Ríkisstjórn skoðar framtíð landbúnaðarstyrkja

Landbúnaðarráðherra segir óhjákvæmilegt að styrkja íslenskan landbúnað og staðið verði við þá samninga sem gerðir hafa verið við bændur til 2012 og 2013. Hins vegar sé nauðsynlegt að skoða þróunina erlendis á næstu árum, sérstaklega innan ESB. Það sé athyglisvert að evrópski landbúnaðarráðherrann hafi nú þegar tilkynnt að styrkjum til landbúnaðar verði breytt. Þetta kom fram í utandagskrárumræðu um stuðning stjórnvalda við íslenskan landbúnað á Alþingi í gær.

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði ráðherra hver stefna ríkisstjórnarinnar væri í landbúnaðarmálum. Hann vakti máls á hugmynd Vilhjálms Egilssonar um að ríkið hætti styrkjagreiðslum til bænda með því að kaupa kvótann af þeim og greiða þannig styrki næstu ára í einni greiðslu. Bjarni segir hættu á að innlend framleiðsla leggist af ef sú hugmynd verður að veruleika. „Í þeim aðstæðum hefði ríkið líka einhliða vald um hvað það greiddi fyrir kvótann,“ segir Bjarni. „Það er líka mjög alvarlegt að stjórnvöld hyggist gera breytingar í landbúnaði á sama tíma og þau tilkynna verðlækkun á innfluttri matvöru. Sérstaklega þar sem innlend framleiðsla hækkar í verði á árinu. Nær væri að afnema vaskinn á alla matvöru enda hneisa að hafa matarskatt í ríki þar sem er svona hátt matvælaverð,“ segir Bjarni. Hann óskaði eftir yfirlýsingu um að ríkisstjórnin færi ekki að hugmynd Vilhjálms en fékk ekki. „Menn eru engu nær um hvað ráðherra ætlar að gera en það er gott að þingmenn allra flokka eru jákvæðir gagnvart landbúnaðinum,“ segir Bjarni.


back to top