Skilur að landeigendum finnist hægt ganga

Skiljanlegt er að landeigendum við neðri hluta Þjórsár, þar sem áform eru uppi um að reisa þrjár virkjanir, finnist ganga hægt í samningaviðræðum við Landsvirkjun. Þetta segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. Í Morgunblaðinu á dögunum sagði Renate Hanneman, landeigandi á Herríðarhóli í Ásahreppi, að enginn gangur væri í samningaviðræðum við landeigendur á svæðinu.

Þorsteinn segir að við hönnunarvinnu vegna Urriðafossvirkjunar, sem er neðst virkjananna þriggja, hafi verið leitast við að minnka lónið verulega. Næst stíflunni hafi verið gert ráð fyrir að hæð lónsins yrði um fimm metrar, en nú hafi verið ákveðið að hún verði fjórir metrar. „Við það minnkar lónið úr tólf ferkílómetrum í níu,“ segir Þorsteinn.


Þorsteinn segir að málefni Urriðafossvirkjunar hafi líka tekið langan tíma hvað varðar skipulagsmál hjá Flóahreppi. „Vatnsréttindi í þessari virkjun eru að litlum hluta í einkaeigu þar en ekki bara í eigu ríkisins sem aftur á við um efri virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár [Holta- og Hvammsvirkjun]. Þar eru vatnsréttindin að fullu í eigu ríkisins,“ segir Þorsteinn. Lausn þessara atriða hafi gert að verkum að málin hafi dregist á langinn.


Þorsteinn segir að unnið sé að því að leysa málin. En það að verið sé að minnka lónið og lækka vatnsborðið geri að verkum að auðveldara ætti að reynast að bjarga því landi sem um ræðir á Herríðarhóli frá því að fara undir vatn. Málin séu hins vegar komin lengra hvað varðar virkjanir ofar í ánni. Verði virkjanirnar ekki byggðar allar í einu megi vænta þess að sú efsta verði byggð fyrst og Urriðafossvirkjun síðast. „Eðlilega hefur frágangurinn fikrast niður eftir ánni og þessi landeigandi er við neðsta hlutann á þessu svæði.“


back to top