Aðalfundur HS 2007

Fundargerð


Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn 20. mars 2007 í Þingborg


Dagskrá:
1. Fundarsetning, skipun starfsmanna fundarins.
2. Formaður félagsins, Hrafnkell Karlsson flytur skýrslu stjórnar
3. Reikningar, Helgi Eggertsson kynnir reikninga
4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
5. Reikningar afgreiddir
6. Tekin ákvörðun um félagsgjald 2007, tillaga frá stjórn
7. Kosning 2 manna í stjórn og 3 til vara
8. Kosning 2 skoðunarmanna og 2 til vara
9. Kosning fulltrúa (aðal- og varamanna) á aðalfund BSSL (5 ) og aðalfund FH (10)
10. Tillögur lagðar fram og kynntar
11. Umræður og afgreiðsla tillagna
12. Íslenski hesturinn –ævintýrið er rétt að byrja, Ágúst Sigurðsson
13. Umræður og fyrirspurnir um erindið
14. Önnur mál1. Fundarsetning
Hrafnkell Karlsson setti fundinn. Stakk upp á Kára Arnórssyni sem fundarstjóra og Höllu Eygló Sveinsdóttur sem fundarritara.


2. Skýrsla stjórnar
Liðið starfsár hefur að mestu verið líkt því síðasta.  Við höfum haldið 5 stjórnarfundi frá síðasta aðalfundi sem hafa að sjálfsögðu snúist um framkvæmd þeirra verkefna sem samtökin hafa á sinni könnu.  Einnig ýmis verkefni sem gætu þjónað hagsmunum félagsmanna s.s. um að nýta Reyðarvatnsgirðinguna í Gunnarsholti fyrir vistun ungfola fyrir félagsmenn,  kaup á stóðhestahúsinu í Gunnarsholti og finna því verkefni sem yrðu til góðs fyrir félagsmenn. Við ræddum einnig hugmyndir um kaup á aðgangi að bestu stóðhestum landsins til endursölu til félagsmanna, en í stuttu máli náðu þessar hugmyndir ekki fram að ganga. 
Við höfum setið aðalfundi aðildarfélaga okkar, FH og BSSL og formannafundi þeirra. Gefið út eitt fréttabréf á árinu, en að öðru leiti vísa ég til heimasíðunnar þar sem m.a. allar fundargerðir samtakanna eru birtar.
Málefni sæðingarstöðvarinnar hafa verið fastur liður á dagskrá aðalfunda sl. ár. Ég sagði frá því á síðasta aðalfundi að sú stefnumörkun sem við lögðum upp með hefði ekki gengið eftir og get endurtekið það nú er varðar síðastliðið ár.  Ekki varð af fyrirhugaðri frjósemisrannsókn og telur Fagráðið, sem boðin var aðstaðan, að hún muni ekki nýtast. Það er einróma mat stjórnar að ekki hafi tilgang að eiga sæðingarhúsið í Gunnarsholti lengur og halda annari aðstöðu þar og mun stjórnin standa að tillögu um það efni hér á eftir. 
Sýningarhald samtakanna var eftir venju á liðnu ári. Ræktun 2006 var haldin í apríl, folaldasýning í september  og ungfolasýning í mars. Sýningarnar tókust vel en aðsókn var heldur dræmari  á ræktunarsýninguna, sem er á viðkvæmum tíma, því framboð af sýningum er mikið þegar kemur fram á vorið.  Nefnd á vegum stjórnar, skipuð varastjórnarmönnum, þeim Bjarna, Magnúsi og Sigurði lagði fram tillögur um ýmiskonar viðbætur við sýningarnar sem ætlunin er að reyna að útfæra a.m.k. að hluta á næstu sýningum. Á folaldasýningunni voru tilnefnd heiðurshryssa og afreksknapi ársins að venju. Gola frá Brekkum var tilnefnd sem heiðurshryssa en afreksknapi 2006 var tilnefndur Daníel Jónsson og er hann vel að þeim titli kominn þó fleiri hafi bankað þar á.  Jón Vilmundarsson og Örn Karlsson hafa, eins og fyrr, séð um valið sem ekki var auðvelt að þessu sinni.  Þeim fer sífellt fjölgandi sem til greina koma og sást það glögglega á síðasta landsmóti hve samkeppnin er orðin hörð milli sýningarmanna.
