Sala á nýslátruðu lambakjöti gengur vel

Sala á því lambakjöti sem slátrað hefur verið nú í ágúst hefur gengið mjög vel. Í þessari viku og þeirri síðustu hefur nokkur þúsund lömbum verið slátrað. Sláturhúsin verða þó almennt ekki komin í full afköst fyrr en vika er liðin af september. „Það sem komið er lítur vel út og það er allt upp í þokkalegustu lömb í þessu,“ segir Gísli Garðarsson, sláturhússtjóri hjá SAH Afurðum ehf. á Blönduósi á mbl.is. Hann tekur fram að lömbin falli ekki í verðflokkum vegna fitu, eins og eðlilegt sé á þessum árstíma.

Hjá SAH var slátrað einn dag í síðustu viku og annan í þessari, samtals á níunda hundrað kindum.
Lítið hefur verið um sumarslátrun undanfarin ár og að sögn Steinþórs Skúlasonar, forstjóra Sláturfélags Suðurlands, er hún dýr og kaupendur hafa ekki verið tilbúnir til að greiða það yfirverð sem nauðsynlegt sé.
Lítið er til af kindakjöti í landinu og birgðir á þrotum hjá sumum framleiðendum. Steinþór segir að þess vegna hafi verið full ástæða til að slátra einhverju fyrr en venjulega. Mikil ásókn var í slátrun hjá SS fyrstu vikur sláturtíðar í fyrra og því hefst regluleg slátrun viku fyrr en venjulega, byrjað verður á miðvikudaginn í næstu viku.


back to top