Umtalsverð aukning á framleiðslu og sölu á nautgripakjöti

Þegar tölur yfir framleiðslu og sölu á nautgripakjöti fyrir síðasta ársfjórðung (des.06-feb.07) eru skoðaðar, má sjá að talsverð aukning hefur orðið á þessu tímabili, m.v. sama tíma fyrir ári. Nemur framleiðsluaukningin 21,3%. Mest munar um aukna framleiðslu UN, en framleiðsla ungnautakjöts hefur aukist um 28,2% á tímabilinu.
Dregið hefur úr slátrun á eldri kúm og bolum (naut eldri en 30 mánaða við slátrun), sem nemur 17,9%. Sá flokkur er þó mjög lítið hlutfall af heildarslátrun, innan við 2%. Síðustu 12 mánuði (mar.06-feb.07) er framleiðsla nautgripakjöts hér á landi 3.316 tonn. Til samanburðar var framleiðslan allt síðasta ár 3.190 tonn.
 
Sala nautgripakjöti hefur verið góð og ívið meiri en framleiðslan, eða 3.333 tonn á síðustu 12 mánuðum, þannig að gengið hefur á birgðir. Þær eru reyndar mjög litlar á hverjum tíma, eða aðeins sem nemur nokkurra daga slátrun, enda er mestallt íslenskt nautakjöt selt ferskt – og gott. 


back to top