Næsta laugardag, þann 24.mars, verður ungfolasýningin og Ræktun 2007 verður 28. apríl. Umsjónamaður og skipuleggjandi sýninganna fyrir okkar hönd verður sem fyrr Óðinn Örn.
Galsi er eini stóðhestur samtakanna eins og kunnugt er. Fullt var undir hann þegar hann var hjá okkur á síðasta sumri og er það vafalaust vegna góðs gengis Stála á síðasta ári. Áhyggjur höfum við þó af því hve illa hélt undan honum.  Marjolýn og Kristinn í Árbæjarhjáleigu munu halda hann að venju, en hann verður þar á seinna gangmáli í sumar. 
Samtökin hafa staðið fyrir skoðanakönnun á viðhorfi félagsmanna til starfseminnar og einstakra viðfangsefna og var markmiðið að fá félagsmenn til að leggja stjórninni lið við að móta starf og stefnu samtakanna. Samtökin hafa gengið í gegnum mikið breytingaskeið og verða að mæta betur aðstæðum nútímans með öðrum áherslum og annari framtíðarsýn. Rekstrarumhverfi greinarinnar, svo og viðhorf fólks almennt til félagsstarfs í dag breytir kröfum félagsmanna til samtakanna. Þessu verður að mæta og laða okkar nauðsynlega grunnstarf að aðstæðum hverju sinni. Ekki er að fullu búið að lesa út úr könnunni en hún gefur okkur góða mynd af vilja félagsmanna um þau mál og verkefni sem spurt var um. Bráðabirgðaniðurstöður úr þeim spurningum sem auðveldast er að vinna úr liggja nú fyrir, en 130 félagsmenn hafa sent inn svör sín. (Ekki settar inn í skýrsluna þar sem fullnaðarvinnsla hefur ekki farið fram). Það verður svo verkefni stjórnar að nýta þessar upplýsingar til að bæta félagsskapinn. Að sjálfsögðu verður ætíð að láta þau markmið eða stefnu sem lögin kveða á um vera leiðarljós. Við verðum að endurskoða á hverjum tíma þau markmið ef við teljum að þau eigi ekki við lengur.  Í lögunum segir m.a. að vinna eigi ötullega að ræktun íslenska hestsins svo og að góðu uppeldi, aðbúnaði og tamningu hrossa. Standa að öflugri fræðslu og útbreiðslustarfi. Vinna að sölumálum fyrir reiðhesta, kynbótahross og hrossaafurðir, jafnt á innlendum sem erlendum mörkuðum og vinna að öðrum hagsmunamálum hrossaræktenda. Allt er þetta mikilvægt fyrir greinina en spurning hvort þetta eigi allt við í okkar félagsstarfi í dag.  Að hluta til eru þessi markmið unnin í gegnum okkar móðurfélag, Félag hrossabænda, en beint og óbeint eru þau á okkar verkefnaskrá.
Félagsmenn samtakanna  eru nú 433 og eru tæplega 300 af þeim austan Hellisheiðar.  Árið 1949 var Hrossaræktarsamband Suðurlands stofnað og 1996 voru deildir Félags hrossabænda  á svæðinu og Hrossaræktarsambandið sameinað og nefnt eftir það Hrossaræktarsamtök Suðurlands.  Þetta er rifjað upp hér til að minna á að félagsmenn í þessu búgreinafélagi eru blandaður hópur úr dreifbýli og þéttbýli sem hefur ekki hliðstæðu í öðrum búgreinafélögum. Þrátt fyrir þetta eru hagsmunamálin hjá okkur þau sömu í flestum atriðum.  Hins vegar verður fróðlegt að greina hvort mismunandi sjónarmið eða afstaða kunni að koma fram í skoðanakönnunni eftir búsetu.
Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur á síðustu misserum gert sig gildandi á sviði hrossaræktar og hestamennsku, sem er vel. Rætt hefur verið um að stefna ætti að samstarfi við LbhÍ., gæti t.d. námskeiðahald á ýmsum sviðum verið byrjunin.  Í þessu eru sóknarfæri fyrir báða aðila. Skólinn þarf að sækja styrk sinn í greinina, vera með höndina á „púlsinum” til að skynja betur þarfir og væntingar grasrótarinnar. Það er okkur bændum einnig mikilvægt að vera betur meðvitaðir um mikilvægi skóla- og rannsóknarstarfs og hafa áhrif á stefnuna. Við eigum þess kost í kvöld að hlusta á okkar ágæta félaga, Ágúst Sigurðsson sem sér örugglega marga fleti á nánara samstarfi.
Eins og er kunnugt er mikill uppgangur í greininni og ríkir mikil bjartsýni á framtíðina.  Umtalsverðum fjármunum hefur verið veitt í hana á síðustu árum af almannafé í formi stuðnings í ýmis brýn verkefni.  Síðast er myndalegt framlag í uppbyggingu reiðhalla sem kemur til með að bæta mjög aðstöðu þeirra sem stunda hestamennsku og gæti á hinn bóginn stuðlað að meiri eftirspurn á reiðhrossum.  Auk þess eru víða að rísa reiðskemmur hjá bændum, en slík aðstaða er orðin nauðsynleg þar sem stundaðar eru tamningar. Markaður fyrir reiðhross hefur verið líflegur, sérstaklega innanlands og verð hækkað.  Menntun og þekking hefur aukist í greininni á flestum sviðum og aldrei höfum við getað státað af jafn mörgum góðum tamninga- og sýningamönnum.  Við höfum aðgang að gagnagrunni sem geymir upplýsingar um íslensk hross, hvar sem þau eru, sem er einstök sérstaða.  Til þess að standast þá samkeppni sem við mætum nú í vaxandi mæli á mörkuðum okkar fyrir reiðhross þurfum við að skipuleggja okkur betur, nýta sérstöðu okkar sem er meira samþjappað magn góðra ræktunargripa, þekking og mikið úrvali góðra tamningarmanna.  Ekki má gleyma menntasetrum okkar, Hólum og Hvanneyri sem eru mikilsverð í þessu samhengi.  
Þó stjórnvöld hafi staðið sig á margan hátt vel gagnvart greininni á undanförnum árum vil ég nefna mál sem mjög brýnt er að lagfæra. Löggjafinn leggur á okkur þá kvöð að innheimta fyrir ríkið virðisaukaskatt  en aðstæður til þess eru vonlausar.  Við flytjum út góðan hluta af framleiðslu okkar án virðisaukaskatts.  Síðan er innanlandsmarkaðurinn, sem á að vera með vsk eða 25,4% hærri og engin skilyrði eða hvati til að geta innheimt hann.  Kaupendur hér segja með réttu að óeðlilegt sé að þeir greiði 24,5% hærra verð en þeir sem búa erlendis. Þeir sem reyna að innheimta skattinn verða að greiða hann úr eigin vasa því kaupandinn greiðir hann ekki.  Við verðum að gera þá kröfu til framkvæmdavaldsins að hægt verði að framkvæma þessa innheimtu.  Leiðina tel ég vera að færa skattþrepið niður í 7%. Þessi innheimtu kvöð sem sett er á greinina leiðir það einnig af sér að of stór hluti veltunnar kemur ekki fram.  Mikilvægi hennar er því ekki metið sem skyldi sem gerir okkur erfiðara fyrir að berjast fyrir ýmsum hagsmunamálum okkar. Samkvæmt skiptingu verðmæta landbúnaðarframleiðslu 2004 vóg greinin aðeins um 2% af heildarverðmæti í landbúnaði samkvæmt opinberum tölum.
Góðir félagsmenn ég læt þetta nægja að sinni og þakka ykkur gott samstarf og sérstaklega stjórnarmönnum og okkar ágæta aðstoðarmanni, Höllu Eygló.


