Leiðbeiningar um töku kýrsýna

Hvernig á að taka kýrsýni?
Þegar tekin eru mjólkursýni eiga þau að sýna þverskurð af mjólkinni úr viðkomandi grip.


Þetta þýðir að ekki er um marktækt sýni að ræða nema sýnið sé úr mjólk úr kú sem mjólkuð er þegar notaður er þar til gerður mjólkurmælir sem skilur frá sýnishorn af mjólkinni allan mjaltatímann (helst morgunmál).


Þegar rétt er staðið að sýnatökunni er áríðandi að sá hluti frátökumagnsins sem ætlaður er í sýnaglasið með rotvarnarpillunni í hvíta kassanum sé rétt blandaður.


Það á ekki að hella beint úr mæliglasinu eða opna fyrir kranann neðst á mælinum heldur taka mjólkurmælinn frá og endastinga honum 3 – 4 sinnum til að fita og önnur efni blandist rétt áður en sett er í sýnaglas hvíta kassans.


Sumir mjólkurmælar (t.d. De-Laval) eru með sérstakt hliðhangandi frátökuglas og stærra glas mælisins fyrir magnmælinguna.


Ef sérstakt frátökuglas er til staðar á að taka glasið af og setja lófann fyrir opið og endastinga því nokkrum sinnum.
Gott er að vera með einnota hanska svo sýnið mengist minna en mengun skiptir þó litlu máli þar sem ekki er verið að mæla líftölu þessara sýna og að þau eru rotvarin strax.
Þarna er verið að tala um allar gerðir rörmjaltakerfa og hangandi mjólkurmæla.


Láglínukerfi með tölvuskráningu eru með búnað sem tengdur er við á sýnatökudögum og þar ber einnig að endastinga glasinu nokkrum sinnum áður en hellt er í sýnaglasið.


Hristið ekki!!!
Varast ber að hrista sýnið því þannig blandast loft í það sem getur haft áhrif á niðurstöðuna, sér í lagi FFS.


Ef einhverjir taka sýnin beint úr spena fyrir eða eftir mjaltir er ekkert að marka niðurstöðuna.
Það er vonandi enginn sem gerir þetta á þann hátt.


Það er til margháttaður búnaður til sýnatöku en aðeins ein gerð mjaltakerfa skilar sýninu beint í pilluglasið og það eru mjaltaþjónarnir.


Við önnur mjaltakerfi ber einfaldlega að tryggja að viðkomandi sýni gefi þverskurð af allri mjólk viðkomandi mjalta og að þess sé vandlega gætt að blanda sýnið rækilega áður en hluta þess er hellt í pilluglasið sem fer til mælingar.


Mjólkurmagnsmæling
Þá að lokum, vegna magnmælinga er áríðandi að mjólkurmælarnir sem notaðir eru við rörmjaltakerfin séu réttir og er áríðandi að senda þá til stillingar reglulega.
Þeir sem eru með „Milkmaster“ og brautakerfi eða láglínubása verða að biðja sína þjónustumenn að leiðrétta mælana leiki grunur á að þeir séu ekki réttir.


Hluti greinar eftir Kristján Gunnarsson, mjólkureftirlitsmann.


Ítarefni:
Hvernig get ég prófað mjólkurmælana?

back to top