Nautgripir f. frá og með 1. nóv. 2011 skulu merktir í bæði eyru

Við viljum vekja athygli kúabænda á því að þann 1. nóvember s.l. voru gerðar breytingar á einstaklingsmerkingum nautgripa með gildistöku reglugerðar nr. 968/2011 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1760/2000 um að koma á kerfi fyrir auðkenningu og skráningu nautgripa og um merkingar nautakjöts og nautakjötsafurða. Þar segir að: „Til að gera kleift að rekja flutninga á nautgripum skulu dýrin vera auðkennd með eyrnamerki í báðum eyrum…“. Jafnfram segir í bráðabirgðaákvæði með reglugerðinni að ekki sé krafist endurmerkingar á nautgripum sem eru fæddir fyrir gildistöku reglugerðar þessarar sem skráðir eru í kynbótaskýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands og eru einstaklingsmerktir á fullnægjandi hátt. Ef slíkt merki týnist úr grip skal hann þó merktur skv. ákvæðum reglugerðarinnar.

Þetta þýðir að allir nautgripir fæddir frá og með 1. nóvember 2011 skulu bera eyrnamerki í báðum eyrum. Týni gripur merki skal hann því endurmerktur með merkjum í bæði eyru.


Það hlýtur að teljast gagnrýnivert að Matvælastofnun hefur ekki komið þessum upplýsingum á framfæri með áberandi hætti né heldur hefur pantanakerfi í MARK verið uppfært þannig að hægt sé að panta annað sett við áður pöntuð og ónotuð merki. Um nokkurt skeið hefur legið fyrir að reglugerðin myndi taka gildi 1. nóvember s.l. en samt sem áður er undirbúningi ábótavant.


back to top