3. Ársreikningur
Helgi Eggertsson fór yfir reikninga samtakanna.
Niðurstaða reikninga:
Gjöld:         4.350.496 kr
Tekjur:       4.619.549 kr
Hagnaður:   269.053 kr


Eignir:     23.369.356 kr
Skuldir:     5.261.274 kr


4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Engar umræður.


5. Reikningar afgreiddir
Samþykktir samhljóða


6. Tekin ákvörðun um félagsgjald 2006, tillaga frá stjórn
Lagt til að árgjaldið verði óbreytt eða 4.000 kr auk seðilsgjalds. Tillagan samþykkt.


7. Kosning 2 manna í stjórn og 3 til vara
Úr stjórn eiga að ganga Brynjar og Hannes, þeir gefa ekki kost á sér áfram.

Tillaga kom um að kjósa Berthu Kvaran og Bjarna Sigurðsson. Samþykkt.

Tillaga kom um að kjósa Sigurð Sigurðarson, Bjarna Þorkelsson og Hlyn Stein Kristjánsson sem varamenn. Magnús Trausti gefur ekki kost á sér áfram. Samþykkt. 

8. Kosning 2 skoðunarmanna og 2 til vara
Tillaga frá stjórn um að skoðunarmenn verði Guðmundur Gíslason og Sveinn Sigurmundsson og til vara Pétur Ottósson og Sigurbjartur Pálsson. Samþykkt.


9. Kosning fulltrúa og varamanna á aðalfund BSSL (5 ) og aðalfund FH (10).
Tillaga frá stjórn um að á aðalfund BSSL mæti Bergur Pálsson, Helgi Eggertsson, Hrafnkell Karlsson, Þuríður Einarsdóttir og Bertha Kvaran. Til vara verði, Bjarni Þorkelsson, Helgi Kjartansson, Ásmundur Lárusson og Jón Jónsson. Ekki komu fram fleiri tillögur og tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.

Tillaga frá stjórn um fulltrúa á aðalfund FH, þar mæti  aðal- og varastjórn HS auk Brynjars Vilmundarsonar og Freyju Hilmarsdóttur. Til vara Kári Arnórsson, Sveinn Steinarsson, Jón Vilmundarson, Ragnar Lárusson og Bergur Pálsson. Ekki komu fram fleiri tillögur og tillagan því borin undir atkvæði . Samþykkt.


10. Tillögur lagðar fram og kynntar
Kári Arnórsson las tillögu frá stjórn:
“Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn að Þingborg 20. mars 2007, samþykkir að gefa stjórn heimild til að selja sæðingastöðvarhúsið í Gunnarsholti  og þann búnað sem starfseminni fylgdi sem er í eigu samtakanna. Jafnframt verði veitt heimild til að leigusamningi við landbúnaðarráðuneytið á stóðhestastöðvarhúsinu verði sagt upp”.
Hrafnkell las upp greinargerðina
“Á síðasta aðalfundi var samþykkt tillaga um að bjóða Fagráði í hrossarækt aðstöðuna í Gunnarsholti fyrir frjósemisrannsókn sem ætlunin var að hefja á síðasta ári. Nú hefur ekki orðið að umræddri rannsókn og fyrir liggur að fagráðið sér ekki fram á að aðstaðan verði nýtt að þeirra hálfu. Rekstrarfélag sæðingastöðvarinnar, Sæðingarstöðin í Gunnarsholti ehf, hefur ekki hug á að reka sæðingastarfsemi í Gunnarsholti eins og horfur eru í dag. 
Hrossaræktarsamtökin hafa stóðhestahúsið í Gunnarsholti á leigu og hafa endurleigt það undir tamningaaðstöðu með þeim fyrirvara að hægt verði að nota hluta hússins ef sæðingar eða rannsóknir yrðu framkvæmdar í Gunnarsholti.
Þar sem ekkert bendir til að aðstaða samtakanna í Gunnarsholti  verði nýtt í nánustu framtíð er nú leitað eftir heimild aðalfundar til að selja eignina.  Hér er aðeins verið að afla heimildar fyrir sölu eignarinnar, en ein af forsendum sölu er að sanngjarnt verð fáist”.

