÍ), sem barist hefur fyrir innflutningi á norskum kúastofni til Íslands, segir að hið nýja hlutafélag muni sækja um innflutningsleyfi til landbúnaðarráðuneytisins á næstu mánuðum. „Við stefnum að því að sækja um innflutningsleyfi á fósturvísum og sæði úr norska kúastofninum. Ráðuneytið mun þá leita álits hjá umsagnaraðilum eins og yfirdýralækni og fleiri aðilum.“

Umsóknir um styrki úr Landbótasjóði

Auglýst hefur verið eftir umsóknum um styrki til Landbótasjóðs. Sjóðurinn er á vegum Landgræðslunnar og veitir styrki til margháttaðra landgræðslu- og landbótaverkefna. Styrkveitingar sjóðsins hafa um árbil verið með hefðbundnum hætti, en í ár verður sú breyting á að nú er hægt að sækja um styrki til endurheimtar votlendis. Umsóknarfrestur er til 15. mars n.k.

Mjólka kaupir Vogabæ og flytur starfsemina í Hafnarfjörð

Mjólka hefur fest kaup á matvælafyrirtækinu Vogabæ og hefur mjólkurstöð Mjólku verið flutt í verksmiðjuhúsnæði Vogabæjar við Eyrartröð 2a í Hafnarfirði. Vogabær og Mjólka munu halda áfram að framleiða undir eigin merkjum. „Auk þeirra augljósu samlegðaráhrifa sem felast í að sameina dreifingu, skrifstofuhald og stjórnun þessara tveggja fyrirtækja þá leysum við um leið mjög brýnan húsnæðisvanda sem hefur verið að há eðlilegum vexti Mjólku undanfarna mánuði,“ segir Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku.

Nýr formaður hjá Búnaðarsambandi A-Skaftfellinga

Þórey Bjarnadóttir, bóndi á Kálfafeli í Suðursveit og sauðfjárrækatarráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, var nýlega kjörin formaður Búnaðarsambands Austur-Skaftfellinga. Hún er fyrsta konan til að gegna þessu embætti hjá búnaðarsambandinu.

Bændur vilja aðgerðir til að mæta hækkunum

„Ljóst þykir að grípa verður til aðgerða til að mæta þeim miklu hækkunum á aðföngum, s.s. á áburði og fóðri, sem bændur hafa mætt,“ segir á vefsíðu Bændasamtakanna í tilefni af fundi í verðlagsnefnd búvara í gærmorgun.
Á fundinum voru engar verðbreytingar ákveðnar en að sögn Ólafs Friðrikssonar formanns mun nefndin hittast aftur innan skamms. „Við fórum yfir miklar áburðarverðshækkanir, sem eru upp á 70-80% frá því í fyrra. Á fundinum kom fram það hald manna að áburður mundi hækka jafnvel enn meira á heimsmarkaði, þó að þær hækkanir skili sér ekki hingað á þessu vori.“ Hann segir helstu áburðarsala veita bændum gjaldfrest fram í maí gangi þeir frá kaupum í ársbyrjun. „Engu að síður vill nefndin fylgjast grannt með þannig að grípa megi inn í ef ástæða þykir til,“ segir Ólafur.

Ríkisstjórn skoðar framtíð landbúnaðarstyrkja

Landbúnaðarráðherra segir óhjákvæmilegt að styrkja íslenskan landbúnað og staðið verði við þá samninga sem gerðir hafa verið við bændur til 2012 og 2013. Hins vegar sé nauðsynlegt að skoða þróunina erlendis á næstu árum, sérstaklega innan ESB. Það sé athyglisvert að evrópski landbúnaðarráðherrann hafi nú þegar tilkynnt að styrkjum til landbúnaðar verði breytt. Þetta kom fram í utandagskrárumræðu um stuðning stjórnvalda við íslenskan landbúnað á Alþingi í gær.

Mjólkað á ný í Stærra-Árskógi

Mjólkurframleiðsla er nú hafin á ný í Stærra-Árskógi á Árskógsströnd í Eyjafirði, en eins og menn muna brann fjósið á bænum ásamt bróðurparti bústofnsins um miðjan nóvember sl. Þá þegar var ákveðið að hefja uppbyggingarstarf og var nýtt fjós risið á grunni þess gamla þann 17. janúar sl., réttum tveimur mánuðum eftir brunann.  

Sauðfé fækkar stöðugt en nautgripum fjölgar

Frá 1982 hefur sauðfé fækkað um nærri 32 milljónir á Nýja-Sjálandi en á árinu 2007 voru 38,6 millj. fjár í landinu. Það er 4% færra en árið áður og þar með hefur fjöldi sauðfjár þar ekki verið minni síðan 1955.

Kornverð mun lækka á komandi misserum

Danskir sérfræðingar telja að miklar verðhækkanir á matvælaverði séu yfirstaðnar og á komandi árum muni matvælaverð haldast stöðugt eða jafnvel lækka. Framleiðslan muni aukast gríðarlega og það valdi auknu framboði og lækkandi verði. Leif Nielsen, aðalhagfræðingur hjá Landbúnaðarráðinu í Danmörku, segist vera sammála þessu mati í aðalatriðum og kornverð hafi nú þegar náð hæstu verðum. Hann segir að kornverð muni lækka á komandi mánuðum og árum þó að það verði kannski ekki eins lágt og það var fyrir hækkanir.

Afurðahæsta kúabú landsins

Kúabúið að Lyngbrekku í Dalasýslu er samkvæmt nýútkomnum skýrslum afurðahæsta bú landsins á síðastliðnu ári. Samkvæmt skýrsluhaldi eru árskýr á Lyngbrekku 58,6 og meðal nyt kúnna 7.881 lítri og próteininnihald mjólkurinnar 3,36%. Bændur þar eru Bára Sigurðardóttir og Sigurður B. Hansson.

Mykjan er gulli betri!

Stærsta kúamykjuorkuver í heimi var tekið í notkun í Innri-Mongólíu í Kína 21. janúar sl. Í orkuverinu er unnið úr mykju og fráveituvatni frá 10.000 kúm. Úr þessu hráefni fást 12.000 rúmmetrar af metangasi, sem duga til að framleiða 10 milljón KWst eða 10 GWst af raforku á ári. Þetta samsvarar uppsettu afli upp á u.þ.b. 1,5 MW.

Betra land ehf. ekki með að sinni

Nú er það ljóst að Betra land mun því miður ekki geta lagt fram vöru- og verðskrá fyrir áburð að þessu sinni. Ástæðuna má helst rekja til vanefnda birgja Betra lands í gæðamálum. Auk þess hafa þrengingar á mörkuðum erlendis valdið því að ekki hefur tekist að ná áburði frá öðrum framleiðendum á réttum tíma.
Betra land mun áfram vinna að því að koma á viðskiptasamböndum við áburðarframleiðendur sem framleiða bæði einkorna og fjölkorna áburð. Betra land mun því halda sig til hlés á yfirstandandi sölutímabili.

back to top