Lambhrútaskoðun 2010

Nú er lokið úrvinnslu á niðurstöðum um skoðun hrútlamba undan stöðvarhrútunum haustið 2010, sem búið var að skrá upplýsingar um í gagnagrunn sauðfjárræktarinnar undir lok október. Eins og áður munu þessar tölur fyrir hrútana sem enn eru lifandi birtast í hrútaskrá stöðvanna sem reikna má með að birtist innan hálfs mánaðar. Umfang á skoðun var eins og síðustu haust feikilega mikið þannig að flestir afkvæmahópanna eru mjög stórir og allnokkrir risastórir hópar.
Tölurnar úr ómmælingunum eru eins og áður leiðréttar tölur. Þeir þættir sem þar er tekið tillit til eru þungi lambsins, þannig að tölurnar ber að lesa eins og jafnvæn lömb hefðu verið í öllum afkvæmahópum, en talsverður munur er þar á eins og lesa má í töflunum. Þessi leiðrétting bitnar að einhverju leyti á kollóttu hrútunum vegna þess að lömbin undan þeim eru yfirleitt vænni eins og taflan sýnir. Þá er leiðrétt með tilliti til þess hvort lambið er einlembingur, tvílembingur eða marglembingur. Einlembingunum refsað smávegis vegna betra atlætis, sem þeir að jafnaði njóta, en marglembingarnir fá bættan upp aðstöðumun sinn. Að síðustu eru gerðar leiðréttingar með tilliti til þess að verið er að nota mismunandi ómsjár til mælinga eftir svæðum og mælingamenn tileinka sér aðeins breytilegar mælitækni. Þessar leiðréttingar leiða til þess að tölurnar eiga að vera komnar á jafn sambærilegan grunn til samanburðar og kostur er.
Tölurnar um dóma lambanna eru aftur á móti óleiðréttar stigatölur dómara. Þó að leitast sé við að samræma dóma hjá þeim mörgu dómurum, sem að störfum koma, þá er með öllu útilokað að nokkru sinni náist fullt samræmi í þessum efnum. Einhver áhrif af því að hrútarnir eiga lömb misdreifð um landið eru því áreiðanlega fyrir hendi í þessum tölum eins og ætíð hefur verið.
Lömbin voru glæsilegri í heildina en nokkru sinni áður eins og tölurnar sýna. Fannar 07-808 á líkt og á síðasta ári hópinn sem mælist með þykkastan bakvöðva, meðaltalið örlitlu lægra en á síðasta ári. Hins vegar fær hann miklu meiri samkeppni af mörgum hrútum núna en var á síðasta ári. Afkvæmahópurinn með hæst heildarstig er hins vegar að þessu sinni undan Tý 06-819.

Lambhrútaskoðun 2010

back to top