Hrafnkell sagði nokkuð víst að Landgræðslan hefði áhuga á að kaupa sæðingastöðvarhúsið.


11. Umræður og afgreiðsla tillagna
Kári sagði þetta mikilvæga ákvörðun og hvatti fundarmenn til að tjá sig um tillöguna. Benti einnig á að þetta væri aðeins heimild til sölu og eignin yrði ekki seld nema ásættanlegt verð fengist.

Hrafnkell sagði að vissulega væri mikil eftirsjá af þessu starfi í Gunnarsholti en hins vegar yrði að líta á þetta raunsæjum augum. Nú hefði sæðingarstöðvarhúsið staðið autt í tvö ár. Stjórnin teldi þetta einu færu leiðina. Í raun hefðu samtökin ekki heimild til að endurleigja stóðhestastöðvarhúsið þó það hefði verið gert undan farin ár.

Kári minnti á að samtökin hefðu reynt að fá ræktendur á landsvísu til að sameinast um sæðingastöðina en það hefði ekki reynst áhugi fyrir því.

Páll Stefánsson sagði að þetta starf sem hófst 1997 hefði skilað mikilli þekkingu og menn þurfi því ekkert að vera bangnir yfir því að hafa farið út í þessa starfsemi. Sérstaða Íslands væri sú að hér væru notaðir fjölda margir stóðhestar og því þyrfti í raun ekki að þynna sæði til að hægt væri að fá meiri notkun á einstaka hesta, nóg væri af mjög góðum hestum. Frystingin hefði einnig skilað greininni mikilli þekkingu og það væri ljóst að sæðisgæði væru tæpast nægjanleg miðað við þær aðferðir sem notaðar væru í dag. Hrafnkell hefði komið með þá hugmynd að nýta stöðina fyrir frjósemisrannsóknir og var skipaður fimm mannahópur til að skoða þau mál. Sigríður Björnsdóttir dýralæknir og Guðlaugur Antonsson hefðu sent út bréf til rúmlega 240 stóðhestseigenda til að kanna áhuga manna um að fá upplýsingar um notkun hestanna o. fl. Svör bárust frá 12 aðilum. Í ljósi þessa væri ekki að sjá að neinn áhugi væri á þessu. Páll sagðist telja að rannsóknir á þessu sviði væru betur komnar í akademísku umhverfi en ekki hjá dýralæknum sem þyrftu að lifa á höltum hestum og súrdoðakúm. 

Ágúst Sigurðsson sagðist verða að játa að hann hefði á sínum tíma stutt það að koma þessari starfsemi á stað. Hún hefði skilað mikilli þekkingu sem annars væri ekki til, þess vegna þyrftu samtökin ekki að sjá eftir því að hafa farið út í þetta. Annað gleðilegt við þetta væri að það hefði sýnt sig að íslenskir stóðhestar stæðu sig best í sínu náttúrulega umhverfi. Greinin væri í mikilli þróun og því ættu menn að halda ótrauðir áfram við að gera rannsóknir. Trúlega væri það þó rétt hjá Páli að þar væru best komnar í akademísku umhverfi.  Allar breytingar tækju sinn tíma og nú tæki nýr kafli við.

Kári las tillöguna upp aftur og hún var síðan borin undir atkvæði og samþykkt.12. Íslenski hesturinn- ævintýrið er rétt að byrja, Ágúst Sigurðsson
Ágúst byrjaði á því að þakka fyrir að hafa verið boðið á fundinn. Það væri endalaust hægt að mæra þennan frábæra hest sem íslenski hesturinn væri. Fullt væri til af góðum stóðhestum og engar hömlur á því hvaða stóðhesta ræktendur mættu nota. Hann ætlaði í þessu erindi sínu þó fyrst og framst að fjalla um tvennt, annars vegar rannsóknir og hins vegar menntun. Hann fjallaði stuttlega um stofnun LbhÍ og sagði að skólinn hefði orðið til við samruna þriggja stofnanna, þ.e. Bændaskólanum á Hvanneyri, Rannsóknarstofnun landbúnaðarins og Garðyrkjuskólans á Reykjum. Skólinn hefði fjögur megin verkefni og þau væru; menntun, rannsóknir, varðveisla á þekkingu og þjónustuverkefni svo sem efnagreiningar.

