Sjálfstæðisflokkurinn vill mjólkurkvóta burt

Landsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk helgina. Að venju voru samþykktar fjölmargar ályktanir en það er einkum þrennt sem snertir landbúnað sérstaklega. Í fyrsta lagi er það úr ályktun um atvinnumál þar sem segir að mikilvægt sé að tollar verði afnumdir, vörugjöld og aðflutningsgjöld endurskoðuð, þar með talið af landbúnaðarvörum, með það að markmiði að lækka vöruverð og örva verslun í landinu. Í öðru lagi má nefna kafla um landbúnaðarmál í ályktun um atvinnumál en þar vekur sérstaka athygli að Sjálfstæðisflokkurinn vill afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu. Kaflinn um landbúnaðarmál í atvinnumálaályktuninni fylgir hér með í heild sinni. Það þriðja sem sérstaka eftirtekt vekur úr ályktunum fundarins er svo úr ályktun um fjármál heimilanna þar sem fjallað er um mat á bújörðum: „Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að mat á virði bújarða í tengslum við skuldaaðlögun bænda verði framkvæmt af úrskurðarnefnd sem fjármálastofnanir og bændasamtök koma sér saman um til þess að tryggja að jafnræðis sé gætt.“

Úr ályktun um atvinnumál
„Landbúnaður
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að stundaður sé fjölbreyttur landbúnaður á Íslandi á grundvelli einkaframtaks og frelsis til athafna. Í landbúnaði eru mikil tækifæri til öflugrar verðmætasköpunar, sem þarf að nýta. Landsfundurinn telur að framtíð landbúnaðar á Íslandi sé björt í ljósi sívaxandi eftirspurnar eftir matvælum og vatni í heiminum. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins vill leggja grunn að sókn landbúnaðar. Hann bendir á sérstöðu Íslands sem matvælaframleiðslulands sem styður við vaxandi ferðaþjónustu í landinu, enda er bóndinn vörslumaður þess.
Sjálfstæðisflokkurinn hvetur til að gerð verði heildstæð dreifbýlisþróunarstefna og á grundvelli hennar verði gerður heildstæður samningur við bændur til að stuðla að öflugu atvinnulífi í sveitum landsins. Með samningnum verði lögð áhersla á hagkvæman fjölskyldubúskap, verndun líffræðilegs fjölbreytileika, vistvæna framleiðsluhætti og ábyrga nýtingu á landi. Samningurinn hvetji til aukinnar hagkvæmni, samkeppni og verðmætasköpunar í landbúnaði og matvælaiðnaði. Samningurinn standi vörð um samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar gagnvart innfluttum landbúnaðarvörum, auk þess sem hann tryggi fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar til framtíðar og að sóknarfæri á erlendum mörkuðum verði nýtt. Tækifæri í orkuframleiðslu í tengslum við landbúnað er vannýtt sóknarfæri í sveitum. Kvótakerfi, sem enn er við lýði í mjólkurframleiðslu, þarf að leggja af samhliða samningsgerðinni í fullu samráði við framleiðendur.
Átalið er hve seint hefur gengið að leysa úr skuldamálum bænda við fjármálastofnanir og þar með talið Byggðastofnun. Í því sambandi verði að horfa til þess að á bújörðum eru jafnframt heimili bænda. Til þess þarf að horfa við lausn á skuldamálum þeirra. Taka verður sérstakt tillit til bænda vegna þess vanda sem felst í misræmi á milli eignastöðu og afkomu. Sjálfstæðisflokkurinn telur verulega hættu á hruni íslensks landbúnaðar, gerist Ísland aðili að Evrópusambandinu. Landsfundurinn átelur þá miklu óvissu og þau neikvæðu áhrif sem aðildarviðræður við Evrópusambandið hafa skapað í landbúnaði.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á öfluga menntun og hagnýtar rannsóknir og vill þannig stuðla að auknum framförum í landbúnaði.
Flokkurinn leggur sem fyrr áherslu á að landbúnaðurinn sé rekinn í sátt við náttúruna.
Sjálfstæðismenn vilja heilbrigða samkeppni á smásölumarkaði, bændum og neytendum til hagsbóta.
Sjálfstæðisflokkurinn lýsir miklum áhyggjum af vaxandi eftirlitsiðnaði í landbúnaði og matvælaframleiðslu með tilheyrandi skrifræði og kostnaði.
Hvetja skal bændur til fjölbreyttrar matvælaframleiðslu og sterkra tengsla við innlenda og erlenda neytendur á grunni hollustu, hreinleika og gæða.“


back to top