Uppbygging Gaddstaðaflata í sjónmáli

Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra skrifuðu sl. föstudag undir viljayfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um 80 milljóna kr. stuðning við uppbyggingu fyrir hestaíþróttaaðstöðu á Gaddstaðaflötum við Hellu.
Framlag þetta er háð því að stóðhestastöðin við Gunnarsholt verði seld og hluti þess söluverðs verði nýttur til þessa. Fjármálaráðherra hefur heimild fyrir þeirri sölu. Með stóðhestastöðinni verður selt 90 hektara land umhverfis hana. Forsvarsmenn heimamanna og hestamannafélaga á Suðurlandi og landssambanda voru viðstaddir og rituðu nöfn sín á plaggið til staðfestingar. Gaddstaðaflatir eru helsta landsmótssvæði hestamanna á Suðurlandi og kemur þetta framlag sér gríðarlega vel fyrir framtíðaruppbyggingu svæðisins. Að loknum ávörpum ráðherranna og annarra, bauð Sigurður Karlsson, gamalreyndur hestamaður á Hellu til kaffisamsætis í félagsheimili hestamannafélagsins Geysis eftir undirskriftirnar. Sigurður er einn af brautryðjendunum við uppbyggingu Gaddstaðaflata. Fimm ungar stúlkur úr Geysi tóku ríðandi á móti ráðherrunum og öðrum gestum og héldu síðan heiðursvörð við athöfnina, sem fór fram úti við í góðu veðri um það leyti sem sólin braust fram úr skýjunum.


back to top