Háskólinn skiptist í þrjár deildir; auðlindadeild, umhverfisdeild og starfs- og endurmenntunardeild. Hestafræðin væri undir auðlindadeildinni. Allt þetta sprettur upp úr hefðbundnum landbúnaði en umhverfismálin fá sífellt aukið vægi.

Sérstaða skólans er að 60 % starfseminnar snýst um rannsóknir sem er meira en nokkur annar íslenskur háskóli getur státað af. Kemur til úr af RALA.

Hesturinn á eftir að verða ennþá merkilegri og útbreiðsla hans að vaxa.

Markmið skólans er að auka rannsóknir í hrossarækt en í gegnum tíðina hafa margar litlar rannsóknir verið gerðar í sambandi við lokaverkefni hjá nemum í skólanum. Þessar tiltölulega litlu rannsóknir hafa skilað hagnýtum upplýsingum. Hins vegar hafa ekki verið gerðar neinar mjög stórar rannsóknir. Á árunum 1997-2003 var gerð nokkuð stór rannsókn á félagshegðun hrossa í hóp. Nú í sumar fer af stað rannsókn á félagshegðun hrossa í stóði með graðhestum. Góður styrkur fékkst úr Rannís til þessarar rannsóknar sem eru tíðindi í sjálfu sér þar sem sjóðurinn hefur ekki áður styrkt verkefni í sambandi við hross. Stóðið sem aðallega verður fylgst með er í Seli í Austur- Landeyjum. Þessi rannsókn er í raun grunnrannsókn. Annað sem stendur til að skoða eða er verið að skoða er; erfðafjölbreytileiki, áhrif skyldleikarækar á bygginu/hæfileika, þróun skyldleikaræktar, þróun á kynbótamatskerfinu og þar er Þorvaldur Kristjánsson okkar maður. Litaerfðir, þar hefur Guðni Þorvaldsson nú þegar sannað að kampavínslitur er ekki til í íslenskum hrossum þetta er bara leirljós litur. Hann er núna að skoða ásamt Guðrúnu Stefánsdóttur fjölbreytileika í litum og litbrigðum. Í sambandi við aðbúnað og velferð eru í gangi eftirfarandi rannsóknir:

* Heppileg stíustærð
* Atferli og vellíðan í misstórum stíum
* Hitalagnir í stíugólfum (styrkt af Orkustofnun)
* Áhrif á hestinn
* Hugsanlegur sparnaður á spæni
* Ákjósanleg hitavatnsnotkun
* Einföld/ ódýr / hestvæn hús – samvinnuverkefni við aðra á Norðurlöndum.

Hestamennskan er mikið að breytast og fullt af nýju fólki að byrja. Hún er að færast út í það að verða ríkra manna íþrótt. Hesthúsin eru að verða ofboðslega dýr. Gaman að því ef maður á fullt af peningum. Skólann langar að skoða hina leiðina þar sem húsin eru ódýr, t.d. lausaganga. Slík hús eru að færast í aukana erlendis. Margir telja að slík hús séu hestvænni.

Uppruni íslenska hestsins –hvaðan komu forfeðurnir. Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir vinnur að þeirri rannsókn en hugmyndina að verkefninu átti Ingimar Sveinsson og hófst það 2006.

Rannsóknir á sviði sameindaerfðafræði eru mjög að eflast og þarna er notuð tækni sem bíður upp á endalausa möguleika.

Dæmi um verkefni sem eru að fara í gang í sameindaerfðafræði eru:
-Rannsókn á Y-litningi, hann er einfaldur og tiltölulega auðvelt að rannsaka
-kanna hvort Y- litningur hefur áhrif á frjósemi.

Elsa Albertsdóttir er að skoða erfðastuðla fyrir keppniseiginleika íslenska hestsins.

