Auðsholtshjáleiga ræktunarbú ársins í fimmta sinn

Á ráðstefnunni Hrossarækt 2011 sem fram fór á Hótel Sögu í dag hlaut Auðsholtshjáleiga í Ölfusi viðurkenningu sem hrossaræktarbú ársins. Í Auðsholtshjáleigu búa þau Kristbjörg Eyvindsdóttir og Gunnar Arnarsson ásamt börnum sínum, þeim Þórdísi Erlu og Eyvindi Hrannari.
Þetta er í fimmta sinn sem búið hlýtur þessa viðurkenningu en að þessu sinni var árangurinn ekki af verri endanum. Þannig voru 20 hross frá búinu sýnd í ár með meðaladlurinn 5,35 ár, 8,01 í aðaleinkunn auk þess sem þrjár efstu heiðursverðlaunahryssur ársins koma frá búinu. Það eru þær Gígja, Trú og Vordís. Þá hampaði stóðhesturinn Gári frá Auðsholtshjáleigu Sleipnisbikarnum á landsmótinu sl. sumar, stóð þar efstur heiðursverðlaunastóðhesta. Enn fremur má telja til að Arnoddur frá Auðshltshjáleigu stóð efstur í sínum flokki á heimsmeistaramótinu í Austurríki.
Á ráðstefnunni hlutu átta hryssur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Áður eru nefndar þær Gígja, Trú og Vordís frá Auðsholtshjáleigu en auk þeirra hlutu Álfadís frá Selfossi, Þruma frá Hofi I, Askja frá Miðsitju, Ísold frá Gunnarsholti og Ösp frá Háholti heiðursverðlaun.
Félag hrossabænda veitti auk þess verðlaun fyrir hæst dæmda kynbótahross ársins og verðlaun til þess knapa sem sýndi hross í hæstan hæfileikadóm án áverka. Hæst dæmda kynbótahrossið var Spuni frá Vesturkoti með 8,92 í aðaleinkunn og sýning Þórðar Þorgeirssonar á Spuna var að mati margra tímamótasýning þar sem hann hlaut 9,25 fyrir hæfileika. Víst er að Spuni og Þórður heilluðu marga ef ekki flesta með framgöngu sinni á landsmótinu síðasta sumar.


back to top