Leiðréttir ekki búvörusamninga

Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðarráðherra segir mjög erfitt að taka til baka þá skerðingu á búvörusamningum ríkisins við bændur, sem eru í fjárlögum þessa árs. Ef það eigi að gera þurfi að tryggja fé á fjárlögum til móts við slíka breytingu. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði ráðherrann að því á Alþingi í morgun hvort hann ætlaði sér að taka skerðingarnar til baka.

Hún lýsti því að ýmsar hugmyndir hafi verið uppi hjá forvera Steingríms, Einari K. Guðfinnssyni, um aðstoð við sjávarútveginn í kreppunni, en hins vegar hafi bændur fengið það eitt að samningar væru brotnir á þeim, með því að verðtrygging samninga við þá væri afnumin.


Steingrímur sagðist hafa fundað nýlega með forsvarsmönnum Bændasamtakanna og fundað sérstaklega með garðyrkjubændum. Ýmis mál séu á döfinni í landbúnaðarráðuneytinu og hann ráðgeri að bera nokkur mál úr því ráðuneyti undir ríkisstjórnina fundi hennar á morgun.


back to top