Þorvaldur Kristjánsson er að skoða tengsl byggingar og hæfileika þar sem þrívíddartækni er notuð.

Endalausir möguleikar á rannsóknum ef til er fjármagn og vel menntað fólk. Verðum að leggja mikla áherslu á að fá fólk til að mennta sig.

Að lokum kynnti Ágúst námsbraut í hestafræðum sem kennd verður við LbhÍ og Háskólann á Hólum.  Þetta mun vera fyrsta dæmið um sameiginlega prófgráðu tveggja háskóla á Íslandi. Námsdvölin mun skiptast á milli skólanna. Markmiðið að nemendur öðlist breiða og trausta þekkingu á öllum sviðum hestafræðanna. Vonandi er þetta bara upphafið að meiri samvinnu þessara skóla. Með aukinni menntun í hestafræðum tryggjum við okkur enn frekar í sessi sem upprunaland íslenska hestsins.

LbhÍ vill gjarnan vinna með hestamönnum t.d. Hrossaræktarsamtökum Suðurlands. Nauðsynlegt að sinna Suðurlandi betur bæði í sambandi við rannsóknir og endurmenntun.


13. Umræður og fyrirspurnir um erindið
Kári Arnórsson spurði hvenær skólarnir yrðu sameinaði í einn háskóla?

Haraldur Þórarinsson sagðist fagna því að það væri gróska í menntun í hestafræðum. Fræðsla um hestinn skipti miklu máli. Þess vegna væri unnið að því að fá nám í hestafræðum viðurkennt í framhaldsskólum. Það mál strandar meðal annars á því að reiðkennarar telja hámark að vera með sex nemendur í hóp í verklegu en menntamálaráðuneytið samþykkir ekki færri en 12.

Kári Arnórsson spurði hvort það væri ekki einsdæmi hversu margir stunduðu hrossarækt á Íslandi miðað við höfðatölu? Það hlyti að viðhalda fjölbreytileikanum.

Ásta Begga fagnaði því að menntun í hestafræðum væri að aukast en hún vildi sjá fjarnám frá Hólaskóla á Suðurlandi og taldi að það stæði greininni fyrir þrifum að svo væri ekki.

Ágúst svaraði því til að rekstrarform skólanna væri mismunandi en hann geti alveg séð fyrir sér meiri samvinnu háskólanna á landsbyggðinni. Fjarnám og staðarnám sé það í raun sami hluturinn. Nemendur fái nákvæmlega sama námsefnið, engu að síður þurfi meiri aga til að stunda fjarnám. Fjarnám í verklegum greinum er flóknara í framkvæmd. Vonandi munu spretta upp fleiri skólar því ef viljinn er fyrir hendi er allt hægt. Ágúst sagði að sér þætti vera eitt mál sem hestamenn kæmust ekkert áfram með og það væri að fá aukið fjármagn inn í keppnisgreinarnar. Einnig hlyti að vera að hægt að halda úti veðbönkum.

Kristinn Guðnason sagði að auka þyrfti rannsóknir á íslenska hestinum. Spurði hvaða verkefni ætti að hafa forgang hjá samtökum eins og HS? HS hefði tekið slaginn á sínum tíma og komið upp sæðingastöð í Gunnarsholti og hún hefði skilað miklu. Hvar eiga samtökin að drepa niður? Eiga þau að vinna að því að fá meira fjármagn inn í keppnisgreinarnar. Það væri vissulega styrkur að því fyrir Sunnlendinga að fá meira nám hingað.

Bjarni Þorkelsson tók undir það með Ástu Beggu að það væri á móti tímans straumi að skóli eins og Hólaskóli skuli gefa það út að ekki sé hægt að stunda fjarnám við hann. Vissulega eigi að gera miklar kröfur til nemenda og ef þeir standast þær er ekkert sem mælir gegn því að þeir stundi fjarnám. Að lokum þakkaði hann fyrir heimsókn Ágústar og þá bjartsýni sem ríkti í nafngift erindis hans “Ævintýrið er rétt að byrja”.

