Tæpar 800 milljónir til aðgerða vegna eldgoss

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum síðastliðinn föstudag að veita 791,7 milljónir króna til endurreisnar og vegna neyðaraðgerða í kjölfar eldgosanna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi. Styðja á við uppbyggingarstarf á eldgosasvæðinu og treysta enn frekar störf þeirra sem komið hafa að neyðaraðgerðum, öryggismálum og endurreisn í kjölfar hamfaranna.

Stærsta einstaka viðbótarframlagið er til Bjargráðasjóðs, 190 milljónir króna, en heildarkostnaður sjóðsins vegna eldgosanna er metinn á 300 milljónir króna. Þá fá Landgræðslan, Vegagerðin, Veðurstofan, almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, löggæslan, Landhelgisgæslan, Rauði kross Íslands, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Jarðvísindastofnun Háskólans, Flugstoðir, heilbrigðisstofnanir og fleiri umtalsvert fé til að sinna störfum sínum í tengslum við eldgosin.


Jafnframt var samþykkt að styðja við bakið á sveitarfélögum á eldgosasvæðinu m.a. vegna tímabundinna húsnæðisúrræða fyrir íbúa í Rangárþingi eystra, Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi. Líklegt má telja að Viðlagatrygging bæti ýmsan tilfallandi kostnað sveitarfélaganna til að mynda vegna hreinsunar. Brýn verkefni á næstunni verða m.a. við framkvæmdir og lagfæringar á varnargörðum við Markarfljót og Svaðbælisá auk aðgerða við að hefta öskufok á svæðinu.


back to top