Töluvert gjóskufall viðbúið

Nýr fasi er kominn í gosið. Hraun er hætt að renna og mestur hluti kvikunnar er sundrað í kröftugu sprengigosi. Gosmökkur rís hátt yfir gosstöðvum og má búast við töluverðu gjóskufalli undan vindi. Þetta kemur í fram í nýju mati Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Samkvæmt athugun flugmanna milli kl. 05:30 og 08:00 fór mökkurinn þá upp í 30.000 fet/ 9 km. Hæð var breytileg í ratsjá, 4-7 km. Mökkurinn var þrískiptur, efsta lag lagði til SA, neðra lag var með jaðar til SSA og neðst var rykský í jaðarlagi sem sameinaðist fjúki undir Eyjafjöllum.

Áfram dró úr rennsli frá Gígjökli og virðist sem vatnið komi nú að megninu til undan jöklinum austan megin. Þetta er breyting frá því á þriðjudag en þá rann vatnið að stórum hluta frá Gígjökli vestan megin. Hugsanlegt er að hraunrennslið sé að breyta rennslisstefnu vatnsins. Við svona breytingar ber af hafa í huga að vatn getur safnast saman í dældum og hlaupið snögglega fram.


Hækkun á rafleiðni í Jökulsá á Sólheimasandi má rekja til mengunar frá ösku sem borist hefur af jökli í jökulvatnið. Ekki er því um efnamengun af völdum brennisteinsríkra kvikugastegunda að ræða.


Skjálftavirkni heldur áfram. Búið er að staðsetja a.m.k. 10 skjálfta frá miðnætti. Skjálftar verða enn flestir undir eða sunnan toppgígs og verða í þeirri rás upp í gegnum skorpuna sem þeir hafa myndað frá 3. maí. Flestir skjálftar eru undir tveimur að stærð, sá stærsti 2,2.


Breytingar á hegðun goss á gosstað eru töluverðar frá síðustu dögum. Ekkert bendir til þess að gosi sé að ljúka.


 


back to top