Ágúst Sigurðsson sagði að samtökin ættu að beita sér fyrir aukinni fræðslu. Ef samtökin ættu fjármagn þá væri eitt mjög brýnt verkefni sem þyrft að ganga í og það væri að koma á fót öflugum vísindasjóð. Eini sjóðurinn sem greinin hefði væri Stofnverndarsjóður og þar væru til 60 milljónir. Greinin þyrfti að eiga vísindasjóð upp á 200 milljónir. Fyrir vexti af slíkum sjóði væri hægt að tryggja fjármagn í rannsóknir upp á 20 milljónir á ári. Það væri kannski verk fyrir HS að tala við fjársterka aðila um að koma á fót slíkum sjóð. HS hefur alla tíð verið í forystu og verið leiðtogi á landsvísu. Ef HS tækist að koma á slíkum sjóð hefðu samtökin unnið mikið þrekvirki.

Hrafnkell sagði það gleðilegt hve mikið væri á dagskrá hjá Ágústi og félögum. Það væri ljóst að við ættum langt í land með að ná þeirri þekkingu sem þarf. Nú væri nýbúið að setja nýja reglugerð um aðbúnað hrossa. Bak við þá reglugerð þætti sér vanta rannsóknir, m.a. á því rými sem gefið er upp á stíustærðum. Hvað er það sem segir að þetta sé rétta stærðin? Sagði margt í þessari reglugerð vera þannig að það væri verið að gera hana fyrir hálfgerða óvita. Snorri Sigurðsson kynnti á ráðstefnunni í haust rannsóknir sem væru að fara af stað varðandi atferli hrossa og væri það vel. Það væri mikilvægt fyrir Suðurland að fá eitthvert starf hingað þar sem hlutirnir væru að gerast. Vonandi á HS eftir að eiga gott samstarf við LbhÍ. Það væri mikilvægt fyrir báða aðila. Þeir sem starfa við skólann þurfa að skilja þarfir og væntingar hrossaræktenda.


14. Önnur mál
Ásta Begga taldi brýnt að HS beitti sér fyrir því að lækka vsk á hrossasölu innanlands.

Hrafnkell var sammála Ástu Beggu um það. Ríkið legði þá skildu á greinina að innheimta þennan skatt fyrir sig þó hún hefði enga aðstöðu til þess. Þessu hefði ekki verið fylgt eftir með rökum af hendi ríkisins. Hann sagðist hafa rætt þetta við starfsmann ríkisskattstjóra en þar vildu menn auka hvatann til að menn skiluðu þessu. Greinin þyrfti að vinna í því að virðisaukaskatturinn yrði lækkaður í 7% og þessu máli þyrfti að fylgja eftir nú fyrir kosningar.

Brynjar Vilmundarson þakkaði Ágústi fyrir gott erindi. Sagði það furðulegt að virðisaukaskattur á hrossakjöti væri kominn í 7 % en enn væri 24,5% skattur á lífhrossum. Þetta sé mál sem þurfi að vinna í. Hann þakkaði fyrir þessi 9 ár í stjórn HS. Hann hefði haft Kristinn Guðnason sem formann fyrstu 3 árin, síðan  Jón Vilmundarson og að lokum Hrafnkel. Hann taldi sig hafa lært talsvert af þessum formönnum. Helgi og Ólafur hefðu verið með sér í stjórn allan tímann og þakkaði hann þeim og öðrum fyrir samstarfið í gegnum tíðina. Helgi hefði reyndar á köflum verið helvíti erfiður en inn við beinið væri hann vænsti maður. Sagðist feginn því að vera að hætta enda yrði hann sjötugur á árinu. Að lokum vildi hann brýna menn á að halda ótrauðir áfram, það væru mörg mál sem samtökin þyrftu að vinna að.

Hrafnkell þakkaði Brynjari og Hannesi fyrir þeirra störf. Brynjar væri afar eftirminnilegur maður. Hann bauð nýja menn í stjórn og varastjórn velkomna. Þakkaði frummælanda fyrir gott erindi og fundarmönnum fyrir góðan fund og sagði fundi slitið kl. 22:30.


/Halla Eygló Sveinsdóttir


back to top