Bændasamtökin grunuð um að starfa fyrir bændur

Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir Ögmund Jónasson, alþingismann og formann BSRB, þar sem hann gagnrýnir viðbrögð Samkeppniseftirlitsins gagnvart hagsmunagæslu Bændasamtaka Íslands fyrir bændur. Þar veltir hann því upp hvort Samkeppniseftirlitið sé orðið endanlega galið og hvort Bændasamtökunum beri ekki beinlínis skylda til að vinna að hagsmunum bænda.

Grein Ögmundar fer hér á eftir:

„Samkeppnisstofnun hefur minnt á sig. Hinn 7. mars síðastliðinn birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni, „Sátt um hækkanir nauðsynleg“. Hér var vísað til hækkunar á mjólkurverði sem þá var til umræðu. Og Bændasamtökin vildu samkvæmt Morgunblaðinu sátt um verðhækkanir.


Samkeppnisstofnun þótti nú mælirinn fullur og hefur óskað eftir því að fá í hendur afrit af þingskjölum og fundargerðum nýafstaðins búnaðarþings svo og samþykktir og ályktanir, minnisblöð og tölvupósta sem ritaðir hafa verið eftir 1. september á síðasta ári!


Í yfirlýsingu Samkeppniseftirlitsins í tilefni af frétt Morgunblaðsins þar sem hvatt er til sátta um verðbreytingar segir m.a.: „Að mati Samkeppniseftirlitsins gefur fréttin til kynna að Bændasamtök Íslands og einstök búnaðar- og búgreinasamtök hafi seilst of langt í hagsmunagæslu fyrir félagsmenn sína…“


Og nú þarf að leggjast í rannsóknir – eða hvað? Er verið að hafa okkur að háði og spotti? Er Samkeppniseftirlitið orðið endanlega galið? Eru Bændasamtök Íslands ekki hagsmunasamtök íslenskra bænda? Hef ég misskilið eitthvað? Ber þeim ekki beinlínis skylda til að vinna að hagsmunum bænda?


Í Verðlagsnefnd búvara eiga sæti fulltrúar íslensks launafólks. Þeirra á meðal fulltrúi BSRB. Sá fulltrúi, Elín Björg Jónsdóttir, varaformaður bandalagsins, tók þátt í ströngum samningaviðræðum um mjólkurverðið. Fyrir sitt leyti var hún, sem aðalsamningamaður BSRB, ætíð í nánu samráði við sitt bakland. Að lokum varð því til niðurstaða í lýðræðislegu samhengi. Bændasamtökin fengu sínum ítrustu kröfum ekki framgengt. En fallist var á málamiðlun í anda þess sem Bændasamtök Íslands höfðu hvatt til: Að málalyktir yrðu í eins mikilli „sátt“ og kostur væri.


Nú spyr ég í fullri hógværð. Er forsvaranlegt að verja fjármunum almennings í rannsókn á því hvort Bændasamtök Íslands hafi beitt sér í þágu bænda? Í mínum huga hefðu samtökin brugðist hlutverki sínu ef þau hefðu ekki gert það. En hvað með hlutverk Samkeppniseftirlitsins? Er ekki tími til kominn að fara að hyggja að því?“


Fréttablaðið 1. apríl 2008


back to top