Bændasamtökin mótmæla málflutningi forseta ASÍ harðlega

Bændasamtökin hafa sent frá sér tilkynningu þar málflutningi forseta ASÍ varðandi það að skýringa á aukinni verðbólgu væri að leita í hækkunum á innlendri búvöru er harðlega mótmælt. Bændasmtökin vilja koma eftirfarandi atriðum á framfæri í þessu sambandi:

· Sé horft lengra aftur í tímann en síðustu 12 mánuði og rýnt í vísitölu neysluverðs má sjá að innlendar búvörur hafa hækkað mun minna í verði en aðrar neysluvörur. Frá ársbyrjun 2007 hefur innfluttur matur hækkað um 60,2% en íslensk búvara aðeins um 32%. Almennt verðlag í landinu hefur hækkað um 43% frá ársbyrjun 2007.


· Samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands hafa búvörur án grænmetis hækkað um 22,5% frá því í september 2008 og til dagsins í dag, sem er nánast það sama og almennt verðlag. Á sama tíma hefur innlend mat- og drykkjarvara, sem ekki er búvara, hækkað um 29,1% og innfluttar mat- og drykkjarvörur um 31,2%.


· Árið 2007 lagði Alþýðusamband Íslands til að öll tollvernd fyrir íslenskan landbúnað yrði felld niður. Hefði þeim hugmyndum verið fylgt eftir má ætla að innflutningur búvara hefði aukist mikið og innlend landbúnaðarframleiðsla dregist saman. Það hefði bæði þýtt hærra verðlag á búvörum og einnig fækkað störfum í landbúnaði og tengdum greinum, s.s. í afurðastöðvum og ýmissi þjónustu.


· Bændur hafa frá því að bankahrunið reið yfir lagt sitt af mörkum til að halda niðri vöruverði í landinu. Samningar hins opinbera við bændur hafa verið endurskoðaðir og bændur og afurðastöðvar hafa dregið í lengstu lög að hækka verð á búvörum þrátt fyrir miklar aðfangaverðshækkanir.


· Sjálfsagt er að leita skýringa á verðhækkunum á matvörum sérstaklega en þá má ekki gleyma framangreindum staðreyndum. Til að finna skýringar á hækkuðu búvöruverði má minna á að nýgerðir kjarasamningar hækkuðu mest laun þeirra tekjulægstu. Stór hluti starfsmanna afurðastöðva er því miður í þeim hópi og snerta því launahækkanir í nýgerðum kjarasamningum ASÍ þessi fyrirtæki óneitanlega. Spurning er hvar fyrirtækin áttu að taka þá hækkun annarsstaðar en að velta þeim út í verðlagið?


Síðustu vikur hafa dunið á bændum ýmsar ásakanir þar sem staðreyndir virðast skipta litlu máli. Formaður Samtaka verslunar og þjónustu sá ástæðu til þess í vikunni að hnýta í bændur vegna tollamála og núna birtist forseti ASÍ þar sem hann kennir landbúnaðinum um hækkandi verðbólgu. Í ljósi þessa er fróðlegt að skoða nýbirta skýrslu eftirlitsnefndar um aðgerðir í skuldamálum. Þar kemur upp úr kafinu að hjá 13 verslunar- og þjónustufyrirtækjum hafa undanfarið verið afskrifaðir um 88,5 milljarðar króna. Gæti ekki verið að kostnaður af þessum aðgerðum og allt sem á undan er gengið í íslensku efnahagslífi, gengishrun og óráðsía, sé þjóðinni meira íþyngjandi en störf nokkur þúsund bænda sem nýta landsins gæði?


back to top