Forseti ASÍ vill stokka upp landbúnaðarkerfið

Forseti Alþýðusambands Íslands vill að landbúnaðarkerfið verði stokkað upp og segir hækkandi verð á íslenskum matvælum vera eina helsta orsök þess að verðbólga hefur ekki mælst hærri hér á landi í sextán mánuði. Hann segir engin rök fyrir hækkununum, bændur taki nú meira til sín í skjóli einokunar.
Vísitala neysluverðs eða verðbólga, hækkar um núll komma sjö prósentustug á milli mánaða og mælist nú fimm komma sjö prósent síðustu tólf mánuði. Verðbólgan hefur hækkað látlaust frá því í janúar, en hefur ekki mælst hærri í sextán mánuði eða frá því í maí í fyrra. Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, hefur miklar áhyggjur af þróuninni en kjarasamningar verða endurskoðaðir í janúar.

Það er athyglisvert að forseti ASÍ skuli koma fram með þessum hætti og gagnrýna hækkanir á innlendri matvöru. Gagnrýnisraddir sem þessar heyrast ekki jafn sterkt þegar um er að ræða hækkanir á erlendri matvöru eða neysluvarningi. Þá má ekki gleyma því að margir þeirra sem vinna við úrvinnslu landbúnaðarvara og framleiðslu matvæla innanlands eru innan vébanda ASÍ og því margt launafólk sem hefur framfærslu sína af þessari atvinnugrein. Það gleymist kannski oft í umræðunni.
Þá eru hækkanir á innlendri matvöru að verulegu leyti tilkomnar vegna hækkandi verðs á aðföngum en til að mynda hafa bændur mátt þola tuga prósenta hækkanir á áburði, olíu, kjarnfóðri og rafmagni svo dæmi séu tekin á undanförnum mánuðum.


back to top