DV býr til úlfalda

Í helgarblaði DV var því slegið upp með nokkrum látum að leifar af sýklalyfjum hefðu „ítrekað“ fundist í íslenskum landbúnaðarafurðum, einkum kjöti og mjólk. Þegar betur er rýnt í fréttina virðist ekki mikill fótur fyrir þessari fullyrðingu.
Rætt er við Sigurð Örn Hansson forstöðumann matvæla- og umhverfissviðs Landbúnaðarstofnunar og haft eftir honum að erfitt hafi reynst að útiloka að einhverjar lyfjaleifar kunni að hafa verið í lambakjöti og meðal annars þess vegna hafi verið ákveðið að bæta eftirlitið og tvöfalda stærð sýna sem tekin eru. Sigurður Örn minnist hvergi á mjólk eða annað kjöt.

Auk viðtalsins við Sigurð Örn var rætt við þrjá sérfræðinga en enginn þeirra starfar við þessar rannsóknir. Þeir gátu lítið tjáð sig um annað en að vissulega væri það hið versta mál ef lyfjaleifar væri að finna í matvælum.


Þegar Bændablaðið leitaði skýringa Sigurðar Arnar á þessari frétt var svar hans á þessa leið:


“Þessi frétt í DV er algjörlega úr lausu lofti gripin.
Ástandið í þessum málum er mjög gott hér á landi. Efni sem mæld eru annað hvort finnast ekki (eru undir greiningarmörkum) eða ef þau mælast þá eru þau undir leyfilegum mörkum. Sem dæmi um gott ástand í þessum málum má nefna að á síðasta ári, 2006, voru niðurstöður úr öllum sýnum í lagi og engin mæling fór út fyrir leyfileg mörk.


Landbúnaðarstofnun og áður embætti yfirdýralæknis hefur eftirlit með lyfjaleifum í sláturafurðum og mjólk. Þetta eftirlit hefur verið skipulagt frá árinu 1989 og er samþykkt af Evrópusambandinu og Bandaríkjunum vegna útflutnings á búfjárafurðum til þessara landa.


Í ársskýrslu embættis yfirdýralæknis er skilmerkilega greint frá því hvernig þessu eftirliti er háttað, hversu mörg sýni eru tekin, hvaða efni eru mæld og í þeim örfáu tilvikum þar sem niðurstöður hafa farið út fyrir leyfileg mörk hefur verið greint frá þeim í ársskýrslu embættisins. Ársskýrslurnar má finna á heimasíðu Landbúnaðarstofnunar, www.lbs.is

www.bondi.is greindi frá


back to top