Æ fleiri danskar kýr ná gríðarmiklum æviafurðum

Sex danskar svartskjöldóttar kýr hafa náð yfir 150.000 kg æviafurðum og sú sem mjólkað hefur mest nálgast nú 160.000 kg að því er fram kom á ársfundi Dansk Holstein fyrir skömmu. Fari allt eins og til er ætlast mun hún bera í vor og mun því væntanlega bæta enn meira við sig.

Á síðustu 12 mánuðum hafa 126 danskar svartskjöldóttar kýr náð yfir 100.000 kg æviafurðum sem er meiri fjöldi en nokkru sinni fyrr en fyrir aðeins 20 árum síðan var fyrsta kýrin heiðruð fyrir að ná þessu marki. Ræktunarsamtökin Dansk Holstein segja þetta sýna vel þær framfarir sem orðið hafi, gripirnir séu sterkari framleiðslugripir en nokkru sinni fyrr og vel hafi tekist til í kynbótastarfinu.


Eina íslenska kýrin sem náð hefur 100.000 kg æviafurðum er Snegla 231 frá Hjálmholti í Flóa en hún mjólkaði á 14,7 árum 100.736 kg mjólkur eða 6.843 kg á ári að meðaltali. Undan henni voru á sínum tíma tekin tvö naut á stöð, þeir Suðri 84023 og Snarfari 93018.


back to top